Oft var þörf en nú er nauðsyn

Húsnæðismál á höfðuborgarsvæðinu hafa verið í brennidepli að undanförnu. Ástæðurnar fyrir erfiðri stöðu á markaðnum eru auðvitað margflóknar en flest spjót að beinast að borgaryfirvöldum í Reykjavík og núgildandi aðalskipulagi. Orð á borð við lóðaskortsstefna eru notuð og háværar raddir eru uppi um að hverfa á ný til ríkjandi skipulagsstefnu síðustu áratuga og þenja byggðina enn frekar út. 

Sjaldan ef nokkurn tímann hefur verið ríkari ástæða til að standa í lappirnar og halda sig við samþykktar skipulagsáætlanir þótt það sé dýrt, erfitt og sársaukafullt á akkúrat þessum tímapunkti. Eftir áratuga óráðssíu í skipulagi borgarinnar horfir loks til betri vegar og við eigum að styðja við bakið á þeim sem standa í ströngu við að bjarga þessari borg frá því að verða eitt risastórt og ósamkeppnishæft úthverfi að Norður-Amerískri fyrirmynd. Að snúa skipinu við bitnar vissulega á þeirri kynslóð sem núna þarf að búa óhóflega lengi í foreldrahúsum  en kynslóðirnar sem á eftir koma munu þakka þeim. Fórnarkostnaðurinn er fullkomlega þess virði og hann mun greiða götur þess að hér vilji ungt fólk búa, sem getur valið sér búsetu hvar sem er í heiminum. Meirihluti mannkyns, hvort sem okkur líkar það betur eða verr, vill nefnilega búa í vel skipulögðu borgarumhverfi. 

Að þessu sögðu má að sjálfsögðu slá hressilega í klárinn og reyna að hraða uppbyggingu á þeim sem svæðum sem bíða þess að iða af mannlífi, laus við loftmengun og bílaumferð. Það er því kærkomið að heyra af nýjasta útspili Þorsteins Víglundssonar. Það er ekki annað að sjá en að þarna sé talað af skilningi og skynsemi um stöðuna sem er uppi og fókusinn settur á rót vandans en Þorsteinn segir: 

„... ef það eigi að leggja svona mikla áherslu á þéttingu byggðar, sem sé á allan hátt skynsamleg aðgerð út frá landnýtingu, umhverfislegu samhengi og skemmtilegri borgarbrag, þá verði að einfalda ferlið í kringum þéttingarverkefnin. Í dag eru þau of tímafrek. Þau taka fleiri fleiri ár. Svo er sjálfstætt vandamál að það sé verið að selja reitina á milli manna áður en það er byggt á þeim. Það mætti alveg skoða hvort það eigi að vera byggingarkvaðir á þessum reitum. Að það verði að hefja framkvæmdir innan tilskilins tíma að því gefnu að öll leyfi séu fyrir hendi þannig að menn geti ekki bara verið að leika leikinn að bíða með verkefnið á teikniborðinu, bíða eftir að verðið hækki og selja það svo einhverjum öðrum sem ætlar að leika sama leikinn.“

Það er kærkomið að heyra ráðherra tala með þessum hætti í stað þess að hjóla í vel ígrundaðar og rökstuddar skipulagsáætlanir borgarinnar og slá þær útaf borðinu með ábyrgðarlausum hugmyndum um einfaldar lausnir við flóknum vanda. 


Hlandblautir skór í boði Samtaka iðnaðarins

Ekki alls fyrir löngu birtist stutt grein um húsnæðismál í Fréttablaðinu þar sem afar misvísandi fullyrðingum var haldið á lofti um byggingarkostnað af framkvæmdastjóra Samtaka iðnaðarins (SI). Í greininni segir orðrétt: 

Á síðustu árum hefur um og yfir 30% af nýju húsnæði verið í útjaðri byggðar á höfuðborgarsvæðinu. Hins vegar er vaxandi áhersla á þéttingu byggðar og mikill meirihluti byggingarverkefna á næstu misserum verður inni í miðju þéttbýli. Það kann að hafa ýmsa kosti í för með sér. Það vinnur hins vegar gegn hinu mikilvæga markmiði um að lækka byggingarkostnað enda er mun ódýrara að byggja uppi í jaðri byggðar.

Stuttu seinna steig aðstoðarframkvæmdastjóri SI fram í kvöldfréttum RÚV og fullyrti að auka þurfi framboð á "ódýrum lóðum" utan skilgreindra þéttingarreita. Til að fullkomna þrennuna birtist síðan aðalhagfræðingur samtakanna í viðtali við Fréttablaðið  og sagði  

„Fókusinn á höfuðborgarsvæðinu hefur verið að þétta byggð. Það eru ákveðnir kostir við það. Hins vegar samrýmist það illa hugmyndum um að reyna að ná niður byggingakostnaði og kostnaði við húsnæði,“. 

Af öllum þessum ummælum má hæglega draga þá ályktun að SI séu í einhverskonar skipulagðri herför gegn gildandi skipulagsáætlunum á höfuðborgarsvæðinu sem miða allar að þéttingu byggðar. Að þéttingaráformin séu lítið annað en sprikl sem skynsömu mennirnir þurfi að binda enda á. Samtökin eru með öðrum orðum að krefjast afturhvarfs til fortíðar í skipulagsmálum, þvert á ríkjandi stefnur nær allra þróaðra borga í heiminum í dag. 

Ekki tískufyrirbrigði

Þó svo að samtök og ýmsir þrýstihópar á borð við SI tali um þéttingu byggðar líkt og um sé að ræða óraunhæft tískufyrirbrigði sem „kunni að hafa ýmsa kosti í för með sér“ er veruleikinn allt annar. Þvert á móti er þétting byggðar eitt verkfæri af mörgum sem ætlað er að leysa þann grafalvarlega vanda sem samfélög manna standa frammi fyrir vegna óheftrar útþenslu byggðar síðustu áratugi. Það hefur nefnilega komið á daginn að allt ódýra húsnæðið sem búið er að byggja á öllum ódýru lóðunum er í raun rándýrt og lífshættulegt. Ódýrara fasteignaverð í úthverfum segir einungis hálfa söguna og það er með ólíkindum að jafn stór samtök og SI skuli standa fyrir öðrum eins einföldunum og raun ber vitni. 

Tölum um raunkostnað

Fasteignaverð og byggingarkostnaður eru stærðir sem tiltölulega auðvelt er að ná utan um. Uppbygging innviða á borð við lagna- og veitukerfi, umferðarmannvirki, göngu- og hjólastíga er líka eitthvað sem meginþorri fólks skilur en hefur þó minni tilfinningu fyrir enda hlaupa upphæðirnar á milljörðum. Loftmengun, svifryksmengun, loftlagsbreytingar, og versnandi lýðheilsa er síðan bleiki fíllinn í herberginu sem fæstir vilja raunverulega tækla þó svo að þá fyrst séum við farin að tala um afleiddan kostnað sem hleypur á tugum milljarða. Allt er þetta kostnaður og vandamál sem aukast með auknu framboði á ódýru húsnæði á ódýrum lóðum. Raunkostnaðurinn við skammtímalausnir á borð við þær sem SI eru að bjóða neytendum upp á er lítið annað en óútfylltur tékki sem kynslóðir framtíðarinnar þurfa að borga dýrum dómum. 

Í millitíðinni er það auðvitað iðnaðurinn og atvinnulífið sem blæðir, með stóran hluta vinnuaflsins fastan í umferðarteppum, veikan heima vegna óheilbrigðs lífstíls og kyrrsetu eða liggjandi inn á opinberum heilbrigðisstofnunum vegna lífsstílstengdra sjúkdóma. Allt eru þetta vel þekktar afleiðingar óhagkvæms og óheilbrigðs borgarumhverfis. 

Rót vandans  

Auðvitað er það rétt að eftir því sem að land verður takmarkaðri auðlind þá hækkar lóðaverð. Það sem hækkar verðið hinsvegar ennþá meira eru innbyggðir hvatar í kerfinu sem hvetja m.a. til spákaupmennsku með lóðir sem hækkar verð fram úr hófi. Eitt lítið dæmi um þetta er t.d. Barónsreiturinn í Reykjavík, en í fljótu bragði virðist sá reitur hafa skipt um eignarhald fimm til sex sinnum á síðustu 5 árum. Í hvert skipti hækkar verðmiðinn og þrýstingurinn á aukið byggingarmagn og breytt skipulag eykst eðli málsins samkvæmt með hverri sölu. Ekkert bólar hinsvegar á byggingaframkvæmdunum sjálfum. Þetta á við um fjölmargar aðrar lóðir í bænum þar sem samþykkt skipulag liggur fyrir en lóðarhafarnir bíða og bíða á meðan eftirspurnin eftir húsnæði eykst og svo selja þeir til einhvers sem er enn áhættusæknari og ætlar ýmist að bíða enn lengur eða freista þess að fá nýtt skipulag samþykkt með auknum byggingaheimildum. Allt er þetta auðvitað úthugsað af greiningaraðilum sem markvisst halda aftur af framboðinu til að auka enn frekar eftirspurnina. Vandinn er ekki skortur á lóðum innan vaxtarmarka borgarinnar heldur miklu frekar sá að aðilarnir sem eiga lóðirnar eru ekki og ætla sér ekki að byggja á þeim. 

Til viðbótar má auðvitað nefna of flókið regluverk, hátt vaxtastig, vont lánakerfi, og skammtímaleigu húsnæðis til ferðamanna, allt hlutir sem SI og fleiri hafa ítrekað nefnt að þurfi að einfalda og breyta til að bæta ástandið á húsnæðismarkaðnum. 

Hvað er til ráða? 

Einfaldar skammtímalausnir við jafn flóknum vanda og við er að etja í húsnæðismálum eru ekki líklegar til árangurs og umræðan verður að færast á ábyrgara plan en að halda því fram að frekari útþensla byggðar sé ódýr eða hagkvæm á einhvern hátt. Það er einfaldlega rangt. Beinum sjónum okkar frekar að kerfinu og búum til hvata fyrir fjárfesta og lóðarhafa til að byrja að byggja og láta af spákaupmennsku með lóðir og íbúðarhúsnæði. Styttum gildistíma deiliskipulagsáætlana og byggingarleyfa og veltum upp hvaða leiðir eru færar til að takmarka heimildir fasteignafélaga til að söðla undir sig mörg hundruð íbúða eignasöfn sem aldrei rata inn á almennan leigumarkað. 

Það sem er til ráða er að standa í lappirnar og byggja upp hagkvæma, heilbrigða og umhverfisvæna borg í samræmi við löngu tímabærar skipulagsáætlanir sem loksins hafa tekið gildi. Það tekur tíma og kostar peninga en er engu að síður eina rétta leiðin. Pissum ekki enn eina ferðina í skóna okkar með því að brjóta nýtt land í jaðri byggðar og senda reikninginn á komandi kynslóðir. 1+1=3

Umræðan um nýjan landspítala og staðsetningu hans sprettur reglulega upp og eins og gengur og gerist í umræðu um stóra málaflokka á borð við heilbrigðis- og skipulagsmál þá skipar fólk sér í flokka, með eða á móti, tilteknum ákvörðunum. Stórar skipulagsákvarðanir eru þess eðlis að þær verða alltaf (og eiga að vera) umdeildar. Í tilfelli Landspítalans er ljóst að enginn staðsetning er fullkomin og þar er Hringbraut að sjálfsögðu enginn undantekning. Þegar rætt er um nýja staðsetningu á umræðan hinsvegar til að snúast upp í að gallar núverandi staðsetningar eru tíundaðir og kostir annarra staða upphafðir líkt og þeir séu gallalausir. Eðli málsins samkvæmt veldur þetta ruglingi og myndar óþarfa skotgrafir. Þetta á auðvitað við um flestar aðrar rökræður þar sem röksemdir eru valdar eftir þörfum hverju sinni 

Hvað á heima miðsvæðis?

Vegna þess hve litla þekkingu ég hef á rekstri og hönnun spítala (sem þó er væntanlega aðalatriðið í stóra spítalamálinu) þá snúa mínar hugleiðingar varðandi þetta mál eingöngu að skipulagsmálum en þar liggja einmitt margar röksemdir þeirra sem hafa efasemdir um staðsetningu spítalans við Hringbraut. Stærsti samnefnarinn í skipulagsmálum er yfirleitt umferðar- og bílastæðamál og á þeim forsendum er auðvelt að færa rök fyrir því að Hringbraut sé vonlaus kostur vegna umferðarálags á Hringbraut, einkum og sér í lagi við flöskuhálsinn sem myndast þar sem nýja Hringbrautin mætir þeirri gömlu. Þetta eru hlutir sem flestir tengja við og hafa þar af leiðandi réttmætar skoðanir á. 

Ég tel hinsvegar að líta þurfi á þetta mál í mun víðara samhengi og horfa á miðbæinn og aðliggjandi miðsvæði í heild. Spurningin sem við þurfum að spyrja okkur að er hvernig miðborg við stöndum frammi fyrir ef stærsti vinnustaður landsins fer og í staðinn koma íbúðir og hótel? Viljum við að miðborgin sem atvinnusvæði verði enn einsleitari en hún er nú þegar, eða felast tækifæri í því að tryggja í sessi stóra og fjölbreytta vinnustaði sem draga að allskonar fólk í miðbæinn en ekki bara ferðamenn, starfsmenn ráðuneyta og stjórnmálafólk? 

Margir taka andköf yfir fyrirhuguðu byggingarmagni spítalans við Hringbraut en á móti þurfum við að spyrja okkur hvaða byggingar mega taka meira pláss en aðrar í þéttri byggð. Eru það bara fjármálastofnanir og háskólar en ekki spítalar? (Talandi um fjármálstofnanir og háskóla þá er reyndar ekki langt síðan að uppbyggingaráform Landsbankans við Austurhöfn voru gagnrýnd harðlega og nú er ljóst að Listháskóli Íslands mun ekki rísa á Frakkastígsreit þrátt fyrir mjög spennandi áætlanir þar um.) Fyrir vikið snýr nær öll uppbygging í miðbænum að túrisma, hvort sem um ræðir hótel eða íbúðarhús, sem flest enda í skammtímaleigu til ferðamanna þrátt fyrir fögur fyrirheit um annað. 

Þetta á hinsvegar ekki við um Vatnsmýrina, en út frá borgarskipulagi gegnir svæðið lykilhlutverki í tengslum við fyrirhugaða uppbyggingu nýs spítala við Hringbraut. 

Vaxtapóll í Vatnsmýri

Með þróun atvinnusvæðis í Vatnsmýri og nágrennis, þar sem lögð er höfuðáhersla á uppbyggingu og þróun háskóla og rannsóknastarfsemi, fyrirtækja og stofnana á sviði hátækni og nýsköpunar, heil­brigðisvísinda og líftækni og heilbrigðisþjónustu, felst einstakt tækifæri. Grunnforsendan er hinsvegar sú að uppbyggingin fari nokkurnvegin jafnhliða fram á svæðum við Háskóla Íslands við Suðurgötu, á Vísindagarðasvæðinu við Njarðargötu, með uppbyggingu nýs Háskólasjúkrahúss við Hringbraut, Hlíðarendasvæðinu og við Háskólann í Reykjavík við Öskjuhlíð. Þannig getur skapast öflugur kjarni í Vatnsmýrinni sem yrði vaxtarpóll framtíðaruppbyggingar atvinnu á Íslandi. Jafnframt gæti risið blönduð byggð á svæðinu sem myndi styrkja kjarnann enn frekar og gjörbreyta samgöngum og byggðarmynstri borgarinnar. Allt er þetta í samræmi við aðalskipulag Reykjavíkur og mikilvægur þáttur sem ekki má taka út fyrir sviga í umræðu um spítalann.

1+1 er ekki alltaf 2

Máttur borgarsamfélaga felst einna helst í nálægðinni því að afköst og sköpunargáfur fólks verða meiri í samfélagi við aðra sem hafa sömu verkefni og áskoranir til úrlausnar. Þar af leiðandi er summan af 1+1 stærri en 2 í öflugum borgarsamfélögum vegna þess hve hratt upplýsingar og þekking flæðir á milli fólks, sem skilar sér í aukinni framlegð og hagkvæmni hjá fyrirtækjum og stofnunum sem sem eru í nálægð við hvort annað í stað þess að standa ein og sér. Það er í þessari dýnamík sem framtíð nútímasamfélaga veltur að miklu leyti á og einmitt þess vegna má ekki líta framhjá þeim einstöku tækifærum sem felast í Vatnsmýri og hvergi annars staðar í borginni. 

Hvort að þessi sjónarmið eða skipulagsmál yfir höfuð eiga að ráða för við staðarval spítala skal ósagt látið, en ef svo er þá hefur núverandi staðsetning við Hringbraut marga ótvíræða kosti fram yfir aðra staði, að því gefnu að þar sé hægt að byggja háskólasjúkrahús sem sinnir hlutverki sínu á fullnægjandi hátt. 

Suður Mjódd

Ég sé að fjölmiðlar í dag flytja fréttir af fyrirhuguðum flutningi bílaumboðsins Heklu í Suður Mjódd en samkvæmt þeim eru íbúar ósáttir við fyrirætlanirnar. Án þess að vilja tjá mig um málið umfram það sem hér hefur áður komið fram er ástæða til að benda á að myndbirtingar með öllum fréttum sem ég hef séð af málinu eru afar villandi. Ég læt því fylgja með eina mynd sem sýnir svæðið sem raunverulega um ræðir en ekki eitthvað allt annað (ég veit því miður ekki hver tók myndina). Án þess að hafa neina uppdrætti undir höndum þá skilst mér að lóðin sem um ræðir sé nokkurn veginn í jaðri svæðisins, alveg við Reykjanesbrautina. 

Að gefnu tilefni vek ég einnig athygli á því að hvað mislæg gatnamót taka ótrúlega mikið pláss í borgarlandinu líkt og sjá má á myndinni. Þeim má sannarlega mótmæla ef fólki er annt um skynsamlega landnotkun í borginni. Hinn eiginlegi morðingi

Í tilefni af alþjóðlega bíllausa deginum sem haldin er hátíðlegur í dag leggja ýmis fyrirtæki og opinberir aðilar sérstaka áherslu á samgöngumál um þessar mundir. Til að mynda veitti Reykjavíkurborg sína árlegu samgönguviðurkenningu í gær og Strætó býður upp á fríar ferðir í allan dag. Fréttablaðið tók sig hinsvegar til og ákvað að birta einhliða samantekt um umferðarmál í Reykjavík. Á vefsíðu Vísis var fyrirsögninni "Slysum leyft að gerast áframslegið upp á forsíðu og yfirskrift umfjöllunarinnar sjálfrar var "Skortir fé til að fækka slysum". Í blaðinu sjálfu leit greinin síðan svona út:

Slys eða ekki slys?

Það er óhætt að segja að í þessari umfjöllun sé af nægu að taka en líklega er best að byrja á að freista þess að skilgreina merkingu orðsins slys en um þá skilgreiningu hefur áður verið fjallað á þessari síðu í pistlinum Óhapp, slys eða áhættuhegðun. Afleiðingar árekstra og annarra óhappa í umferðinni eru oft á tíðum alvarleg meiðsli á fólki sem jafnvel leiða til dauða. Þetta eru staðreyndir sem eru á flestra vitorði, sér í lagi ökumanna og annarra vegfarenda. Við tökum meðvitaða áhættu með að hætta okkur út í umferðina til að komast á milli staða og á degi hverjum láta yfir 3.300 manns lífið í umferðinni á heimsvísu. Í mörgum tilfellum vita ökumenn nákvæmlega hvar hætturnar liggja, t.d. hafa gatna­mót Grens­ás­veg­ar og Miklu­braut­ar verið talin hættulegustu gatnamót höfuðborgarsvæðisins árum saman. Með slíka vitneskju í farteskinu er rétt að spyrja sig hvort verið sé að kalla hlutina réttum nöfnum þegar talað erum slys við slík gatnamót en oft er talað um að slysin geri ekki boð á undan sér. Það á hinsvegar tæpast við um umferðartengd óhöpp í borgum sem áratugum saman hafa ýtt undir aukna bílaumferð þrátt fyrir að bílar og ökumenn þeirra séu einn helsti dánarvaldur í heiminum í dag. 

Tölfræði eða tálsýn?

Í skýringarmyndinni sem fylgir umfjölluninni er slegið fram tölfræði sem rétt er að gera athugasemd við en framsetningin er einkar villandi. Í fyrsta lagi virðast tölurnar sem þarna birtast vera frá þremur mismunandi tímabilum. Í öðru lagi eru tekin fyrir 8 mismunandi gatnamót í Reykjavík en tölfræðin til vinstri á myndinni á augljóslega við um landið allt. Í þriðja lagi er ekki tekið fram hver eðlis og hversu alvarleg meint slys voru eða hver ferðamáti hins slasaða var. Allt skiptir þetta lykilmáli í umræðunni, einkum og sér lagi þegar talað erum mislæg gatnamót en sem dæmi má nefna að ef hluti þessara óhappa olli meiðslum á gangandi og hjólandi vegfarendum þá munu mislæg gatnamót gera lítið annað en auka hættuna fyrir þann hóp á meðan að umferðarhraði myndi aukast með tilheyrandi umhverfisáhrifum. 

Sofandi morðingi 

Að lokum er vitnað í tvo viðmælendur í greininni, annars vegar G. Pétur Matthíasson upplýsingafulltrúa Vegagerðarinnar og Ólaf Kr. Guðmundsson, varaborgarfulltrúa og einn ötulasta talsmann einkabílsins á Íslandi og þótt víðar væri leitað. Í sjálfu kemur fátt fréttnæmt fram í svörum upplýsingafulltrúans annað en að við mislæg gatnamót séu stór og dýr og að Reykjavíkurborg veiti ekki heimild fyrir byggingum slíkra mannvirkja í borgarlandinu. Ólafur talar síðan um að "umferðarmál í Reykjavíkurborg séu í lamasessi" og vitnar í umræðu erlendis þar sem að hans sögn "er talað um að ljósastýrð gatnamót séu í raun sofandi morðingi, því ef eitthvað klikkar þar gerist eitthvað slæmt". 

Nú veit ég ekki hvaða umræðu Ólafur er að vísa í en á þeim fimm árum sem ég nam skipulagsfræði erlendis þá heyrði ég þessari fullyrðingu aldrei fleygt fram, hvorki í ræðu né riti. Að vísu skil ég ekki alveg hver skilgreiningin á sofandi morðingja er, en líklega er það einhver sem fremur morð í svefni. Án frekari útúrsnúninga má draga þá ályktun að það sem að Ólafur á við er að ljósastýrð gatnamót veiti falskt öryggi og séu þannig valdur að alvarlegum umferðaróhöppum. Þetta stangast talsvert á við þær rannsóknir sem gerðar hafa verið síðustu áratugi en í þeim kemur yfirleitt fram að í yfir 90% tilvika séu það ökumenn og aksturslag þeirra veldur óhöppum í umferðinni en ekki umhverfið eða ökutækin sjálf. Mislæg gatnamót fyrir tugi milljarða eru ekki líklegt til að breyta miklu í þeim efnum. 

Hver er morðinginn?

Ef ætlunin hjá Ólafi var að varpa ljósi á orsakir dauðsfalla í samfélagi dagsins í dag þá eru samgöngumál í sjálfu sér ekki vitlaus umræðugrundvöllur en sá samgöngumáti sem við veljum okkur (eða neyðumst til að velja okkur) getur haft afgerandi áhrif á heilsu okkar og lífslíkur. Staðreyndin er sú að umferðaróhöpp sem leiða til dauða eiga ekki roð í dánarorsakir sem m.a. stafa af kyrrsetu og hreyfingarleysi. Eðli máls samkvæmt verða ekki öll dauðs­föll eða örorka rakin til einstakra áhættu­þátta en samkvæmt alþjóðaheilbrigðisstofuninni eru stærstu áhættuþættir heilsubrests í hinum vestræna heimi mataræði, ofþyngd, reykingar, háþrýstingur, starfstengd áhætta, hreyfingarleysi, há blóðfita, hár blóðsykur og áfengisneysla, í þessari röð. Rannsóknir sýna jafnframt að 10-15 mínútna göngutúr á dag dregur stórlega úr þessum áhættuþáttum, en það er einmitt tíminn sem það tekur fyrir flesta að ganga til og frá strætóbiðstöðvum á höfuðborgarsvæðinu. Þá er ótalin heilsufarslegur ávinningur af hjólreiðum, jafnvel þótt einunngis sé um að ræða nokkrar mínútur á dag. 

Bílaborgir drepa

Besta leiðin til fækka ótímabærum dauðsföllum í nútímasamfélagi og spara milljarða í útgjöldum til heilbrigðismála er að segja kyrrsetunni stríð á hendur og gefa fólki kost á að hreyfa sig í daglegu amstri. Öflugri almenningssamgöngur leika lykilhlutverk í þeim efnum og það eitt að gefa fleirum kostum á ganga í og úr strætó á leið til og frá vinnu mun bjarga fleiri mannslífum en nokkur mislæg gatnamót. Eftir áratuga óráðssíu eru ríki og borg blessunarlega á réttri leið í samgöngumálum en betur má ef duga skal. Mikilvægt skref í þeim efnum er að fjölmiðlar fjalli faglega um umferðar- og skipulagsmál og forðist villandi fréttaflutning og fyrirsagnir.  

 

Hekla víkur fyrir heimilum

Á fundi borgarráðs í gær var lagt fram bréf skrifstofu eigna og atvinnuþróunar vegna viljayfirlýsingar milli Reykjavíkurborgar og Heklu hf. um uppbyggingar á lóðum ásamt drögum að viljayfirlýsingu, en vonir standa til að Hekla flytji starfsemi sína á á 24 þúsund fermetra lóð í Syðri-Mjódd. Þetta eru jákvæðar fréttir fyrir borgarbúa en við þennan flutning losnar um mikilvægan þéttingarreit sem er staðsettur við þróunarás núgildandi aðalskipulags. Þó svo að byggingarmagn liggi ekki fyrir að svo stöddu er ljóst að reiturinn ætti að rúma 100 íbúðir hið minnsta án þess að hafa íþyngjandi áhrif á aðliggjandi byggð. 

Uppbygging á Heklureitnum svokallaða fangar að mörgu leyti hugtakið margumtalaða þétting byggðar vel en í því felst endurnýjun borgarinnar, þ.e. að byggja upp úr sér gengin og vannýtt svæði innan núverandi byggðar og bæta þar með borgarum­hverfið.

Að því sögðu má ætla að flutningurinn mæti einhverjum mótbárum meðal íbúa Breiðholts og eflaust munu forsvarsmenn ÍR leggjast gegn því að umræddri lóð í Mjóddinni verði úthlutað undir atvinnustarfsemi af þessu tagi á þeim forsendum að verið sé að þrengja að starfsemi íþróttafélagsins. Á teikningunni sem sjá má hér að neðan er hinsvegar ljóst að um er að ræða svæði sem liggur nær alveg upp við Reykjanesbrautina með tilheyrandi ónæði og svifryksmengun sem varla fer vel saman við íþróttaiðkun. Slík skilyrði ættu hinsvegar að hafa lítil áhrif á starfsemi Heklu sem mun án nokkurs vafa sóma sér vel á þessum nýja stað við fjölfarna stofnbraut.

Að svo stöddu er ekki annað sjá en að hér sé um góða skipulagsákvörðun að ræða og vonandi mun áframhaldandi þróunarvinna milli borgarinnar og lóðarhafa ganga hratt og örugglega fyrir sig. 

Fallegasta bílastæði borgarinnar?

Nú er ég enginn sérstakur áhugamaður um bílastæði nema þá helst ef umræðan snýst um aukna gjaldskyldu eða fækkun þeirra í borgarlandinu. Langflest bílastæði eru hálfgert eyland sem fæstir veita athygli enda ekki margt sem gleður augað. Það er hinsvegar ekki tilfellið á lóð Háskóla Íslands við Dunhaga í Reykjavík. 

Sjálfur hafði ég aldrei tekið eftir einstaklega vel snyrtum trjánum sem umkringja bílastæðið þar til mér var bent á þennan hálfgerða lystigarð af áhugakonu um trjárækt og garðyrkju sem er sérlega hrifin af metnaðinum sem þarna má finna. Sá aðili sem hefur veg og vanda af þessu framtaki á sannarlega hrós skilið en þarna liggur augljóslega margra ára vinna að baki.

Á leið minni um svæðið í gær tók ég nokkrar myndir sem tala sínu máli:

Uppfærsla:

Glöggur lesandi hefur nú bent á í athugasemd hér að neðan á að Páll Melsted, garðyrkjustjóri Háskóla Íslands á heiðurinn af þessari fallegu lóð en þann titil hefur hann borið síðan árið 1980. Árið 2011 fékk lóðin sérstaka fegrunarviðurkenningu Reykjavíkurborgar fyrir „aðlaðandi umhverfi og fallega mótuð tré á bílastæði þar sem fallega snyrtar aspir og sígræn tré gefa umhverfinu skemmtilegt yfirbragð,“ eins og segir í rökstuðningi dómnefndar. Vel gert Páll! 


Þróun húsa í Reykjavík - Háteigsvegur 3

Það getur verið gaman að rýna í þróun húsa í Reykjavík, einkum með tilliti til þéttingu byggðar og umræðu um uppbyggingaraðila sem oft eru sakaðir um að spá meira í fermetrafjölda en hönnun húsa. Háteigsvegur 3 er eitt þeirra húsa sem hefur tekið miklum breytingum á síðustu árum og inn á teikningavef Reykjavíkurborgar er hægt að rekja hönnunarsögu hússins upp að vissu marki.

Hér má sjá uppdrátt af suðurhlið hússins eins sem var samþykktur árið 1976. Þarna má sjá stóra glugga á jarðhæð sem þykja mjög eftirsóttir í dag og raunar er gerð krafa um götuhliðar á borð við þessa á mörgum svæðum í núgildandi Aðalskipulagi Reykjavíkur.

Árið 2005 virðist hafa verið lögð fram breytingartillaga á húsinu sem var synjað. Ég þekki ekki hvaða ástæður lágu þar að baki en líklega hefur hækkunin ekki samræmst þágildandi deiliskipulagi en eins og sjá má á uppdrættinum þá fær gluggasetningin á jarðhæðinni að halda sér en efri hæðum er breytt í íbúðir. 

Árið 2007 er síðan núverandi útlit hússins samþykkt í kjölfar deiliskipulagsbreytingar þar sem hluti þaksins er hækkaður enn frekar frá 2005 tillögunni og umrædd gluggasetning er á bak og burt. 

Að lokum má sjá mynd af húsinu eins og það lítur út í dag en því hefur verið breytt í íbúðarhús með 13 íbúðum. 

Fleiri hús en færri krana?

Nú heyrast víða þær raddir að mikið góðæri ríki í samfélaginu og ástandið minni á árin 2007 og 2008. Máli sínu til stuðnings vísar fólk til fjölda krana á höfuðborgarsvæðinu og margir fussa og sveia yfir hækkandi kranavísitölu.

Þessi umræða er óneitanlega svolítið sérstök því að á sama tíma á sér stað mikil umræða um stöðuna á húsnæðismarkaðnum og nauðsyn þess að byggja fleiri íbúðir eins fljótt og kostur er. Greiningaraðilar eru allir á sama máli um að gríðarleg uppsöfnuð þörf sé á húsnæðismarkaðnum og að henni verði ekki mætt nema byggja tugi þúsunda íbúða á næstu árum á höfuðborgarsvæðinu. Þetta var sannarlega ekki tilfellið árin 2007 og 2008 en þá verið að byggja íbúðir langt umfram eftirspurn.

Eftir efnahagshrunið er að sjálfsögðu eðlilegt að fólk setji spurningarmerki við fjölda byggingarkrana í höfuðborginni enda getur bólumyndun á fasteignamarkaði haft alvarlegar afleiðingar eins og allt of margir Íslendingar hafa reynt á eigin skinni. Það verður hinsvegar ekki bæði haldið og sleppt og eins og staðan er í dag þá er án efa ástæða til að fagna fjölgun krananna eftir langt og erfitt samdráttarskeið í byggingariðnaði. Við byggjum ekki hús án krana.

*Myndin fyrir ofan færsluna var fengin að láni hjá Vísi

Hugleiðingar um Hafnartorg

Skipulag Hafnartorgs hefur verið mikið til umræðu síðustu vikur eftir að Landstólpi kynnti hugmyndir um útilit húsanna sem unnar voru af PK arkitektum. Raunar er skipulagið sjálft nokkurn veginn óumdeilt en hið sama er ekki hægt að segja um útlit bygginganna. Þetta er umræða sem hefur verið rakin víða annars staðar og er óþarfi að fara nánar út í hér. Allt saman hið eðlilegasta og besta mál. 

Það sem vekur hinsvegar upp ófáar spurningar eru nýjustu fréttir af málinu en nú virðist vera sem forsætisráðuneytið eigi að fá að koma að hönnun bygginganna umdeildur gegn því að ríkið leigi af Landstólpa allt skrifstofuhúsnæði á svæðinu, alls um 6-7.000 fermetrar. Þetta verður að teljast áhugavert í ljósi þess að mikil eftirspurn hefur verið eftir því að hönnun svæðisins verði tekin upp með faglegum hætti, t.d. með því að boðað verði til nýrrar samkeppni og að ferlið verði opið og gagnsætt. Ég leyfi mér að kasta fram nokkrum hugleiðingum varðandi málið sem koma upp í hugann í fljótu bragði:

  • Hvaða arkitektar munu koma að endurhönnun húsanna og í gegnum hvaða ferli verða þeir ráðnir?
  • Er frestur til 12. febrúar 2016 (3 vikur) raunhæfur tímarammi til að vinna jafn umfangsmikla hönnunarvinnu og byggingarheimildir gera ráð fyrir? Þurfa hinu nýju arkitektar að vinna hönnunarvinnuna frá grunni eða fá þeir aðgang að þeim gögnum sem nú þegar er búið að vinna?
  • Hvað mun slík hönnunarvinna kosta og hver á að greiða fyrir hana?
  • Samræmast þessi vinnubrögð 4. grein siðareglna arkitektafélagsins?
  • Er æskilegt að einsleit starfsemi á vegum hins opinbera taki á leigu allt skrifstofurými Hafnartorgs? Hvaða áhrif mun það hafa á annan rekstur á svæðinu, t.d. hvaða kaffihús og verslanir kjósa að hefja rekstur í slíku umhverfi og hvaða íbúar kjósa að búa á svæðinu?
  • Hver er fjárhagslegur ávinningur Landstólpa af inngripum forsætisráðherra á svæðinu? Hvers virði er langtímaleigusamningur við ríkið á leigu á 7.000 fm skrifstofuhúsnæði á dýrasta fasteignasvæði landsins án útboðs?

Að lokum er rétt að leiða hugann að því hvernig landslagið í uppbyggingarmálum borgarinnar er að breytast í tíð núverandi ríkisstjórnar. Standa uppbyggingarverkefni (sem hafa farið í gegnum löglega skipulagsferla) og falla nú með skoðunum ráðamanna hverju sinni og við hverju mega mega fjárfestar og uppbyggingaraðilar búast á næstu árum? 

Mun óvissuástand um hvort að framkvæmdir geti hafist ríkja alveg þar til að steypan byrjar að flæða? Er þessi breytti veruleiki til þess fallinn að flýta fyrir lausnum á húsnæðisvanda borgarinnar eða draga úr nauðsynlegri uppbyggingu? 

Þetta eru allt hlutir sem þarf að ræða í víðu samhengi til að hægt sé að meta kosti og galla hins breytta landslags.