Lind/línbergsreitur

Það dró heldur betur til tíðinda á Grandanum í nýliðinni viku þegar Skipulags- og samgönguráð Reykjavíkur samþykkti að auglýsa nýtt deiliskipulag fyrir svokallaðan Línbergsreit á Örfirisey. Reiturinn á sér nokkuð langa sögu og því markar þetta skipulag viss tímamót. Núverandi eigandi lóðanna sem um ræðir er félagið Línberg ehf. en áður voru þeir í eigu félagsins Lindberg ehf. Ég veit ekki til þess að það séu nein tengsl á milli félaganna önnur en að nöfnin eru keimlík. 

Burtséð frá nafninu varð reiturinn til þegar Lindberg ehf. stóð fyrir miklum uppkaupum á svæðinu fyrir hrun með það fyrir augum að þar myndi rísa íbúðabyggð. Slíkar hugmyndir hafa hinsvegar aldrei hlotið náð fyrir augum Faxaflóahafna og ráðandi afla í skipulagsmálum borgarinnar. Raunar má segja að flestar uppbyggingahugmyndir sem þarna hafa komið fram hafi verið umdeildar, einkum og sér í lagi á þeim forsendum að þær vegi að hafnsækinni starfsemi á svæðinu. Íbúðahugmyndirnar voru hinsvegar metnaðarfullar og var m.a. hin virta arkitektastofa Studio Granda fengin til að útfæra blandaða byggð á svæðinu, þá fyrir fjárfestingabankann Straum. 

Örlög Lindberg ehf. og þeirra hugmynda á svæðinu urðu hinsvegar þau sömu og margra annarra félaga sem stóðu í stórræðum fyrir hrun og enduðu uppi hjá slitastjórnum í eignasöfnum föllnu bankanna. Áfram var þó leitast við að hefja uppbyggingu á svæðinu en segja má að þær umleitanir hafi endanlega verið slegnar útaf borðinu með nýju deiliskipulagi sem samþykkt var árið 2015. Meginmarkmið deiliskipulagsins var að festa í gildi fyrri landnotkunarstefnu Örfiriseyjar og mætti tillagana talsverðri andspyrnu eigenda lóða á svæðinu. Höfðu þeir meðal annars eftirfarandi að orði í athugasemdum við tillöguna:

Að leggja fram jafn metnaðarlausar tillögur og raun ber vitni veldur miklum vonbrigðum svo ekki sé talað um samráðsleysið, ... Í tillögunum vottar ekki fyrir framtíðarsýn um uppbyggingu á svæðinu, þvert á móti torvelda þær alla byggðaþróun,“

Í síðustu kosningum blés síðan Sjálfstæðisflokkurinn lífi í hugmyndir um allt að 4000 manna bíllalausa íbúðabyggð á Grandanum. Þær hugmyndir voru býsna metnaðarfullar en mættu harðri andstöðu pólitískra andstæðinga flokksins. 

Í nýju deiliskipulagstillögunni sem m.a. má sjá efst í færslunni er m.a. gert ráð fyrir uþb. 40.000 fermetrum af nýju atvinnnuhúsnæði, stóru bílastæðahúsi og að starfsemi á svæðinu verði breytt úr "Hafnsækin starfsemi/athafnasvæði (HAT)" í "Hafnsækna starfsemi, verslun, þjónusta og fínlegri atvinnustarfsemi (HÞV)". Markmiðið með breytingunni er sagt vera að víkka út og auka við fjölbreytni á svæðinu, m.a. með tilkomu skrifstofubygginga inn á svæðið sem geta meðal annars hýst uppbyggingu og þróun á starfsemi tengdri tækni og þróun íslensks sjávarútvegs, aukna menningarstarfsemi og nýtingu svæða til viðburða í tengslum við ýmisskonar hátíðarhöld. Samkvæmt Aðalskipulagi Reykjavíkur 2010-2030 er ekki gert ráð fyrir stórverslunum á hafnarsvæðinu, en heimilt er að starfrækja minni dagvöruverslanir s.s. bakarí, fiskbúðir og aðrar fiskvöruverslandir. Ekki er heimilt að reka hótel eða byggja íbúðir á svæðinu. 

Fróðlegt verður að fylgjast með framvindu skipulagstillögunnar eftir að lögbundnum kynningarfresti lýkur. Eftir stendur þá stóra spurningin sem markaðurinn einn getur svarað: 

Er eftirspurn eftir 40.000 fermetrum af nýju atvinnuhúsnæði á þessum stað?