Í umræðu um samgönguáætlun á dögunum komst formaður Miðflokksins svo að orði um Borgarlínuna:
"Eitt af markmiðunum er einfaldlega að þrengja að umferðinni, þrengja að annarri umferð. Taka eina akrein í hvora átt undir Borgarlínuna, þannig að það sé þrengt að annarri umferð og fólk hreinlega neyðist til að nýta sér Borgarlínuna. Þetta er með öðrum orðum neyslustýring. Mjög sérkennilegt að sjá, sérstaklega Sjálfstæðisflokkinn, beita sér fyrir eins grófri neyslustýringu sem í þessu felst."
Segja má að þarna hafi Sigmundur Davíð hitt naglann á höfuðið því samgöngumál, líkt og skipulagsmál almennt eru alltaf einhversskonar blanda af neyslu- og miðstýringu. Það veit Sigmundur ef til vill manna best því sem forsætisráðherra lét hann töluvert til sín taka í skipulagsmálum. T.d. beitti hann sér eftirminnilega fyrir því að Minjastofnun skyndifriðaði hafnargarð í miðbænum. Í fjárlagafrumvarpi ríkisstjórnar hans fyrir árið 2016 var samþykkt að veita 75 milljónum króna til undirbúnings vegna umdeildrar viðbyggingu Alþingis með þeim skilyrðum að undirbúningurinn ætti að hafa hliðsjón af þeim áformum sem uppi voru um uppbyggingu á Alþingisreitnum fullveldisárið 1918 „sbr. fyrirliggjandi teikningar Guðjóns Samúelssonar fyrrverandi húsameistara ríkisins". Þá vakti það mikla athygli þegar tölvugerð mynd af teikningum Guðjóns prýddi jólakort Sigmundar það sama ár og var myndin einnig hluti af áramótakveðju ráðherrans á Facebook-síðu hans. Loks má ekki gleyma frumvarpi hans til laga um verndarsvæði í byggð sem var samþykkt þrátt fyrir hávær mótmæli fjölmargra hagsmunaaðila. Samkvæmt lögunum getur forsætisráðherra hverju sinni gert tiltekna byggð að verndarsvæði og þannig tekið framfyrir hendurnar á lýðræðislega kjörnum sveitarstjórnum í skipulagsmálum. Þá eru ótaldar ótal greinar og skrif Sigmundar þar sem hann lýsir sýn sinni á skipulagsmálin og hvernig sé best að stýra þeim.
En ef Borgarlínan er "gróf neyslustýring" hvað er þá núverandi samöngukerfi sem samanstendur af tugmilljarða fjárfestingum í hefðbundnu gatnakerfi yfir margra áratugaskeið sem þekur nánast helming alls borgarlands í Reykjavík?
Bílaeign landsmanna svarar líklega þeirri spurningu best en hún hefur aldrei verið meiri. Það ætti því að vera óhætt að kalla núverandi samgöngukerfi vel heppnaða neyslustýringu. Raunar er hún svo vel heppnuð að í árslok 2018 áttu landsmenn bifreiðir og ökutæki sem metin voru á 312 milljarða króna.