Oft var þörf en nú er nauðsyn

Húsnæðismál á höfðuborgarsvæðinu hafa verið í brennidepli að undanförnu. Ástæðurnar fyrir erfiðri stöðu á markaðnum eru auðvitað margflóknar en flest spjót að beinast að borgaryfirvöldum í Reykjavík og núgildandi aðalskipulagi. Orð á borð við lóðaskortsstefna eru notuð og háværar raddir eru uppi um að hverfa á ný til ríkjandi skipulagsstefnu síðustu áratuga og þenja byggðina enn frekar út. 

Sjaldan ef nokkurn tímann hefur verið ríkari ástæða til að standa í lappirnar og halda sig við samþykktar skipulagsáætlanir þótt það sé dýrt, erfitt og sársaukafullt á akkúrat þessum tímapunkti. Eftir áratuga óráðssíu í skipulagi borgarinnar horfir loks til betri vegar og við eigum að styðja við bakið á þeim sem standa í ströngu við að bjarga þessari borg frá því að verða eitt risastórt og ósamkeppnishæft úthverfi að Norður-Amerískri fyrirmynd. Að snúa skipinu við bitnar vissulega á þeirri kynslóð sem núna þarf að búa óhóflega lengi í foreldrahúsum  en kynslóðirnar sem á eftir koma munu þakka þeim. Fórnarkostnaðurinn er fullkomlega þess virði og hann mun greiða götur þess að hér vilji ungt fólk búa, sem getur valið sér búsetu hvar sem er í heiminum. Meirihluti mannkyns, hvort sem okkur líkar það betur eða verr, vill nefnilega búa í vel skipulögðu borgarumhverfi. 

Að þessu sögðu má að sjálfsögðu slá hressilega í klárinn og reyna að hraða uppbyggingu á þeim sem svæðum sem bíða þess að iða af mannlífi, laus við loftmengun og bílaumferð. Það er því kærkomið að heyra af nýjasta útspili Þorsteins Víglundssonar. Það er ekki annað að sjá en að þarna sé talað af skilningi og skynsemi um stöðuna sem er uppi og fókusinn settur á rót vandans en Þorsteinn segir: 

„... ef það eigi að leggja svona mikla áherslu á þéttingu byggðar, sem sé á allan hátt skynsamleg aðgerð út frá landnýtingu, umhverfislegu samhengi og skemmtilegri borgarbrag, þá verði að einfalda ferlið í kringum þéttingarverkefnin. Í dag eru þau of tímafrek. Þau taka fleiri fleiri ár. Svo er sjálfstætt vandamál að það sé verið að selja reitina á milli manna áður en það er byggt á þeim. Það mætti alveg skoða hvort það eigi að vera byggingarkvaðir á þessum reitum. Að það verði að hefja framkvæmdir innan tilskilins tíma að því gefnu að öll leyfi séu fyrir hendi þannig að menn geti ekki bara verið að leika leikinn að bíða með verkefnið á teikniborðinu, bíða eftir að verðið hækki og selja það svo einhverjum öðrum sem ætlar að leika sama leikinn.“

Það er kærkomið að heyra ráðherra tala með þessum hætti í stað þess að hjóla í vel ígrundaðar og rökstuddar skipulagsáætlanir borgarinnar og slá þær útaf borðinu með ábyrgðarlausum hugmyndum um einfaldar lausnir við flóknum vanda.