112

Framkvæmdasýslan fyrir hönd Ríkiskaupa hefur að undanförnu birt heilsíðuauglýsingar í dagblöðum þar sem "óskað er eftir upplýsingum um mögulegar lóðir, staðsetningar, húsnæði og tækifærum á samstarfi á markaði". Ástæðan er sú að uppi eru áform um að koma upp sérhæfðu húsnæði fyrir löggæslu og viðbragðsaðila á höfuðborgarsvæðinu og markmiðið með könnuninni er að kanna framboð á lóðum sem sem geta uppfyllt þarfir verkefnisins. Kröfurnar til viðkomandi lóðar eru eftirfarandi:

  1. Lóðin verður að liggja miðsvæðis á höfuðborgarsvæðinu.

  2. Staðsetning gefi sem stystan viðbragðstíma frá Alþingisreit.

  3. Útakstur af lóð sé aðgengilegur inn á stofnbrautir og nokkrar leiðir séu af lóðinni.

  4. Nálægð við almenningssamgöngur (borgarlínu), göngu- og hjólaleiðir.

Krafan um staðsetningu sem gefur hvað stystan viðbragðstíma frá Alþingisreit setur könnuninni nokkuð þröngar skorður, einkum ef leita á eftir "tækifærum á samstarfi á markaði". Þ.e. ekki nýta ríkislóðir og/eða borgarland á borð við Vatnsmýrina. 

Eitt svæði sem kemur sterklega til greina er Laugarnesið en þar á verktakafyrirtækið Þingvangur stórar lóðir við Köllunarklettsveg og Héðinsgötu sem virðast í fljótu bragði uppfylla ofangreind skilyrði. Lóðin komst síðast í fréttirnar árið 2017 en þá voru kynnt stórtæk áform um 200 þúsund fer­metra hverfi á lóðunum. Þeim áformum var síðar sópað út af borðinu með breytingu á Aðalskipulagi Reykjavíkur þar sem heimildir um íbúðarhúsnæði á svæðinu voru alfarið felldar út. Í skiptum var leyfilegt byggingarmagn atvinnuhúsnæðis aukið og því ljóst að svæðið hentar vel undir ofangreinda starfsemi. 

*Teikningarnar á myndinni hér fyrir ofan eru eftir ​Arkþing/​Nordic arki­tekt­a