Botnlaus hít

Þeim sem finna Borgarlínuverkefninu hvað mest til foráttu finnst af einhverjum ástæðum gott að gagnrýna verkefnið undir nafnleynd. Ein slík skrif birtust í dag í "Innherja" dálki Viðskiptamoggans. Í pistlinum sem ber heitið "Öllu má snúa á haus" segir m.a. 

"Það þurfti félagshagfræðilega greiningu til þess að fá það út að Borgarlína myndi einhvern tíma borga sig. Allar aðrar hagfræðilegar greiningar myndu að sjálfsögðu benda til að línan sú verði botnlaus hít sem skattgreiðendur muni moka í af veikum mætti. Þar mun aldrei sjást til botns og stjórnmálamennirnir sem ýttu málinu úr vör þrátt fyrir varnaðarorð munu heldur aldrei komast til botns í því af hverju félagshagfræðilega greiningin gekk ekki upp"

Í íslenskri nútímamálsorðabók er hugtakið botnlaus hít skilgreint sem "eitthvað sem tekur endalaust við". Hugtakið á ágætlega við um rekstur samfélaga almennt, algjörlega óháð því hvaða leiðir eru farnar. Það tekur alltaf eitthvað nýtt við í öllum opinberum rekstri. Innviðum þarf að halda við og það þarf stöðugt að bregðast við breyttum aðstæðum og fjárfesta í nýjum lausnum. Í umræðunni um Borgarlínu er hollt að hafa þetta í huga og segja má að Innherjinn hitti naglann á höfuðið með titlinum á pistli dagsins. 

Það er nefnilega nauðsynlegt í allri umræðu um samgöngu- og skipulagsmál að vega og meta alla valkosti og snúa öllu á haus inn á milli. Ef sömu fjárhæðum og til stendur að veita til Borgarlínuverkefnisins yrði veitt í að þenja út núverandi samgöngukerfi hver yrði ávinningurinn? Mun fólk komast hraðar á milli staða með minni umhverfisáhrifum? Verður höfuðborgarsvæðið meira eða minna samkeppnishæft miðað við önnur höfuðborgarsvæði á Norðurlöndunum með slíku samgöngukerfi? Verður byggðaþróun hagstæð í kringum slíkt kerfi eða þurfum við að brjóta nýtt land til að mæta fólksfjölgun?  

Þetta einfalda en á sama tíma flókna verkefni að koma fólki á milli staða er í eðli sínu botnlaus hít. Tilgangurinn helgar hinsvegar meðalið. Þetta vita auðvitað eigendur Morgunblaðsins manna best. 


1 response
Hárrétt er að benda á að ekki er til kostnaðargreining yfir framkvæmd né rekstur á Borgarlínu. Það eru mikilvægar forsendur allrar samfélagslegrar umræðu, en ekki í þessu máli af ókunnum ástæðum. Þess vegna hefur sú umræða einungis átt sér stað meðal sjálfskipaðra aðila sem vita allt um málið, og enginn annar getur vitað neitt. Ég skil ekki hví þú bendir á árvakur þegar þú ræðir um þetta málefni, er betra að ræða annað?