Annaðhvort eða

Ökumenn kvarta sáran undan bágu ástandi gatnakerfis höfuðborgarsvæðisins. Ég hef enga ástæða til að draga réttmæti þeirra kvartana í efa. Ég hef hinsvegar tekið eftir því að uppbygging innviða fyrir hjólreiðafólk og gangandi er oft dregin inn í umræðuna um slæmt ástand gatnakerfisins í einhversskonar annaðhvort eða samhengi. Það er hvorki réttmætt né skynsamlegt.

Landspítalinn eða Reykjalundur?

Til samanburðar má nefna að ástandið á Landspítalanum hefur lengi verið slæmt af ýmsum ástæðum. Umræðan um spítalann einkennist hinsvegar ekki af því að brýnt sé að draga úr starfsemi Reykjalundar. Ástæðan er einföld, við vitum að markviss endurhæfing er afar árangursrík en tiltölulega ódýr læknismeðferð miðað við ýmsar aðrar meðferðir. Skjólstæðingar stofnunarinnar skila sér aftur út í lífið í stað þess að verða varanlegur baggi á heilbrigðiskerfinu. Það gefur augaleið að fjárfestingin margborgar sig. Hið sama gildir um fjárfestingar í hjóla- og göngustígum. 

Má ég bjóða þér 20 krónur í staðinn fyrir 1?

Það hefur sýnt sig að hlutfallsleg arðsemi af fjárfestingum í hjóla- og göngustígum er í kringum 5:1 - 20:1. Með öðrum orðum, fyrir hverja krónu sem er eytt í uppbygginga hjóla- og göngustíga, fær samfélagið allt að 20 krónur til baka yfir líftíma stígarins. Á ensku kallast fjárfesting af þessu tagi no-brainer 

Það er sjálfsagt mál að gera við göturnar en allt tal um að beina fjármagni frá uppbyggingu arðbærra samgöngumannvirkja í malbikun og holufyllingar er órökrétt.

P.s. Myndin hér að ofan sýnir hefðbundnar niðurstöður úr viðamikilli rannsókn á arðsemi hjóla- og göngustígamannvirkja þar sem tekið er tillit til fjölmargra þátta.

Borgarlæsi & Borgartún

Borgarlæsi er orð sem skilar ekki mörgum niðurstöðum á leitarvefum. Kannski er það ekki formlega til, ég finn það í minnsta ekki í neinni orðabók. Það ætti hinsvegar undir öllum kringumstæðum að vera til og hafa ríka merkingu í íslenskri tungu. Íslendingar eru nefnilega ein borgarvæddasta þjóð í heimi, jafnvel þó að sjálfsmynd okkar kunni að einkennast af hugmyndum um annað. Í kringum 65% þjóðarinnar býr á höfuðborgarsvæðinu og 15% til viðbótar í nágrannasveitarfélögum. Heilt yfir búa tæplega 94% þjóðarinnar í þéttbýli. Fyrir vikið eru íslendingar í 13. sæti yfir þéttbýlisvæddustu þjóðir heims. Til samanburðar er Frakkland í 26. sæti og Bandaríkin 35. sæti. Samt er bara ein raunveruleg borg á Íslandi en fleiri en 20,000 í Bandaríkjunum. 

Það getur verið áhugavert að rýna í tölur og talningar en á sama tíma getur það verið mjög varasamt. Þetta á sérstaklega við um borgir. Umferðartalningar eru ágætis dæmi um þetta, en því miður eru þær sá mælikvarði sem fær alltof mikið vægi í umræðu um skipulagsmál. 

Tölfræði sem tungumál

Tölfræði er oftar en ekki tungumál kjörinna fulltrúa og tölfræðin sem þeir nota máli sínu til stuðnings er annaðhvort fullnægjandi eða ófullnægjandi, allt eftir málefnaafstöðu. Tveir borgarfulltrúar vísa til dæmis oft í sömu tölfræðina en fá gjörólíkar niðurstöður. Allt er þetta túlkunum háð, sem segir auðvitað margt um áreiðanleika tölfræði yfir höfuð. Nýlegt dæmi um þetta svargrein sem birtist í Fréttablaðinu síðastliðin föstudag. Þar sakar Ólafur Kr. Guðmundsson varaformaður Félags íslenskra bifreiðaeigenda og varamaður Sjálfstæðisflokksins í umhverfis- og skipulagsráði Reykjavíkurborgar borgarfulltrúann Kristínu Soffíu Jónsdóttur um að fara frjálslega með staðreyndir varðandi Borgartún í Reykjavík í aðsendri grein nokkru áður. 

Tvær hliðar á sama peningi

Greinarnar tvær fjalla um sömu framkvæmdirnar og vísa í sömu tölfræðina en á þeim er einn áberandi munur. Grein Kristínar Soffíu einkennist af borgarlæsi á meðan grein Ólafs ristir ákaflega grunnt. "Eini alvörumælikvarðinn á umferðarmálin í Borgartúni er fjöldi notenda eftir vegfarendahópum." segir Ólafur en Kristín Soffía bendir á að vissulega sé umferð einkabíla um götuna svipuð og áður en á sama tíma hafi "ný bankaútibú hafa opnað sem og nýtt kaffihús sem slegið hefur í gegn". 

Í stað þess að einblína á umferðartalningar bendir Kristín Soffía á að þjónusta við götuna vex og dafnar, sem eðli málsins samkvæmt dregur að sér aukið mannlíf sem aftur auðgar borgina og umhverfi hennar á ótal vegu. 

Staðreyndin er sú að það er ekki hægt að taka "umferðarmálin" út fyrir sviga í umræðu um Borgartún eða aðrar götur af svipuðum toga því að gatan er svo miklu meira en samgönguæð. Borgartún er verslunar- og þjónustugata og mun í náinni framtíð einnig verða íbúðagata. Gatan og umhverfi hennar eru híbýli fólks. Staður þar sem fjöldi fólks eyðir lunganum úr deginum við leik og störf. "Fjöldi notenda" segir mér ósköp lítið um gæði Borgartúns sem borgarrýmis en þeim mun meira um þann sem kýs að kalla íbúa þessarar borgar, manneskjur af holdi og blóði "notendur". Við sem manneskjur búum í borgum, við notum þær ekki til þess eins að komast á milli staða. 

Hvað telur?

Ef gæði borgargötu eiga að velta á talningum þá þarf líka að taka tíma með í reikninginn og spyrja um líðan. Hvað eyðir fólk miklum tíma í rýminu og hvernig líður því á meðan. Upplifir það öryggi og vellíðan? Er umferðin hröð eða hæg, nær augað að grípa eitthvað áhugavert í nærumhverfinu eða er hraðinn of mikill? Geta börn hlaupið um og aldraðir komist klakklaust á milli staða? Ná hjólreiðamenn augnsambandi við ökumenn eða eru allir í eigin heimi? Er hægt að setjast niður og fylgjast með fólkinu sem streymir upp og niður götuna og anda að sér fersku lofti á meðan? Veitir gatan þeim manneskjum sem eiga leið um hana einhversskonar andagift í þeirra daglega amstri?

Borgarlestur er eins hver annar lestur. Það er ekki fjöldi orðanna sem skiptir máli heldur samhengi þeirra og meining. Að skilgreina og skipuleggja borgir út frá tölum er eins og að skrifa sögu án söguþráðar. Við vitum öll að góð bók er miklu meira en orð á blaði.  

Alvara ekki afsláttur

Kristinn Steinn Traustason, formaður íbúasamtaka Úlfarsárdals skrifar áhugaverða grein í Fréttablaðið í dag sem ber heitið Hvað er til ráða í húsnæðismálum í Reykjavík? Þar rekur hann meinta galla þess að þétta byggð og kosti þess að dreifa byggð í Reykjavík enn frekar með áframhaldandi uppbyggingu í Úlfársdal. Í greininni segir m.a. 

"Bygging húsa á þéttingarreitum er oft flóknari og erfiðari en á nýbyggingasvæðum og getur að auki kallað á endurskipulagningu annara innviða s.s. samgöngumannvirkja og lagnakerfa sem eykur kostnað enn frekar, um þá staðreynd er hins vegar sjaldan rætt í tengslum við áform um þéttingu byggðar."

Ástæðan fyrir því að um þessa "staðreynd" er sjaldan rætt í tengslum við þéttingu byggðar er sú að þrátt fyrir aukinn kostnað og hærra flækjustig er ávinningurinn af þéttri byggð margfalt meiri en kostnaðurinn. Þétt byggð styður við fjölbreytta samgöngumáta og dregur þannig úr álagi á samgöngukerfi auk þess sem hagkvæmni alls reksturs, líkt og lagnakerfa, eykst eftir því sem fleiri geta nýtt sér þau. Það er hinsvegar ein staðreynd sem alltof sjaldan er rædd í tengslum við úthverfabyggð. Hún er sú að ýmis gjöld, frá lóðarverði til fasteignaskatta, endurspegla ekki raunkostnað. Við búum við kerfi þar sem þeir sem búa þéttast niðurgreiða raunbúsetukostnað þeirra sem búa í minna þéttum íbúðahverfum með einum eða öðrum hætti. Staðreyndin er sú að afleidd áhrif dreifðrar byggðar innan borgarinnar, líkt og losun gróðurhúsalofttegunda og umferðarteppur, eru ekki verðlagðar í samræmi við raunkostnað. Með öðrum orðum, kostnaðurinn sem Kristinn telur að sparist við að byggja upp úthverfi bliknar í samanburði við kostnaðinn sem skapast í kjölfarið og leggst á samfélagið í heild sinni en ekki þá sem bera ábyrgð á honum eða njóta góðs af uppbyggingunni. Sparnaðurinn er enginn en óréttlætið þeim mun meira. 

Hvað er til ráða?

Það er von að fólk spyrji sig hvað sé til ráða í húsnæðismálum í Reykjavík. Svarið er að það eru engar skyndilausnir í boði. Besta leiðin er að byggja upp alvöru borg með alvöru almenningssamgöngum og alvöru atvinnutækifærum. Það er í besta falli krúttlegt að halda að það ríki samkeppni um ungt fólk á milli sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu. Samkeppnin ríkir á milli Íslands og útlanda. Reykjavík vs allar aðrar borgir í heiminum. Við eigum ekki að gefa neinn afslátt á uppbyggingu samkeppnishæfs borgarsamfélags á Íslandi. Alvöru urbanismi er svarið við spurningu Kristins, sama hvað hann kostar. 

Sparnaðaróráð

Í hverri viku eru lagðar fram fjölmargar bókanir í umhverfis- og skipulagsráði Reykjavíkurborgar. Flestar þeirra vekja litla athygli en inn á milli leynast lítil gullkorn sem með réttu hugarfari er hægt að hafa gaman af. Ein slík birtist á fréttavef Morgunblaðsins í gær. Fréttin snýr að auknum fjárframlögum til malbikunarframkvæmda í ljósi slæms ástands gatnakerfis Reykjavíkurborgar. Ég hef áður fjallað um raunkostnað og réttlæti í skipulagsmálum, sér í lagi í tengslum við svokallaðan ytri kostnað umferðar. Að því sögðu má hinsvegar öllum sem aka um Reykjavík vera ljóst að margar götur eru slæmu ásigkomulagi og svo virðist sem að í einhverjum tilfellum hafi borgin sparað sér til tjóns á síðustu árum. Við því er lítið annað að gera en að horfast í augu við vandann og taka á honum. Ein leið til þess er vissulega að auka fjárveitingar til malbikunarframkvæmda. Borgarfulltrúinn Júlíus Vífill er hinsvegar ekki fullkomlega sáttur við þessar aðgerðir og vill að hinum auknu fjárveitingum verði mætt með sparnaði á móti. Hugmyndin er ágæt ef ekki væri fyrir útfærsluna en Júlíus leggur eftirfarandi til í bókun Sjálfstæðisflokksins um málið:

"Aug­ljós­asti sparnaður­inn er að hætta við til­gangs­lausa þreng­ingu Grens­ás­veg­ar en áætlaður kostnaður vegna þreng­ing­ar veg­ar­ins á milli Miklu­braut­ar og Bú­staðar­veg­ar eru kr. 160 millj­ón­ir."

Fulltrúi Framsóknar- og flugvallarvina í ráðinu tók undir með Júlíusi og félögum og lét bóka eftirfarandi:

"Full­trúi Fram­sókn­ar- og flug­vall­ar­vina legg­ur til að það fjár­magn sem meiri­hlut­inn vill nota til þreng­ing­ar Grens­ás­veg­ar verði notað í mal­bik­un­ar­fram­kvæmd­ir."

Skammgóður vermir

Allar aðgerðir sem miða að því draga úr umferð innan borgarinnar munu augljóslega draga úr álagi á gatnakerfinu og minnka þannig viðhaldskostnað til langs tíma. Lagning hjólastíga, líkt og á Grensásvegi er þar af leiðandi ein öflugusta sparnaðaraðgerð sem borgin getur ráðist í. Að slá slíkar framkvæmdir út af borðinu í "sparnaðarskyni" væri líkt og að skylda barn til að setja pening í sparibauk en fara síðan og mölva baukinn þannig að barnið geti ekki lagt fyrir. 

Það er mikið af pissi í Reykjavík en ég held að flestir séu sammála um að halda því innan skólpkerfisins í stað þess að dæla því í skó skattgreiðenda. 

Kvaðir í Kvosinni

Áhugaverðar breytingar á deiliskipulagi Kvosarinnar og Grjótaþorps eru nú til kynningar hjá Reykjavíkurborg. Í breytingartillögunum er kveðið á um hámarkshlutfall gistiþjónustu á svæðinu en borgarstjóri hefur áður lýst því yfir að hann vilji beina hóteluppbyggingu til annarra hverfa en miðborgarinnar á næstu árum. Ef breytingarnar ná fram að ganga má hlutfall gistþjónustu, sbr. lög um veitingastaði, gististaði og skemmtanahald nr. 85/2007, ekki fara yfir 23% af samtölu birtrar stærðar eigna á skilgreindu svæði, sem nær yfir deiliskipulagssvæði Kvosarinnar í heild og hluta deiliskipulagssvæðis Grjótaþorps. Hámarkshlutfallið er miðað við núverandi starfsemi, útgefnar byggingaheimildir og heimildir um gistiþjónustu skv. samþykktum deiliskipulagsáætlunum.

Skýr stefna

Með þessum breytingartillögum er ljóst að borgaryfirvöldum er full alvara með stöðva frekari hóteluppbyggingu í miðbænum og er hér að vissu leyti um að ræða nýja nálgun í skipulagsmálum borgarinnar. Sóley Tómasdóttir, forseti borgarstjórnar, hefur áður bent á að borgin geti ekki hafnað fyrirspurnum um frekari hóteluppbyggingu í miðbænum en núverandi meirihluti virðist nú vera búinn að þróa verkfæri sem gerir þeim kleift að slá frekari uppbyggingaráætlanir út af borðinu. Ég hef áður fjallað um starfsemiskvóta í miðborg Reykjavíkur, en hið nýja hámarkshlutfall gistiþjónustu sem nú er kynnt til sögunnar er af allt öðrum toga. Starfsemiskvótarnir ná eingöngu til jarðhæða bygginga  en hámarkshlutfallið nær til allra bygginga í heild sinni innan skilgreinda svæðisins.  

Sumir munu hagnast - aðrir tapa

Í breytingartillögunum kemur ekki fram hvert núverandi hlutfall gistiþjónustu á svæðinu er. Engu að síður er ljóst að ef tillögurnar verða samþykktar verður lítið sem ekkert svigrúm fyrir aukna gistiþjónustu nema núverandi rekstaraðilar hætti starfsemi eða flytji hana annað. Af þessu má ætla að þau gistileyfi sem nú eru í gildi á þessu eftirsótta svæði verða mun verðmætari en áður og er því um verulega hagsmuni að ræða fyrir hótel- og gistihúsa eigendur í miðborg Reykjavíkur. Það er hinsvegar viðbúið að þeir aðilar sem nýverið hafa keypt húsnæði á svæðinu á uppsprengdu verði með það að markmiði að selja gistiþjónustu munu sitja eftir með sárt ennið. 

Umhverfisvæn verðmæti

Torfusamtökin sendu frá sér yfirlýsingu þann 12. febrúar síðastliðin vegna fyrirhugaðs niðurrifs Rammagerðarinnar í Hafnarstræti 19 í Reykjavík. Samtökin segja að ómet­an­leg verðmæti geti farið for­görðum verði húsið rifið en eigendur hússins, Suður­hús ehf., segja að steyp­an í hús­inu sé ónýt og því þurfi að rífa það og byggja eft­ir­mynd þess. Til stendur að reka hótel í húsinu. 

 Fyrirhugaðar framkvæmdir við Hafnarstræti 

Í samræmi við skipulag? 

Það skal ósagt látið hvort að steypan í húsinu sé ónýt eða hvort að hér sé um að ræða fyrirslátt líkt og Torfusamtökin láta í veðri vaka. Óháð úttekt ætti hæglega að geta skorið úr um ástand hússins og með réttu ættu borgaryfirvöld að fara fram á slíka úttekt í ljósi þess að hér um að ræða sögufræga byggingu í hjarta borgarinnar. Í aðalskipulagi Reykjavíkur má finna kafla um borgarvernd þar sem kveðið er á um að "menningarsöguleg gildi verði höfð í heiðri við skipulagningu, hönnun og uppbyggingun borgarinnar á öllum stigum - við skipulagingu hverfa, hönnun bygginga, gatnumhverfis, torga, garða og almenningsrýma, götu gagna og annarra mannvirkja" (bls. 152). Þar segir einnig að "Ákvarðanir um verndun byggðaheilda, húsaraða, stakra húsa, og annarra mannvirkja verði ávallt byggðar á faglegu og heildrænu mati með almannahagsmuni að leiðarljósi" (bls. 152). Þessi ákvæði, auk fjölda annarra eiga sérstaklega við um svæðið innan Hringbrautar sem sjá má hér fyrir neðan sem nýtur sérstakar hverfisverndar í aðalskipulaginu: 

Innbyggð orka

Önnur hlið á máli sem þessu sem einnig er mikilvægt að vekja athygli á snýr að umhverfisvernd. Í allri umræðu um sjálfbærni, notkun orku og annarra auðlinda verður að hafa hugfast að umhverfisvænustu byggingarnar eru í flestum tilfellum þær sem nú þegar hafa verið byggðar. Það fer gríðarleg orka í byggingu húsa, í orðsins fyllstu merkingu. Það þarf að aka efni til og frá byggingarsvæðinu, nota ógrynni af rafmagni, steypu, stáli, gleri, osfrv. Öll þessi orka og byggingarefnin eru innbyggð í húsið (e. embodied energy) og munu fara til spillis að stærstum hluta þegar hús eru rifin. Allt skilar þetta sér í aukinni losun gróðurhúsalofttegunda, en myndin hér að neðan er dæmi um áætlað losunarhlutfall ýmissa verkþátta byggingaframkvæmdar

Besta leiðin

Minja- og menningarsöguleg gildi borgarumhverfis eru afar mikilvægir þættir í borgarskipulagi, sér í lagi í tengslum við ferðaþjónustu og upbbygingu hennar. Minjagildi húsa felast í húsunum sjálfum, ekki eftirbyggingum þeirra, sama hve nákvæmar þær kunna að vera. Niðurrif húsa, jafnvel þó að til standi að byggja umhverfisvænar byggingar í þeirra stað á sömu lóð er einnig afar óumhverfisvæn iðja, einkum með tilliti til losunar gróðurhúsalofttegunda. Ákjósanlegast er að varðveita byggingar en á sama tíma endurnýta þær í takt við tímann hverju sinni (e. adaptive reuse). Frábært dæmi um slíkt skipulag og uppbyggingu eru verbúðirnar við Grandagarð í Reykjavík en þær hafa öðlast nýtt líf með breyttri starfsemi án þess þó að nokkurt niðurrif hafi átt sér stað. 

Samnýtingarbölið

Í Aðalskipulagi Reykjavíkur eru settir fram tvenns konar starfsemiskvótar í miðborg Reykjavíkur. Annars vegar kvótar með það að markmiði að vernda og efla smávöruverslun og hinsvegar kvótar sem miða að því að tryggja fjölbreytilega starfsemi. Kvótarnir tryggja visst lágmarkshlutfall smávöruverslunar við ákveðin götusvæði auk þess sem þau kveða á um hámarkshlutfall starfsemi af svipuðum toga við ákveðin götusvæði eða torg. Markmiðin með þessum kvótum eru eftirfarandi og má lesa nánar um hér á bls. 218-219:

 • Stuðla að heildarmynd göturýmisins með því að samræma útlit og umhverfi.
 • Efla mannlíf í göturýmum.
 • Tryggja samfellu í verslunargötuhliðum.
 • Stuðla að fjölbreyttri starfsemi.
 • Vernda og efla smávöruverslun. 

Freki kallinn

  Í Morgunblaði dagsins er vísað í starfsemiskvótanna og rætt við Gunn­ar Guðjóns­son kaupmann við Laugaveg og formann Sam­taka kaup­manna og fast­eigna­eig­enda við Lauga­veg. Að vanda er Gunnar neikvæður, kvartar yfir túristum og keppist við að tala niður Laugaveginn og finna honum allt til foráttu. Hann syrgir verslunina Dressman og hefur áhyggjur af því að þekkt­ar versl­an­ir með alþjóðleg vörumerki vilji ekki opna í miðborg Reykjavíkur vegna af­stöðu borg­ar­yf­ir­valda. „Al­menn versl­un er orðin und­ir og við taka lunda­búðir og veit­ingastaðir“ seg­ir Gunn­ar sem af einhverjum ástæðum virðist vera tilneyddur til að reka verslun við Laugaveg þrátt fyrir verslunarmiðstöðvar á borð við Kringluna, Smáralind og Korputorg hafi beinlínis verið fundnar upp til að svara kalli hans og annarra sem sækjast eftir hreinræktuðum verslunarvæðum þar sem allt snýst um þægindi. 

  Óneitanlega leitar hugurinn til skrifa Jóns Gnarr um freka kallinn, sem ég hef áður vísað í á þessari síðu, þegar Gunnar og félagar hefja upp raust sína. Blessunarlega var Gunnari svarað snögglega af Magnúsi Berg Magnússyni, kaupmanni við Hverfisgötu sem nýlega opnaði húsgagnaverslunina Norr11 ásamt konu sinni. Magnús bendir réttilega á þá staðreynd að það sé ekkert því til fyrirstöðu að alþjóðlegar verslanakeðjur séu reknar hér á landi við hlið lundabúða. "Það eru fjölmargar túristabúðir á Strikinu en það stoppar ekki H&M að vera við hliðina á þeim“ segir Magnús og nefnir jafnframt að fjöldi túristabúða á Laugarveginum sé hluti af eðlilegri borgarþróun. "Þetta sést líka í öðrum borgum. Stærri götur verða túristamiðaðri og göturnar í kring taka að lifna. Það er nýbúið að taka Hverfisgötuna í gegn og hér opna nýjar verslanir í hverjum mánuði. Þær eru oft sérhæfðari og metnaðarfyllri verslanir sem „lókallinn“ þekkir. Flottustu búðirnar eru ekki endilega á Strikinu heldur í hliðargötum“. Á Twitter tóku aðrir í sama streng. 

  Hróplegt skipulagsleysi

  Guðrún Helga Sigurðardóttir, blaðamaður og ökuleiðsögumaður er einnig ein af þeim sem er ekki sátt við stöðu mála í miðborginni. Í opnu bréfi til Hjálmars Sveinssonar, formanns umhverfis- og skipulagsráðs lýsir hún "hróplegu skipulagsleysi" hvað varðar bílastæðamál hótela og gistihúsa úti um alla borg. Hún vísar einkum til ákvörðunar sem ráðið tók í tengslum við nýtt hótel sem á að opna við Hlemm, en þar eiga 17 bílastæði að nægja undir starfsemina. Bílasalinn og borgarfulltrúinn Júlíus Vífill hafði áður lýst yfir áhyggjum vegna þessara áætlana. Bæði hafa þau sitthvað til síns máls, enda ljóst að íbúar og gestir miðbæjarins hafa ekki farið varhluta af farþegaflutningum á svæðinu, flestum til ama við núverandi aðstæður. Það sem ég geri hinsvegar athugasemd við er eftirfarandi röksemdarfærsla Guðrúnar:

  "Ferðamenn kaupa þá þjónustu að vera sóttir eða þeim skilað í næsta nágrenni gististaðar. Það er greinilega markaður fyrir þessa þjónustu og því sjálfsagt að bjóða upp á hana."

  Það er mikill misskilningur að þó að það sé eftirspurn eftir ákveðinni þjónustu þá sé sjálfsagt að bjóða upp á hana. Til samanburðar hefur um langt skeið verið eftirspurn eftir nektardansklúbbum í miðbænum en starfsemi þeirra er engu að síður óheimil. Raunar var sett inn sérákvæði í deiliskipulag Kvosarinnar árið 1997 þar sem "óheimilt er að setja á stofn eða starfrækja nýja næturklúbba (nektarklúbba) innan svæðisins". 

  Víða erlendis er almenn bílaumferð heilt yfir óheimil í miðborgum en engu að síður þrífst hótelstarfsemi þar með miklum ágætum. 

  Tragedy of the commons

  Margir þekkja hagfræðingukenningu Garret Hardin, Tragedy of the commons, sem Hannes Hólmsteinn kallar "samnýtingarbölið". Kenningin skýrir listilega vel þann vanda sem hlýst af því að margir nýti saman einhver gæði. Þá er hætt við því, að einhver freistist til að ofnýta gæðin og að endingu mun auðlindin eyðileggjast fyrir fárra sakir en kostnaðurinn mun hinsvegar skiptast á alla. Kenningin á vel við um miðborgina og hugsanlegar afleiðingar þess að leyfa einni starfsemi að eignast of mikla hlutdeild í borgarumhverfinu, hvort sem að það er í formi bílastæða, akstri hópferðabíla eða annarrar plássfrekrar starfsemi. Að sjálfsögðu má einnig heimfæra kenninguna yfir á umfang verslunar og þjónustu sem undirstrikar mikilvægi starfsemiskvóta í miðborginni

  Öll dýrin í skóginum eiga að vera vinir

  Fjölbreytt starfsemi er einkenni miðborga og jafnframt þeirra helsti styrkleiki. Í Aðalskipulaginu er komist svo að orði á bls. 189-190:

  "Til að viðhalda fjölbreytileikanum er mikilvægt að stuðla að blandaðri starfsemi sem fellur vel saman og hefur heppileg áhrif á miðborgarbraginn. Verslun, skrifstofustarfsemi og veitingarekstur stuðlar til dæmis að samnýtingu aðstöðu og tryggir miðborgarlíf á ólíkum tíma dagsins. Veitinga­ starfsemi á íbúðarsvæðum getur hins vegar orðið árekstra­ valdur sé tillitssemi ónóg. Sama á við um ferðaþjónustu sem getur orðið fráhrindandi ef hún fléttast ekki eðlilega inn í þjónustu fyrir íbúa. Sum tegund starfsemi er opin öll­ um almenningi, gefur af sér út í göturýmið og getur tengt saman ólíka aðila í miðborginni. Önnur starfsemi höfðar einungis til sérhæfðs hóps og fer best fram fyrir luktum dyrum. Enn önnur starfsemi þarfnast næðis. Við sækjum miðborgina af ólíkum ástæðum. Dveljumst þar mislengi og á ólíkum tíma dags. Því er brýnt að miðborgin geti rækt öll sín ólíku hlutverk og að þar sé fullnægt mismunandi óskum og hagsmunum án þess að neinum sé troðið um tær. Í miðborginni þurfa einnig að vera í boði fjölbreytt rými fyrir ólíkar athafnir, rými sem eru ólíkrar ásýndar og hafa margvíslega eiginleika, þar sem er hægt að gleyma sér í ysi og þysi borgariðunnar en líka að vera einn með sjálfum sér". 

  Auðvitað er ekki einfalt mál að tryggja að miðborgin geti rækt öll sín ólíku hlutverk en neikvæðni, bölmóður og barátta fyrir eigin hagsmunum er ekki líkleg til árangurs. 

  Frelsi til að velja

  Hver eru áhrif borgarumhverfis á hamingju er yfirskrift fundar sem haldinn verður á Kjarvalsstöðum kl. 20:00 í kvöld. Fundurinn er hluti af fundaröðinni Heimkynni okkar, borgin, sem umhverfis- og skipulagssvið borgarinnar stendur fyrir. Það er óhætt að segja að þetta sé áhugaverður fundur og ég hvet sem flesta til að mæta, sér í lagi þar sem einvala lið skipar panelinn þessu sinni. 

  Hamingja er auðvitað gildishlaðið og ákaflega einstaklingsbundið hugtak. Ég held hinsvegar að flest getum við verið sammála um að frelsi sé hornsteinn hamingjunnar. Við viljum hafa frelsi til að velja og borgarskipulag á að stuðla að því að sem flestir geta valið hvernig þeir haga lífi sínu í borginni að því gefnu að fólk átti sig á því að frelsi fylgir ábyrgð. í borgum snýr sú ábyrgð einna helst að því hvaða ferðamáta við veljum okkur.

  Persónulega vil ég geta valið á milli mismunandi ferðamáta sem henta aðstæðum hverju sinni. Ég reyni eftir fremsta magni að menga sem minnst, ekki síst vegna þess að ég vil ekki spilla sameiginlegum loftgæðum okkar allra. Best þykir mér að hjóla eða ganga og nýta þannig eigin vélarafl til að komast á milli staða. Ég nýt þess einnig mjög að sitja í strætó og lesa eitthvað áhugvert eða hlusta á músík. Þegar kemur að því að versla í matinn fyrir vikuna hentar okkur fjölskyldunni hinsvegar best að vera á bíl þar sem stærri matvörverslanir eru að jafnaði ekki í göngufjarlægð frá heimili okkar í Reykjavík. Best væri ef allir byggju við sama frelsi og ég en svo er því miður ekki. Fyrir því eru auðvitað fjölmargar ástæður en margar þeirra má finna í borgarumhverfinu og hvernig það er hannað og skipulagt.

  Ef borgarumhverfi á að stuðla að aukinni hamingju borgarbúa þá er lykilatriði að allir hafi frelsi til að velja.   


  Sneckdown

  Það hefur snjóað mikið hér í suðurhluta Ontario síðustu daga og við slíkar aðstæður er alltaf áhugavert að rýna í borgarlandið. Snjórinn hefur löngum veitt borgarspekúlöntum áhugaverðar vísbendingar um hvað bílaumferð þarf raunverulega mikið pláss og hvar væri hægt að koma fyrir hjólastígum, breiðari gangstéttum og jafnvel litlum torgum til að hlúa að bættu mannlífi og auka öryggi vegfarenda í göturýmum. 

  Á Twitter og öðrum samfélagsmiðlum hafa greiningar af þessum toga verið að ryðja sér til rúms, fyrst og fremst merktar með kassmerkinu #sneckdown, en einnig #plowza og #snovered. Hér má lesa um tilurð orðsins sneckdown sem á skömmum tíma hefur náð góðri fótfestu um allan heim meðal áhugafólks um borgarskipulag. Ég mæli einnig með þessari ágætu færslu til að skerpa enn frekar á hugmyndafræðinni: What Snow Tells Us About Creating Better Public Spaces on E. Passyunk Avenue 

  Að lokum fylgir eitt myndskeið með fyrir áhugasama  Tilgangslausar framkvæmdir?

  Mér varð hugsað til bloggfærslu sem Egill Helgason birti ekki alls fyrir löngu á meðan ég rýndi í niðurstöður mjög svo áhugverðrar rannsóknar frá árinu 2010 sem ber heitið Infrastructure, programs, and policies to increase bicycling: An international review og birtist í hinu virta tímariti Preventitive Medicine. Niðurstöður rannsóknarinnar, sem í raun er samantekt á niðurstöðum 139 annarra rannsókna á áhrifum framkvæmda og verkefna sem miða að því að auka hjólreiðar í borgum um allan heim, eru afgerandi og sýna fram á bein tengsl milli stefnumótunar og uppbyggingu innviða fyrir hjólreiðar og fjölgun hjólreiðafólks í borgum. Eitt prýðilegt dæmi er frá borginni Portland í Oregon fylki í Bandaríkjunum. Þar átti sér stað 247% aukning í lagningu hjólastíga frá árinu 1991 (79 mílur) til ársins 2008 (274 mílur). Grafið hér að neðan (sjá hér) sýnir aukningu hjólreiða í Portland á tímabilinu:

  If you build them, they will come

  Færsla Egils, sem ber heitið Tilgangslausar framkvæmdir snýr að uppbyggingu hjólastíga við Grensásveg í Reykjavík. Í færslunni kemst Egill, sem alla jafna skrifar um skipulagsmál af mikilli þekkingu, svo að orði: 

  "Keyrði Grensásveginn áðan, þann hluta sem á að fara að breyta. Á þessum hluta vegarins er fjarska rúmgott fyrir alla, bíla, gangandi vegfarendur, hjól. Maður sér varla að neinu þurfi að breyta – hvað þá kosta til miklu fé.

  Egill heldur áfram og skrifar: 

  "Þarna er svolítið eins og farið sé í framkvæmdir bara til að gera eitthvað (jú og þá man maður eftir hinum tilgangslausa reiðhjólastíg sem hefur verið lagður niður Frakkastíginn, en bara frá Skólavörðuholtinu niður að Njálsgötu)."

  Þarna lýsir Egill hættulegu viðhorfi til borgarskipulags sem er lykilatriði að breyta til að Aðalskipulag Reykjavíkur nái fram að ganga og að Reykjavík nútímavæðist og standist samanburð við aðrar borgir. Hjólreiðar eiga að vera valkostur fyrir alla, ekki einungis þá sem treysta sér til að hjóla í bílaumferð eða innan um gangandi vegfarendur. Einmitt þess vegna þarf að fækka akreinum við götur eins og Grensásveg og byggja upp hjólastíga til að ungir sem aldnir treysti sér til að hjóla og upplifi öryggi og ánægju á ferðum sínum um borgina. Myndbandið hér að neðan, sem mætti kalla Hjólastígar 101, segir allt sem segja þarf: 

  Stórt og mikið púsluspil

  Við megum ekki láta skammsýni ráða för og það er lykilatriði að líta á lagningu hjólastíga sem langtíma-púsluspil. Í hvert skipti sem ráðist er í gatnaframkvæmdir, líkt og við Frakkastíg á síngum tíma, þá er nauðsynlegt að nýta tækifærið og koma fyrir hjólastígum í göturýminu, sama hve stuttir þeir kunna að vera. Við verðum að hugsa um heildarmyndina og líta á hvern einasta hjólastígs-stubb sem hluta af henni. Eftir 20-30 ár verða stubbarnir ekki lengur stubbar heldur hluti af umfangsmiklu hjólastíganeti sem mun ná um alla borg samkvæmt Hjólreiðaáætun Reykjavíkurborgar. Lagning hjólastíga er aldrei tilgangslaus og hver einasti metri skiptir máli.