Eldsneytisdrifin umhverfisstefna

Tengsl borgarskipulags og lýðheilsu hafa verið mér hugleikin um allnokkurt skeið og meðal annars orðið uppspretta að skrifum á þessari síðu. Asbest samtímans er einn af þessum pistlum en þegar pistillinn birtist fyrir rúmu ári síðan var uppi talsverð umræða um komu Costco til landsins og hugsanlega staðsetningu verslunarinnar. Nú er orðið ljóst að verslunin mun opna í Urriðaholti í Garðabæ í 14.000 fermetra verslunarhúsnæði að Kauptúni 3 en á svæðinu eru fyrir bílaumboð auk verslana á borð við IKEA og Bónus. Eitt stærsta bílastæði landsins er einnig að finna í Kauptúni og minnir svæðið um margt á útjaður Norður-Amerískrar bílaborgar þar sem enginn kemur nema á eigin ökutæki enda umhverfið allt að því fjandsamlegt gangandi vegfarendum. Korputorg er annað dæmi um skipulag af þessu tagi en þar keyra viðskiptavinir á milli verslana í stað þessa að ganga

Ný hugsun í nýju hverfi

Það skýtur raunar ákaflega skökku við að Kauptún sé hluti af Urriðaholti en hverfið í heild er án nokkurs vafa eitt áhugaverðasta og best skipulagða úthverfi borgarinnnar. Skipulag Urriðaholts einkenndist í hvívetna af nýrri hugsun en þar var frá upphafi lögð áhersla á sjálfbæra þróun og á gæði byggðarinnar til þess að skapa heilbrigt og aðlaðandi umhverfi. Ein fremsta ráðgjafarstofa landsins, ALTA, leiddi vinnu við skipulagið sem hlaut verðskuldaða alþjóðlega viðurkenningu á sínum tíma og nú er unnið að vistvottun skipulagsins í samræmi við alþjóðlega staðla Breeam Communities vottunarkerfisins. 

Til að gæta sanngirni er rétt að nefna að verslunarkjarninn Kauptún er vissulega í göngufæri við íbúðabyggð í Urriðaholti þó svo að fæstar þær verslanir sem þar er að finna selji vörur sem viðskiptavinir geta borið heim í innkaupapokum. Umrædd Costco verslunar verður þar enginn undantekning en verslunin flokkast undir heildsölu frekar en hefðbundna matvöruverslun enda byggir hagræði verslunarinnar á að selja vörur í stórum magnpakkningum. Það er því ljóst að viðskiptavinir Costco munu að jafnaði nýta sér hluta af þeim 791 bílastæðum sem í boði verða á svæðinu í stað þess að koma hjólandi eða á tveimur jafnfljótum.

Framboð og eftirspurn

Einhverjir kunna að segja að líkt og með Korputorg þá sé skaðinn nú þegar skeður með Kauptún og að næg eftirspurn sé eftir þeirri þjónustu sem boðið er upp á svæðinu til að tilvist þess eigi rétt á sér. Einhversstaðar þurfa bílaumboð og verslanir á borð við IKEA að vera og að mörgu leyti sé Kauptún ágætlega staðsett miðað við marga aðra kosti, einkum og sér í lagi vegna nálægðarinnar við íbúðahverfi Urriðaholts. Því verður vissulega ekki að neitað að þetta eru allt saman rök sem standast skoðun en það sem stenst hinsvegar ekki skoðun eru nýjustu fréttir af fyrirætlunum Costco í Urriðaholti sem snúa að leyfisveitingu fyrir 16 eldsneytisdælum við verslunina

Hrópandi þversögn og tímaskekkja

Það er eitthvað ótrúlega brenglað við þá hugmynd að ætla að koma fyrir 16 eldsneytisdælum í hverfi sem hefur hlotið alþjóðlega viðurkenningu sem umhverfisvæn byggð í hæsta gæðaflokki. Á svæðinu er vatns­ból Gjáa­rétt­ar, Vatns­gjá, auk þess sem Víf­ilsstaðahraunið norðan Urriðaholts er friðlýst. Samkvæmt aðalskipulagi Garðabæjar nýtur Urriðavatnið sjálft hverfisverndar og í yfirstandandi vinnu við nýtt aðalskipulag sveitarfélagsins er lögð mikil áhersla á umhverfis en þar segir m.a. að í bænum eigi „Skipulag byggðar og umhverfis stuðli að sjálfbærri þróun samfélagsins og skapi skilyrði til sambýlis íbúa og náttúru í góðri sátt hvort við annað“. 

Fyrir utan tímaskekkjuna sem felst í að leggja áherslu á uppbyggingu bensínstöðva árið 2015 þá er ljóst að það verður nær ómögulegt fyrir bæjaryfirvöld í Garðabæ að færa rök fyrir því að 16 eldsneytisdælur í jaðri einnar vistvænustu byggðar höfuborgarsvæðisins rími við öll þau fögru fyrirheit sem nefnd hafa verið hér að ofan og bærinn hefur hlotið viðurkenningu fyrir. 

*Myndin efst í færslunni var fengin á vefsíðu Urriðaholts en höfundar var ekki getið.