Það er ekki laust við að manni misbjóði málflutningur forsætisráðherra aðeins meira en venjulega nú þegar fréttir eru byrjaðar að berast af flokksþingi Framsóknarmanna sem nú stendur yfir. Enn einu sinni á mjög stuttum tíma tjáir hann sig um skipulagsmál af ótrúlegri vanþekkingu og ósvífni:
„Nú má öllum vera ljóst að grípa þarf til varna fyrir Reykjavíkurflugvöll og koma í veg fyrir að borgaryfirvöld grafi stöðugt undan flugvellinum og beiti brögðum til að losna við hann.“
Kristján Már Unnarsson, "fréttamaður" og einn öflugasti talsmaður Hjartans í Vatnsmýrinni hefur einnig verið ötull við að villa um fyrir almenningi með störfum sínum á fréttastofu Stöðvar 2 með stöðugum rangfærslum varðandi uppbyggingu við Hlíðarenda og lokun NA/SV brautar Reykjavíkurflugvallar ("neyðarbraut"). Það er rétt að ítreka þrjár staðreyndir í þessu samhengi:
1. Það er ákaflega skýrt samkomulag í gildi milli ríkis og borgar um lokun NA/SV flugbrautarinnar.
2. Samkomulagið er í fullu samræmi við gildandi skipulagsáætlanir borgarinnar, þar á meðal aðalskipulag Reykjavíkur sem var samþykkt með miklum meirihluta á síðasta kjörtímabili í fullri þverpólitískri sátt.
3. Rögnunefndin svokallaða er þar af leiðandi ekki (og hefur aldrei verið) að skoða möguleikann á þriggja brauta flugvelli í Vatnsmýri enda löngu ákveðið að loka NA/SV flugbrautinni.
Allt tal um að borgaryfirvöld séu að beita einhversskonar brögðum til að grafa undan flugvellinum er í besta falli ósmekklegt enda ljóst að ákvörðunin byggir á afar vönduðum og umfangsmiklum skipulagsáætlunum og samkomulagi við ríkið sem núverandi ríkisstjórn skrifaði sjálf undir þann 25. október 2013.