Inn og upp eða út og niður

Eftirfarandi grein birtist í Kjarnanum 13. október 2013

Samfélagsleg ábyrgð þeirra yfirvalda sem koma að borgarskipulagi er mikil. Umhverfið sem við búum í markar lífsgæði okkar og í tilfelli stór-höfuðborgarsvæðisins er um að ræða lífsgæði um 80% landsmanna. Sem höfuðborg gegnir borgin einnig veigamiklu hlutverki gagnvart landsbyggðinni og því má segja að skattgreiðendur allir eigi þá réttmætu kröfu að borgin sé rekin á sem hagkvæmastan hátt. Hagkvæmni er hins vegar sérlega flókið hugtak með tilliti til borgaskipulags og þá sér í lagi þegar kemur að samgöngumálum. Þrátt fyrir að stofn- og rekstarkostnaður hins opinbera vegna samgöngumála sé í flestum tilvikum skýr þá er ekki sömu sögu að segja um annan raunkostnað umferðar. Honum má skipta í tvo flokka, eða innri og ytri kostnað. Innri kostnaður umferðar, líkt og aksturs- og tímakostnaður, veltur á tímavirði vegfarenda og fjarlægðum og ytri kostnaður veltur á fjölda umferðarslysa og vægi umhverfisáhrifa. Alla þessa þætti er erfitt að meta nákvæmlega til fjár en þó er ljóst að allur umferðarkostnaður hækkar með aukinni umferð.

Umferðarteppur þrátt fyrir hátt þjónustustig

Einkabíllinn hefur verið ráðandi samgöngutæki Reykvíkinga síðustu áratugi og er bílaeign borgarbúa í kringum 550 bílar á hverja 1000 íbúa sem er eitt hæsta hlutfall í Evrópu. Fyrir vikið eru umferðartafir farnar að gera vart við sig á stofnbrautum borgarinnar á háannatímum þrátt fyrir hátt þjónustustig. Til að anna framtíðarumferð er því tvennt í stöðunni. Annars vegar að hækka þjónustustigið með umfangsmiklum umferðarmannvirkjum eða að auka hlutdeild annarra samgöngumáta innan borgarinnar og skapa þannig forsendur til að fresta framkvæmdum stórra umferðarmannvirkja. Síðarnefndi kosturinn gefur borginni kost á að vaxa án þess að bílaumferð aukist og samkvæmt samgönguáætlun frá 2011–2022 þá hefur sá kostur orðið fyrir valinu hjá yfirvöldum. Á tímabilinu stendur til að fjárfesta í innviðum fyrir hjólandi og gangandi vegfarendur fyrir rúma fimm milljarða króna og öðrum níu milljörðum verður varið í rekstur almenningssamgangna. Til samanburðar verður um sex milljörðum varið í önnur umferðarmannvirki.

Forsendurnar eru þétting byggðar

Þarna er um að ræða gríðarlega háar upphæðir og því eðlilegt að líta á þessa stefnubreytingu í samgöngumálum út frá hagkvæmnissjónarmiðum. Fjöldin allur af rannsóknum bendir til þess að aukin hlutdeild almenningssamgangna, hjólreiða og gönguferða lækki raunkostnað umferðar. Hins vegar þurfa ákveðnar grunnforsendur að liggja að baki því að fjárfestingar líkt og nú á að ráðast í á höfuðborgarsvæðinu skili þeirri hlutdeildaraukningu sem til þarf.

Í stuttu máli snúast þær forsendur að stórum hluta um þéttingu byggðar og líkt og sjá má í nýju aðalskipulagi Reykjavíkur er stefnt að mikilli þéttingu byggðar í Reykjavík fram til ársins 2030. Aðalskipulagið miðar að því að skapa þær forsendur sem fjárfestingar samgönguáætlunar þarfnast til að teljast hagkvæmar. Með þetta í huga er áhugavert að skoða þær tugþúsundir undirskrifta sem borist hafa borgaryfirvöldum vegna nýs aðalskipulags. Vissulega má þétta byggð á mörgum svæðum borgarinnar en ef þau svæði sem eru hvað mest miðsvæðis verða undanskilin er erfitt að sjá að fjármunum skattborgara sé varið á hagkvæman hátt í nýrri samgönguáætlun. Vatnsmýrin er engin undantekning þar á.
En burtséð frá öllum hugmyndum um hagkvæmni og arðsemi er einnig mikilvægt að sjá mikilvægi þeirra breytinga sem fyrirhugaðar eru í Reykjavík er lúta að þéttingu byggðar og öðrum umhverfisvænum áætlunum í nýju aðalskipulagi í öðru ljósi.

70 prósent íbúa jarðar verða í borgum

Talið er að fyrir hundrað árum hafi 20 prósent íbúa jarðar búið í þéttbýli. Árið 1990 var hlutfallið komið upp í 40 prósent og árið 2010 bjuggu rúmlega 50 prósent jarðarbúa í þéttbýli. Talið er að árið 2030 muni hlutfallið aukast í 60 prosent og að árið 2050 muni 70 prósent íbúa jarðar búa í borgum. Í dag býr um helmingur borgarbúa í heiminum í borgum þar sem íbúafjöldi er um 100 til 500 þúsund og innan við tíu prósent búa í svokölluðum „mega-borgum“ þar sem íbúar eru fleiri en tíu milljónir.

Með öðrum orðum: borgarskipulagsmál verða í brennidepli á komandi áratugum.
Í nýju aðalskipulagi er að finna fjölmargar tillögur sem miða að því að Reykjavík nútímavæðist og verði með tíð og tíma sú framúrskarandi og fyrirmyndarborg sem hún hefur fulla burði til að vera. Með þéttingu byggðar, breyttum samgönguháttum og aukinni umhverfisvitund er hægt að skapa þekkingu og fordæmi sem aðrar þjóðir geta horft til og nýtt sér á komandi árum.


Samhengi hlutanna

Það er fátt jafn gefandi eins og að vera sammála og blessunarlega erum við öll sammála um ótal margt. Langflestir eru sammála um að mannkyninu stafar raunveruleg ógn af offitu og öðrum lífstílstengdum sjúkdómum. Íslendingar eru feitasta þjóð í Evrópu og langflest ótímabær dauðsföll á Íslandi má rekja beint til lífstíls fólks. Ef að fleiri íslendingar hefðu kost á að nýta eigið hreyfiafl til að komast til og frá vinnu mun þessum dauðsföllum fækka. Heilbrigð skynsemi segir okkur að bætt lýðheilsa bjargar mannslífum. Mun fleiri mannslífum en flugvöllur sem væri staðsettur ofan á fullkomnasta spítala í heimi. Langflestir eru líka sammála um að okkur stafar veruleg ógn af loftlagsbreytingum og það er ljóst að íbúar hins vestræna heims bera mikla ábyrgð í þeim efnum. Ef allir íbúar jarðar væru jafn neyslufrekir og við íslendingar þá þyrftum við rúmlega 5 jarðir í viðbót. Þær eru ekki í boði. Íslendingar eru umhverfissóðar á heimsmælikvarða

Það eru flestir sammála um að það sé dýrt að eiga bíl og að það séu mikil lífsgæði fólgin í því að geta sótt verslun og þjónustu í göngufjarlægð frá heimili okkar. Þeir sem eru orðnir eldri en tuttugu og fimm ára minnast þess að svoleiðis hafi þetta verið í "gamla daga". Flestar nauðsynjavörur var hægt að nálgast á tveimur jafnfljótum á innan við tuttugu mínútum. Í hverfiskjörnunum var hægt að fá sér strípur, fara í sérvöruverslanir og kaupa bland í poka allt í sömu ferð. Flestir eru sammála um að það sé alls ekkert hræðilegt að þurfa að keyra á milli verslunarkjarna til að sækja verslun og þjónustu og að vissulega felist í því ákveðið frelsi og hagræði fyrir neytendur. Á sama tíma eru flestir sammála um að það væri betra ef hægt væri að spara tíma og peninga með því að geta gengið út í búð, hreyft sig þannig í leiðinni og um leið verndað umhverfið. Svo finnst líka flestum gott að geta sent börnin sín út í búð án þess að þau þurfi að fara yfir hættulegar umferðargötur og þurfi ekki að eiga á hættu á að þróa með sér öndunarfærasjúkdóma sökum svifryks- og loftmengunar. Það er ömurlegt að árið 2014 sé astmi á uppleið á Íslandi og það sérstaklega hjá börnum og ungu fólki. Flestir geta sammælst um að það væri afar ákjósanlegt ef öll hverfi borgarinnar væru á þessa leið, óháð staðsetningu: 

Myndin hér að ofan er fengin úr nýju svæðisskipulagi höfuðborgarsvæðisins sem er á vinnslustigi og mun ná fram til ársins 2040. Hún endurspeglar framtíðarsýn sem öll sveitarfélög á höfuðborgarsvæðinu eru sammála um að tryggi íbúum sem best lífsgæði á sem sjálfbærastan hátt. 

"Sjálfbær þróun er þróun sem fullnægir þörfum samtíðarinnar án þess að skerða möguleika komandi kynslóða til að fullnægja sínum þörfum."

Hverju sveitarfélagi er síðan í sjálfsvald sett hvernig best er að haga skipulagsmálum til að tryggja að að ofangreind framtíðarsýn nái fram að ganga, einkum með gerð aðalskipulags. Í nýju aðalskipulagi Reykjavíkur er að finna ótal markmið, áherslur, stefnur og pælingar um hvernig tryggja megi sjálfbæra þróun borgarinnar í víðu samhengi. Þar er leitast við að setja hlutina í samhengi með það að markmiði að Reykavík sé ábyrg borg þar sem yfirvöld gera sér grein fyrir samhengi hlutanna. Að baki kaflanum um kaupmanninn á horninu er ekki útópískt draumsýn yfirvalda um gamlan mann í slopp að rétta húsmæðrum vörur yfir búðarborð, heldur ítarleg greiningarvinna sem sýnir meðal annars fram á að í kjölfar þess að verslun og þjónusta færðist úr nærumhverfi fólks jókst tíðni offitu með alvarlegum afleiðingum fyrir þjóðfélagið í formi kostnaðar og dauðsfalla. Skipulagsmál eru dauðans alvara. Niðurstöður nýlegrar búsetukönnunar sýna einnig að flestir telja helstu ókosti síns hverf­is vera mikla bílaum­ferð, skort á versl­un og þjón­ustu og slakt stræt­is­vagna­kerfi. Samkvæmt sömu könnun vilja flestir búa miðsvæðis, eða í þeim hverfum þar sem þjónusta og verslun hefur ekki horfið úr nærumhverfinu. Best væri ef niðurstöður búsetukannanna væru á þann veg að sem flestir séu ánægðir og stoltir af sínu hverfi.

Í innleiðingu á aðalskipulagi Reykjavíkur er verið að stíga nýtt skref sem miðar að því að kortleggja styrkleika og veikleika allra hverfa borgarinnar með það að markmiði að öll hverfi borgarinnar þróist á forsendum þeirra sem þar búa á sjálfbæran hátt í gegnum hverfisskipulag. Markmiðið við gerð hverfisskipulags er að skapa kraftmikil hverfi með öfluga nærþjónustu í takt við óskir íbúa. Hverfisskipulagið á að vera unnið í virku samráði við íbúa og grasrótarsamtök og það á að vera byggt á staðbundinni þekkingu og hverfisivitund. Það á að vera verkfæri íbúa til að móta sín hverfi eftir eigin höfði og með gildistöku þess á öll skipulagsvinna að verða einfaldari og hraðari. Hverfisskipulagið er unnið á smáum skala en af stórri hugsjón. Með gerð hverfisskipulags er hægt að hugsa hnattrænt en bregðast við heimafyrir. 

Á löngu ferðalagi þarf oft að rétta kúrsinn af og það verður ekki betur séð en að ákvörðun borgarráðs sé til þess fallinn að fyrirbyggja misskilning sem farið var að gæta varðandi markmið og tilgang hverfisskipulagsins sem skipulagsverkfæris. Hverfisskipulag á ekki að verða að pólitísku bitbeini í aðdraganda kosninga og það er óþarfi að vega að starfsheiðri margra af fremstu ráðgjafastofum arkitekta, landslagsarkitekta og skipulagsfræðinga hér á landi í pólitískum tilgangi með villandi umræðu. Hverfisskipulag er einn af þessum hlutum sem við eigum að geta verið nokkurn veginn sammála um. 

Vor í Reykjavík

Ólíkt mörgu öðru sem er að eiga sér stað á Íslandi í dag þá eru virkilega spennandi hlutir að gerast í skipulagsmálum í Reykjavík. Nýtt aðalskipulag Reykjavíkur rímar vel við ríkjandi stefnur annarra borga sem eru í fararbroddi í skipulags- og umhverfismálum á heimsvísu. Um það ríkir því sem næst þverpólitísk sátt og jarðvegurinn til að stuðla að raunverulegum breytingum í Reykjavík er afar frjór um þessar mundir. Áður en ég kynntist þeirri vinnu sem nú á sér stað á umhverfis- og skipulagssviði Reykjavíkurborgar og þeirri fagmennsku og krafti sem þar býr innanborðs hafði ég ekki sérstaklega í hyggju að snúa heim úr námi til að starfa sem skipulagsfræðingur á Íslandi. Eftir að hafa dvalið langtímum erlendis og fylgst með stöðu mála úr fjarlægð þá er erfitt fyrir frjálsyndan einstakling sem trúir á sjálfbærni og mátt alþjóðasamfélagsins að finna samsvörun með Íslandi um þessar mundir.

Í mínum huga hefur nýtt aðalskipulag meiri og stærri merkingu en að vera framúrskarandi verkfæri við skipulagningu borgarinnar og verndun umhverfisins. Það er boðberri nýrra tíma, uppfullt af krefjandi áskorunum og metnaðarfullum markmiðum. Það er til þess fallið að ungt fólk með háskólamenntun á heimsmælikvarða og ótal tækifæri handan við hornið á alþjóðavísu getur hugsað sér að setjast að í Reykjavík og búa þar án þess að skammast sín fyrir borgina sína.  

"Aðalskipulag getur við fyrstu sýn virst yfirgripsmikið og fjarlægt en það er mikilvægt að borgarbúar þekki þær áherslur sem þar birtast því það er framtíðarsýn sem öllum Reykvíkingum kemur við" - Páll Hjaltason

Með tímanum verður að finna yfirgripsmikil fróðleik um núgildandi aðalskipulag Reykjavíkur á þessari vefsíðu, kosti þess og galla. Tíminn mun eflaust leiða í ljós að aðalskipulagið er ekki gallalaust og mistök munu verða gerð í innleiðingu þess. Mistök eru hinsvegar til þess að læra af og ef þér mistekst aldrei muntu aldrei gera neitt sem skiptir máli. Að endingu eru mistök alltaf skref fram á við. Aðalskipulagið mun brjóta blað í sögu Reykjavíkur og færa borgina inn í nútímann með sjálfbærni að leiðarljósi. Með gagnrýna hugsun að leiðarljósi ætla ég að leggja lóð mitt á vogarskálarnar í leik og starfi og vera partur af lausninni en ekki vandanum. Ég skora á aðra að gera slíkt hið sama. Ein lítil hugarfarsbreyting getur gert kraftaverk. 

Dropinn holar steininn

Ég trúi því að lífið snúist um framtíðarsýn, háleit markmið og stanslausa sjálfsskoðun. Þetta helst raunar allt í hendur og að einhverju leyti er framtíðarsýn, markmið og sjálfsskoðun einn og sami hluturinn. Ég hef að vissu leyti kjarnað mína framtíðarsýn innan marka borgarskipulagsfræða og þar liggur mín ástríða og einlæga trú á að borgir séu vettvangurinn til að breyta heiminum til betri vegar.  Í þeim efnum er Reykjavík smátt og smátt að verða sú borg sem ég hef trú á að geti orðið öðrum borgum fyrirmynd þegar fram líða stundir. Ég hef háleit markmið um hvernig borg Reykjavík getur orðið og afhverju það er mikilvægt. Að stórum hluta mun efni þessarar síðu fjalla um þá framtíðarsýn sem ég hef fyrir Reykjavík og hvernig hægt er að vinna henni brautargengi á einn eða annan hátt.

Til að vita hvert við erum að fara þurfum hinsvegar við að vita hvar við erum og hvernig við komumst hingað. Þar kemur sjálfsskoðunin til skjalanna og hana má leggja rækt við í stóru og smáu samhengi. Að einhverju leyti verður efni þessarar síðu skoðun á eigin sjálfi, sjálfi Reykjavíkur eða sjálfi annarra borga.

Steinninn sem þessari síðu er ætlað að hola á sér margar hliðar og höggstaðirnir eru jafn misjafnir og þeir eru margir. Hver færsla verður vonandi lítill dropi sem að endingu holar steininnn.