Út fyrir sviga

"Og hvað finnst þér þá um flugvöllinn í Vatnsmýri!?"

Þetta er gjarnan spurning númer þrjú í fjölskylduboðum og hún kemur yfirleitt beint í kjölfarið á útskýringum mínum um að ég sé að læra borgarskipulagsfræði í Kanada. Í gegnum tíðina hef ég svarað þessari spurningu með ýmsum hætti enda hef ég margoft skipt um skoðun varðandi þetta umdeilda mál. Lengi vel fannst mér galið að hrófla við flugvellinum og ekki síst vegna þess að stór hluti fjölskyldu minnar býr vestur á fjörðum og flugvöllurinn er að mörgu leyti þeirra lífæð. Svo eiga foreldrar mínir einnig sumarhús rétt fyrir utan Bolungarvík og þar af leiðandi hefur flugvöllurinn margoft þjónað okkar persónulegu hagsmunum með miklum ágætum. Þeim sem er kunnugt um vegasamgöngur á Vestfjörðum, einkum að vetri til, munu seint gera lítið úr nauðsyn þess að flugsamgöngur til höfuðborginni séu áreiðanlegar. Hið sama á við um aðra landshluta. Skoðanir mínar á flugvellinum tóku hinsvegar að breytast eftir því sem ég byrjaði að kynna mér málið til hlítar og lesa skýrslur og blaðagreinar um málið, löngu áður en ég hóf nám í skipulagsfræðum. Á tímabili sveiflaðist ég á milli fylkinga og sökkti mér ofan í úttektir áhættunefnda, mismunandi nothæfnisstuðla og útreikninga sem liggja að baki hliðarvindsmarka. Danska ráðgjafastofan Ramböll sem skrifaði skýrsluna "Foranalyse vedrcirende en eventuel flytning af Reykjavik Lufthavn", miðaði við 33 hnúta en samkvæmt "Reglugerð um flugvelli, nr. 646120O7" á víst að miða við 13 hnúta. Þá er rétt að minnast á allar hagfræði- og hagræðisúttektirnar sem ýmist segja til um hvort að landið fari á hausinn við flutning flugvallarins eða komi út í tugmilljarða gróða. Í viðleitni minni til að mynda mér upplýsta skoðun á þessu máli las ég allt sem ég gat komist yfir um kosti þess og galla að hafa flugvöll í Vatnsmýri eða ekki. 

"Tölfræði er bara tungumál" sagði ágætur stærðfræðikennari við mig í MH á sínum tíma og nú mörgum árum og háskólakúrsum í tölfræði seinna þá er ég þess fullviss að í orðum kennarans hafi falist mikill sannleikur. Tölur er hægt að teygja fram og til baka og niðurstöður má túlka með mismunandi hætti. Vissulega eru skýrslur og útttektir mikilvægar en þegar það kemur að stórum málum þar sem að miklir hagsmunir eru í húfi þá er rétt að staldra við og taka hlutunum með fyrirvara. Heimurinn er margslungnari en svo að flókin úrlausnarefni verði leyst með skýrslum, skoðannakönnunum og undirskriftasöfnunum. 

Fæst orð hafa minnsta ábyrgð

Eftir að ég byrjaði að læra skipulagsfræði tók ég fljótt þá afstöðu að tjá mig sem allra minnst um flugvöllinn og temja mér svör stjórnmálamanna um málið. Þ.e. að vísa í gildandi aðalskipulag Reykjavíkur og nú síðast störf Rögnunefndarinnar. Síst af öllu vil ég sem ungur skipulagsfræðingur brennimerkja sjálfan mig með einum eða öðrum hætti með því að stökkva í skotgrafirnar varðandi flugvöllinn. Ég vil heldur ekki misnota aðstöðu mína og túlka niðurstöður þeirra skýrslna sem mér þóknast með þeim hætti sem endurspeglar hagsmuni mína hvað best. Það væri vissulega hægðarleikur sem ansi margir leika nú þegar. Ég hnaut hinsvegar um færslu á ágætri heimasíðu Hilmars Þórs Björnssonar arkitekts sem hefur setið í mér um all nokkurt skeið og valdið mér talsverðu hugarangri. 

Reykjavíkurflugvöllur, sameign þjóðarinnar

Er heitið á færslu sem "Sigurður Thoroddsen arkitekt og einn reyndasti skipulagsmaður stéttar sinnar á Íslandi skrifar um Reykjavíkurflugvöll". Færsluna sjálfa ætla ég ekki að rekja hér, né heldur þá ábyrgð sem hvílir á herðum þeirra sem hafa haft veg og vanda að skipulagi Reykjavíkurborgar og annarra borga í hinum vestræna heimi síðustu áratugi. Verk þeirra dæma sig því miður að mörgu leyti sjálf. Ástæðan fyrir því að ég vek máls á skrifum Sigurðar er afstaðan sem hann tekur í lokamálsgrein greinarinnar. Að mínu mati endurspeglar hún margt af því sem veldur mér miklum áhyggjum varðand umræðu um skipulagsmál á Íslandi og víðar.

Ég hef áður rekið lauslega þann grafalvarlega vanda sem blasir við borgarsamfélögum heimsins og ekki síst í Reykjavík. Loftlagsbreytingar og lífstílstengdir sjúkdómar draga milljónir manna til dauða ári hverju. Niðurstöður rannsókna á tengslum byggðarþróunar og þessara tveggja mestu ógnvalda samtímans í hinum vestræna heimi sýna með afgerandi hætti að eina leiðin til að bregðast við þessari lífshættulegu þróun er að gjörbreyta borgunum sem við búum í. Ef við ætlum ekki að tortíma sjálfum okkur og jörðinni í leiðinni (eða vice versa) þá er einfaldlega ekkert annað í boði. 

Dýrt og erfitt

Líkt og í niðurlagi færslunnar sem ég vísa í hér að ofan þá eru hátt flækjustig og mikill kostnaður í tengslum við breytta byggðarþróun dæmi um tvær röksemdir sem oft verða ofan á í umræðunni um þéttingu byggðar, einkum og sér í lagi þegar fjallað er um fyrirhugaða íbúðarbyggð í Vatnsmýri. Ennfremur heyrast þessar röksemdir gjarnan frá aðilum sem tilheyra þeirri kynslóð sem ber hvað mesta ábyrgð á borgarskipulagi síðustu áratuga. Oftar en ekki virðast þessir aðilar vera varðhundar þess sama kerfis og skipulags og þeir sjálfir sköpuðu og þeir neita að horfast í augu við flókinn og margslunginn raunveruleikann eins og hann er. Þeir neita að viðurkenna mistök. Jón Gnarr kallar þessa aðila freka kallinn og þar held ég að hann hafi hitt naglann á höfuðið. Í Suður Afríku var eitt sinn frekur kall við völd sem neitaði að horfast í augu við raunveruleikann. Afneitun hans, í nafni reynslu valda og útúrsnúninga kostuðu hið minnsta 300,000 manns lífið.  

Ég ætla ekki að halda því fram að það verði ekki dýrt og flókið að þétta byggð, þvert á móti þá held ég að það verði dýrara, flóknara og tímafrekara en nokkurn mann grunar. Ónæðið verður mikið, nágrannar verða brjálaðir og verðmæt og viðkvæm vistkerfi munu taka breytingum. Þegar fram í sækir þá þurfa fjölmargar borgir einnig að huga að hækkandi sjávarstöðu með tilliti til flóðahættu og Reykjavík verður þar engin undantekning. Það eru flóknir, erfiðir og gríðarlega krefjandi tímar í framundan í skipulagsmálum. Það mun kosta blóð svita og tár að berja niður skammsýnina sem ráðið hefur ríkjum síðustu áratugi. Það mun líka kosta fullt af peningum. Hinsvegar verðum við stöðugt að hafa það hugfast þegar freki kallinn hefur upp raust sína að ekkert hagkerfi í heiminum mun ráða við þann stjarnfræðilega kostnað sem kemur til með að leggjast á þjóðir heimsins vegna aukins álags á heilbrigðis- og almannavarnakerfi ef byggðarþróun síðustu áratuga verður ekki stöðvuð. Það eina sem borgir í þróuðum samfélögum hafa ekki efni á er að sýna ekki ábyrgð og að vera ekki til fyrirmyndar í allri sinni uppbyggingu með tilliti til umhverfisins og heilsu fólks í eins víðu samhengi og mögulegt er. 

Framtíðarsýn óskast

Og hvað finnst mér þá um flugvöllinn í Vatnsmýri, allar skýrslurnar, landsbyggðina, nálægðina við spítalann, Hjartað í Vatnsmýrinni, hagsmuni Icelandair og ferðaþjónustunnar og allar aðrar heimsins röksemdarfærslur sem styðja áframhaldandi veru eða flutning flugvallarins í Vatnsmýri? Ég skil þær allar, tek mismikið mark á þeim en virði þær þó. Fyrst og fremst finnst mér þó umræðana alla skorta ábyrga framtíðarsýn byggða á réttum forsendum. Mér finnst hún endurspegla  ábyrðgarleysi gagnvart þeim ógnum sem blasa við alþjóðasamfélaginu vegna ósjálfbærs borgarskipulags í margvíslegum skilningi. Ef við ætlum ekki að þétta byggð á lykilsvæðum í Reykjavík og gefa þannig  tugþúsundum borgarbúa kost á að velja sér sjálfbærari lifnaðarhætti hvað ætlum við þá að gera. Hvernig ætlum við þá að vera til fyrirmyndar og í fararbroddi í umhverfismálum líkt og við hreykjum okkur af á tyllidögum. 

Út fyrir sviga

Umræðan um þéttingu byggðar og framtíð Vatnsmýrarinnar endurspeglar út fyrir sviga hugsunarháttinn sem einkennir því miður alltof oft umræðu á Íslandi. Jafnvel þó að allar aðrar borgir í heiminum séu að snúa við blaðinu, oftar en ekki með afar kostnaðarsömum og flóknum hætti þá ætlum við bara að halda okkar striki og gefa skít í umheiminn. Við erum nefnilega svo sérstök að við þurfum ekki að sýna neina samstöðu með alþjóðasamfélaginu, við þurfum aldrei að axla ábyrgð og gerum bara það sem okkur sýnist. Við látum bara einhverja aðra bregðast við loftlagsbreytingum og hörmungunum sem þeim fylgja. Við ætlum ekki að vera partur af lausninni. Ef eitthvað er þá ætlum við frekar að reyna að græða á vandanum

Ég lít á það sem skyldu mína sem manneskja og skipulagsfræðingur að vera partur af lausninni en ekki vandanum. Í mínum huga skiptir engu máli hvaða borg ég starfa fyrir eða í hvers umboði ég tala, það er mitt hlutverk að setja hlutina í alþjóðlegt samhengi enda eiga þau vandamál sem blasa við minni kynslóð engin landamæri. Það hefur enginn rétt á því að taka hlutina út fyrir sviga. 

Ljósmyndarinn Rafael Pinho tók myndina sem sjá má efst í færslunni. Hana má finna nýútgefnu Aðalskipulagi ReykjavíkurÁrni Sæberg tók myndina af hvalveiðiskipinu sem ég fann á vef Morgunblaðsins.