Vor í Reykjavík

Ólíkt mörgu öðru sem er að eiga sér stað á Íslandi í dag þá eru virkilega spennandi hlutir að gerast í skipulagsmálum í Reykjavík. Nýtt aðalskipulag Reykjavíkur rímar vel við ríkjandi stefnur annarra borga sem eru í fararbroddi í skipulags- og umhverfismálum á heimsvísu. Um það ríkir því sem næst þverpólitísk sátt og jarðvegurinn til að stuðla að raunverulegum breytingum í Reykjavík er afar frjór um þessar mundir. Áður en ég kynntist þeirri vinnu sem nú á sér stað á umhverfis- og skipulagssviði Reykjavíkurborgar og þeirri fagmennsku og krafti sem þar býr innanborðs hafði ég ekki sérstaklega í hyggju að snúa heim úr námi til að starfa sem skipulagsfræðingur á Íslandi. Eftir að hafa dvalið langtímum erlendis og fylgst með stöðu mála úr fjarlægð þá er erfitt fyrir frjálsyndan einstakling sem trúir á sjálfbærni og mátt alþjóðasamfélagsins að finna samsvörun með Íslandi um þessar mundir.

Í mínum huga hefur nýtt aðalskipulag meiri og stærri merkingu en að vera framúrskarandi verkfæri við skipulagningu borgarinnar og verndun umhverfisins. Það er boðberri nýrra tíma, uppfullt af krefjandi áskorunum og metnaðarfullum markmiðum. Það er til þess fallið að ungt fólk með háskólamenntun á heimsmælikvarða og ótal tækifæri handan við hornið á alþjóðavísu getur hugsað sér að setjast að í Reykjavík og búa þar án þess að skammast sín fyrir borgina sína.  

"Aðalskipulag getur við fyrstu sýn virst yfirgripsmikið og fjarlægt en það er mikilvægt að borgarbúar þekki þær áherslur sem þar birtast því það er framtíðarsýn sem öllum Reykvíkingum kemur við" - Páll Hjaltason

Með tímanum verður að finna yfirgripsmikil fróðleik um núgildandi aðalskipulag Reykjavíkur á þessari vefsíðu, kosti þess og galla. Tíminn mun eflaust leiða í ljós að aðalskipulagið er ekki gallalaust og mistök munu verða gerð í innleiðingu þess. Mistök eru hinsvegar til þess að læra af og ef þér mistekst aldrei muntu aldrei gera neitt sem skiptir máli. Að endingu eru mistök alltaf skref fram á við. Aðalskipulagið mun brjóta blað í sögu Reykjavíkur og færa borgina inn í nútímann með sjálfbærni að leiðarljósi. Með gagnrýna hugsun að leiðarljósi ætla ég að leggja lóð mitt á vogarskálarnar í leik og starfi og vera partur af lausninni en ekki vandanum. Ég skora á aðra að gera slíkt hið sama. Ein lítil hugarfarsbreyting getur gert kraftaverk.