Hinn eiginlegi morðingi

Í tilefni af alþjóðlega bíllausa deginum sem haldin er hátíðlegur í dag leggja ýmis fyrirtæki og opinberir aðilar sérstaka áherslu á samgöngumál um þessar mundir. Til að mynda veitti Reykjavíkurborg sína árlegu samgönguviðurkenningu í gær og Strætó býður upp á fríar ferðir í allan dag. Fréttablaðið tók sig hinsvegar til og ákvað að birta einhliða samantekt um umferðarmál í Reykjavík. Á vefsíðu Vísis var fyrirsögninni "Slysum leyft að gerast áframslegið upp á forsíðu og yfirskrift umfjöllunarinnar sjálfrar var "Skortir fé til að fækka slysum". Í blaðinu sjálfu leit greinin síðan svona út:

Slys eða ekki slys?

Það er óhætt að segja að í þessari umfjöllun sé af nægu að taka en líklega er best að byrja á að freista þess að skilgreina merkingu orðsins slys en um þá skilgreiningu hefur áður verið fjallað á þessari síðu í pistlinum Óhapp, slys eða áhættuhegðun. Afleiðingar árekstra og annarra óhappa í umferðinni eru oft á tíðum alvarleg meiðsli á fólki sem jafnvel leiða til dauða. Þetta eru staðreyndir sem eru á flestra vitorði, sér í lagi ökumanna og annarra vegfarenda. Við tökum meðvitaða áhættu með að hætta okkur út í umferðina til að komast á milli staða og á degi hverjum láta yfir 3.300 manns lífið í umferðinni á heimsvísu. Í mörgum tilfellum vita ökumenn nákvæmlega hvar hætturnar liggja, t.d. hafa gatna­mót Grens­ás­veg­ar og Miklu­braut­ar verið talin hættulegustu gatnamót höfuðborgarsvæðisins árum saman. Með slíka vitneskju í farteskinu er rétt að spyrja sig hvort verið sé að kalla hlutina réttum nöfnum þegar talað erum slys við slík gatnamót en oft er talað um að slysin geri ekki boð á undan sér. Það á hinsvegar tæpast við um umferðartengd óhöpp í borgum sem áratugum saman hafa ýtt undir aukna bílaumferð þrátt fyrir að bílar og ökumenn þeirra séu einn helsti dánarvaldur í heiminum í dag. 

Tölfræði eða tálsýn?

Í skýringarmyndinni sem fylgir umfjölluninni er slegið fram tölfræði sem rétt er að gera athugasemd við en framsetningin er einkar villandi. Í fyrsta lagi virðast tölurnar sem þarna birtast vera frá þremur mismunandi tímabilum. Í öðru lagi eru tekin fyrir 8 mismunandi gatnamót í Reykjavík en tölfræðin til vinstri á myndinni á augljóslega við um landið allt. Í þriðja lagi er ekki tekið fram hver eðlis og hversu alvarleg meint slys voru eða hver ferðamáti hins slasaða var. Allt skiptir þetta lykilmáli í umræðunni, einkum og sér lagi þegar talað erum mislæg gatnamót en sem dæmi má nefna að ef hluti þessara óhappa olli meiðslum á gangandi og hjólandi vegfarendum þá munu mislæg gatnamót gera lítið annað en auka hættuna fyrir þann hóp á meðan að umferðarhraði myndi aukast með tilheyrandi umhverfisáhrifum. 

Sofandi morðingi 

Að lokum er vitnað í tvo viðmælendur í greininni, annars vegar G. Pétur Matthíasson upplýsingafulltrúa Vegagerðarinnar og Ólaf Kr. Guðmundsson, varaborgarfulltrúa og einn ötulasta talsmann einkabílsins á Íslandi og þótt víðar væri leitað. Í sjálfu kemur fátt fréttnæmt fram í svörum upplýsingafulltrúans annað en að við mislæg gatnamót séu stór og dýr og að Reykjavíkurborg veiti ekki heimild fyrir byggingum slíkra mannvirkja í borgarlandinu. Ólafur talar síðan um að "umferðarmál í Reykjavíkurborg séu í lamasessi" og vitnar í umræðu erlendis þar sem að hans sögn "er talað um að ljósastýrð gatnamót séu í raun sofandi morðingi, því ef eitthvað klikkar þar gerist eitthvað slæmt". 

Nú veit ég ekki hvaða umræðu Ólafur er að vísa í en á þeim fimm árum sem ég nam skipulagsfræði erlendis þá heyrði ég þessari fullyrðingu aldrei fleygt fram, hvorki í ræðu né riti. Að vísu skil ég ekki alveg hver skilgreiningin á sofandi morðingja er, en líklega er það einhver sem fremur morð í svefni. Án frekari útúrsnúninga má draga þá ályktun að það sem að Ólafur á við er að ljósastýrð gatnamót veiti falskt öryggi og séu þannig valdur að alvarlegum umferðaróhöppum. Þetta stangast talsvert á við þær rannsóknir sem gerðar hafa verið síðustu áratugi en í þeim kemur yfirleitt fram að í yfir 90% tilvika séu það ökumenn og aksturslag þeirra veldur óhöppum í umferðinni en ekki umhverfið eða ökutækin sjálf. Mislæg gatnamót fyrir tugi milljarða eru ekki líklegt til að breyta miklu í þeim efnum. 

Hver er morðinginn?

Ef ætlunin hjá Ólafi var að varpa ljósi á orsakir dauðsfalla í samfélagi dagsins í dag þá eru samgöngumál í sjálfu sér ekki vitlaus umræðugrundvöllur en sá samgöngumáti sem við veljum okkur (eða neyðumst til að velja okkur) getur haft afgerandi áhrif á heilsu okkar og lífslíkur. Staðreyndin er sú að umferðaróhöpp sem leiða til dauða eiga ekki roð í dánarorsakir sem m.a. stafa af kyrrsetu og hreyfingarleysi. Eðli máls samkvæmt verða ekki öll dauðs­föll eða örorka rakin til einstakra áhættu­þátta en samkvæmt alþjóðaheilbrigðisstofuninni eru stærstu áhættuþættir heilsubrests í hinum vestræna heimi mataræði, ofþyngd, reykingar, háþrýstingur, starfstengd áhætta, hreyfingarleysi, há blóðfita, hár blóðsykur og áfengisneysla, í þessari röð. Rannsóknir sýna jafnframt að 10-15 mínútna göngutúr á dag dregur stórlega úr þessum áhættuþáttum, en það er einmitt tíminn sem það tekur fyrir flesta að ganga til og frá strætóbiðstöðvum á höfuðborgarsvæðinu. Þá er ótalin heilsufarslegur ávinningur af hjólreiðum, jafnvel þótt einunngis sé um að ræða nokkrar mínútur á dag. 

Bílaborgir drepa

Besta leiðin til fækka ótímabærum dauðsföllum í nútímasamfélagi og spara milljarða í útgjöldum til heilbrigðismála er að segja kyrrsetunni stríð á hendur og gefa fólki kost á að hreyfa sig í daglegu amstri. Öflugri almenningssamgöngur leika lykilhlutverk í þeim efnum og það eitt að gefa fleirum kostum á ganga í og úr strætó á leið til og frá vinnu mun bjarga fleiri mannslífum en nokkur mislæg gatnamót. Eftir áratuga óráðssíu eru ríki og borg blessunarlega á réttri leið í samgöngumálum en betur má ef duga skal. Mikilvægt skref í þeim efnum er að fjölmiðlar fjalli faglega um umferðar- og skipulagsmál og forðist villandi fréttaflutning og fyrirsagnir.  

 

Hekla víkur fyrir heimilum

Á fundi borgarráðs í gær var lagt fram bréf skrifstofu eigna og atvinnuþróunar vegna viljayfirlýsingar milli Reykjavíkurborgar og Heklu hf. um uppbyggingar á lóðum ásamt drögum að viljayfirlýsingu, en vonir standa til að Hekla flytji starfsemi sína á á 24 þúsund fermetra lóð í Syðri-Mjódd. Þetta eru jákvæðar fréttir fyrir borgarbúa en við þennan flutning losnar um mikilvægan þéttingarreit sem er staðsettur við þróunarás núgildandi aðalskipulags. Þó svo að byggingarmagn liggi ekki fyrir að svo stöddu er ljóst að reiturinn ætti að rúma 100 íbúðir hið minnsta án þess að hafa íþyngjandi áhrif á aðliggjandi byggð. 

Uppbygging á Heklureitnum svokallaða fangar að mörgu leyti hugtakið margumtalaða þétting byggðar vel en í því felst endurnýjun borgarinnar, þ.e. að byggja upp úr sér gengin og vannýtt svæði innan núverandi byggðar og bæta þar með borgarum­hverfið.

Að því sögðu má ætla að flutningurinn mæti einhverjum mótbárum meðal íbúa Breiðholts og eflaust munu forsvarsmenn ÍR leggjast gegn því að umræddri lóð í Mjóddinni verði úthlutað undir atvinnustarfsemi af þessu tagi á þeim forsendum að verið sé að þrengja að starfsemi íþróttafélagsins. Á teikningunni sem sjá má hér að neðan er hinsvegar ljóst að um er að ræða svæði sem liggur nær alveg upp við Reykjanesbrautina með tilheyrandi ónæði og svifryksmengun sem varla fer vel saman við íþróttaiðkun. Slík skilyrði ættu hinsvegar að hafa lítil áhrif á starfsemi Heklu sem mun án nokkurs vafa sóma sér vel á þessum nýja stað við fjölfarna stofnbraut.

Að svo stöddu er ekki annað sjá en að hér sé um góða skipulagsákvörðun að ræða og vonandi mun áframhaldandi þróunarvinna milli borgarinnar og lóðarhafa ganga hratt og örugglega fyrir sig. 

Fallegasta bílastæði borgarinnar?

Nú er ég enginn sérstakur áhugamaður um bílastæði nema þá helst ef umræðan snýst um aukna gjaldskyldu eða fækkun þeirra í borgarlandinu. Langflest bílastæði eru hálfgert eyland sem fæstir veita athygli enda ekki margt sem gleður augað. Það er hinsvegar ekki tilfellið á lóð Háskóla Íslands við Dunhaga í Reykjavík. 

Sjálfur hafði ég aldrei tekið eftir einstaklega vel snyrtum trjánum sem umkringja bílastæðið þar til mér var bent á þennan hálfgerða lystigarð af áhugakonu um trjárækt og garðyrkju sem er sérlega hrifin af metnaðinum sem þarna má finna. Sá aðili sem hefur veg og vanda af þessu framtaki á sannarlega hrós skilið en þarna liggur augljóslega margra ára vinna að baki.

Á leið minni um svæðið í gær tók ég nokkrar myndir sem tala sínu máli:

Uppfærsla:

Glöggur lesandi hefur nú bent á í athugasemd hér að neðan á að Páll Melsted, garðyrkjustjóri Háskóla Íslands á heiðurinn af þessari fallegu lóð en þann titil hefur hann borið síðan árið 1980. Árið 2011 fékk lóðin sérstaka fegrunarviðurkenningu Reykjavíkurborgar fyrir „aðlaðandi umhverfi og fallega mótuð tré á bílastæði þar sem fallega snyrtar aspir og sígræn tré gefa umhverfinu skemmtilegt yfirbragð,“ eins og segir í rökstuðningi dómnefndar. Vel gert Páll! 


Þróun húsa í Reykjavík - Háteigsvegur 3

Það getur verið gaman að rýna í þróun húsa í Reykjavík, einkum með tilliti til þéttingu byggðar og umræðu um uppbyggingaraðila sem oft eru sakaðir um að spá meira í fermetrafjölda en hönnun húsa. Háteigsvegur 3 er eitt þeirra húsa sem hefur tekið miklum breytingum á síðustu árum og inn á teikningavef Reykjavíkurborgar er hægt að rekja hönnunarsögu hússins upp að vissu marki.

Hér má sjá uppdrátt af suðurhlið hússins eins sem var samþykktur árið 1976. Þarna má sjá stóra glugga á jarðhæð sem þykja mjög eftirsóttir í dag og raunar er gerð krafa um götuhliðar á borð við þessa á mörgum svæðum í núgildandi Aðalskipulagi Reykjavíkur.

Árið 2005 virðist hafa verið lögð fram breytingartillaga á húsinu sem var synjað. Ég þekki ekki hvaða ástæður lágu þar að baki en líklega hefur hækkunin ekki samræmst þágildandi deiliskipulagi en eins og sjá má á uppdrættinum þá fær gluggasetningin á jarðhæðinni að halda sér en efri hæðum er breytt í íbúðir. 

Árið 2007 er síðan núverandi útlit hússins samþykkt í kjölfar deiliskipulagsbreytingar þar sem hluti þaksins er hækkaður enn frekar frá 2005 tillögunni og umrædd gluggasetning er á bak og burt. 

Að lokum má sjá mynd af húsinu eins og það lítur út í dag en því hefur verið breytt í íbúðarhús með 13 íbúðum. 

Fleiri hús en færri krana?

Nú heyrast víða þær raddir að mikið góðæri ríki í samfélaginu og ástandið minni á árin 2007 og 2008. Máli sínu til stuðnings vísar fólk til fjölda krana á höfuðborgarsvæðinu og margir fussa og sveia yfir hækkandi kranavísitölu.

Þessi umræða er óneitanlega svolítið sérstök því að á sama tíma á sér stað mikil umræða um stöðuna á húsnæðismarkaðnum og nauðsyn þess að byggja fleiri íbúðir eins fljótt og kostur er. Greiningaraðilar eru allir á sama máli um að gríðarleg uppsöfnuð þörf sé á húsnæðismarkaðnum og að henni verði ekki mætt nema byggja tugi þúsunda íbúða á næstu árum á höfuðborgarsvæðinu. Þetta var sannarlega ekki tilfellið árin 2007 og 2008 en þá verið að byggja íbúðir langt umfram eftirspurn.

Eftir efnahagshrunið er að sjálfsögðu eðlilegt að fólk setji spurningarmerki við fjölda byggingarkrana í höfuðborginni enda getur bólumyndun á fasteignamarkaði haft alvarlegar afleiðingar eins og allt of margir Íslendingar hafa reynt á eigin skinni. Það verður hinsvegar ekki bæði haldið og sleppt og eins og staðan er í dag þá er án efa ástæða til að fagna fjölgun krananna eftir langt og erfitt samdráttarskeið í byggingariðnaði. Við byggjum ekki hús án krana.

*Myndin fyrir ofan færsluna var fengin að láni hjá Vísi

Hugleiðingar um Hafnartorg

Skipulag Hafnartorgs hefur verið mikið til umræðu síðustu vikur eftir að Landstólpi kynnti hugmyndir um útilit húsanna sem unnar voru af PK arkitektum. Raunar er skipulagið sjálft nokkurn veginn óumdeilt en hið sama er ekki hægt að segja um útlit bygginganna. Þetta er umræða sem hefur verið rakin víða annars staðar og er óþarfi að fara nánar út í hér. Allt saman hið eðlilegasta og besta mál. 

Það sem vekur hinsvegar upp ófáar spurningar eru nýjustu fréttir af málinu en nú virðist vera sem forsætisráðuneytið eigi að fá að koma að hönnun bygginganna umdeildur gegn því að ríkið leigi af Landstólpa allt skrifstofuhúsnæði á svæðinu, alls um 6-7.000 fermetrar. Þetta verður að teljast áhugavert í ljósi þess að mikil eftirspurn hefur verið eftir því að hönnun svæðisins verði tekin upp með faglegum hætti, t.d. með því að boðað verði til nýrrar samkeppni og að ferlið verði opið og gagnsætt. Ég leyfi mér að kasta fram nokkrum hugleiðingum varðandi málið sem koma upp í hugann í fljótu bragði:

  • Hvaða arkitektar munu koma að endurhönnun húsanna og í gegnum hvaða ferli verða þeir ráðnir?
  • Er frestur til 12. febrúar 2016 (3 vikur) raunhæfur tímarammi til að vinna jafn umfangsmikla hönnunarvinnu og byggingarheimildir gera ráð fyrir? Þurfa hinu nýju arkitektar að vinna hönnunarvinnuna frá grunni eða fá þeir aðgang að þeim gögnum sem nú þegar er búið að vinna?
  • Hvað mun slík hönnunarvinna kosta og hver á að greiða fyrir hana?
  • Samræmast þessi vinnubrögð 4. grein siðareglna arkitektafélagsins?
  • Er æskilegt að einsleit starfsemi á vegum hins opinbera taki á leigu allt skrifstofurými Hafnartorgs? Hvaða áhrif mun það hafa á annan rekstur á svæðinu, t.d. hvaða kaffihús og verslanir kjósa að hefja rekstur í slíku umhverfi og hvaða íbúar kjósa að búa á svæðinu?
  • Hver er fjárhagslegur ávinningur Landstólpa af inngripum forsætisráðherra á svæðinu? Hvers virði er langtímaleigusamningur við ríkið á leigu á 7.000 fm skrifstofuhúsnæði á dýrasta fasteignasvæði landsins án útboðs?

Að lokum er rétt að leiða hugann að því hvernig landslagið í uppbyggingarmálum borgarinnar er að breytast í tíð núverandi ríkisstjórnar. Standa uppbyggingarverkefni (sem hafa farið í gegnum löglega skipulagsferla) og falla nú með skoðunum ráðamanna hverju sinni og við hverju mega mega fjárfestar og uppbyggingaraðilar búast á næstu árum? 

Mun óvissuástand um hvort að framkvæmdir geti hafist ríkja alveg þar til að steypan byrjar að flæða? Er þessi breytti veruleiki til þess fallinn að flýta fyrir lausnum á húsnæðisvanda borgarinnar eða draga úr nauðsynlegri uppbyggingu? 

Þetta eru allt hlutir sem þarf að ræða í víðu samhengi til að hægt sé að meta kosti og galla hins breytta landslags. 


Hræðsla eða hugrekki?

Eftir að greint var frá því að Teikni­stof­an Gláma-Kím varð hlut­skörp­ust í sam­keppni Íslands­hót­ela og Minja­vernd­ar vegna nýs hót­els í Lækj­ar­götu í Reykja­vík hefur tölvugerða myndin af sigurtillögunni verið notuð í stórfurðulegu áróðurskyni gegn arkitektastéttinni á Íslandi. Forsætisráðherra fer þar fremstur í flokki og ýmsir aðrir sjálfskipaðir sérfræðingar í skipulags- og uppbyggingarmálum borgarinnar taka undir. Skilaboðin eru ætíð sett fram í einhverskonar heimsósómamynd, þ.e. að arkitektar samtímans séu vanhæfir, skorti allt fegurðarskyn og að módernismi í hvaða mynd sem er sé hættulegur samfélaginu. Ákveðnir fagaðilar eru einnig á þessari línu og sem dæmi má nefna nýútgefna sjálfsævisögu Trausta Valssonar skipulagsfræðings og prófessors við Háskóla Íslands þar sem höfundur eyðir um stórum hluta bókarinnar í að finna módernismanum allt til foráttu í bókinni Mótun framtíðar en réttnefni yfir bókina væri frekar Meinsemdir módernismans. Umrædd mynd birtist einmitt í bókinni með myndatextanum „Slæm tíðindi hér!“, án frekari röksemdarfærslna frá fræðimanninum.

"Faglegur" ferill Lækjargötu 12

Það sem fylgir hinsvegar sjaldan umræðunni um hótelið á Lækjargötu 12 er að tillögurnar sem þar komu fram eru afrakstur meingallaðrar, lokaðrar, málamynda-samkeppni þar sem tími til að skila inn tillögum var naumur, dómnefndin var eingöngu skipuð fulltrúum eigenda, dómarar voru allir karlmenn á svipuðu reiki og enginn þeirra með fagþekkingu á sviði arkitektúrs eða skipulags. 

Dómnefndinni til varnar réði hún sér arkitekt sem veita átti faglega aðstoð en hann starfaði jafnframt sem ritari dómnefndarinnar. Til viðbótar við arkitektinn var verkfræðingur ráðinn trúnaðar- og umsjónarmaður samkeppninnar en hann var jafnframt verkefnisstjóri. Loks má gera ráð fyrir að eigendur hafi notið ráðgjafar borgarinnar við gerð samkeppnislýsingarinnar en í henni voru þrátt fyrir allt sett fram ýmis góð og gild markmið, meðal annars að:

  • Að ná fram góðri skipulagslausn fyrir samkeppnissvæðið í takt við miðborgina og nærumhverfið með áherslu á umhverfisleg- og samfélagsleg gæði hins manngerða umhverfis. 
  • Að útlit hótelsins taki mið af stíl bygginganna í kring.
  • Æskilegt sé að þakgerð og gluggasetning hótels verði í svipuðum stíl og húsa í nágrenninu. 

Á sama tíma er hinsvegar tekið fram að leyfileg brúttóstærð hótelsins í Lækjargötu 12 samkvæmt núgildandi deiliskipulagi allt að 7.341 fm., að áætluð rýmisþörf hótelsins sé frá 5.100 fm. að 5.400 fm. nettó sem er áætlað 7.250 fm. til 7.700 fm. brúttó eftir herbergjafjölda og skipulagi. Loks er sérstaklega tekið fram að hönnuðir skuli stefna að „heildarflatarmáli sem er sem næst samþykktu flatarmáli í deiliskipulagi eða 7.341 fm.“ Með öðrum orðum þá eiga hönnuðirnir að stefna að því að ná fram góðri skipulagslausn á reitnum en á sama tíma er þeim gert skylt að kreista út eins mikið byggingarmagn á reitnum og kostur er. Þetta má hæglega túlka sem þversögn í samkeppnislýsingunni þar sem faglegar forsendur eru látnar víkja fyrir skilyrtu byggingarmagni. Til að gæta sanngirni er þó rétt að taka fram að byggingarmagn vinningstillögunnar var örlítið minna en gildandi deiliskipulag heimilar.

Í umræddri samkeppnislýsingunni er af nægu öðru að taka en hún einkennist af því að faglegum fyrirheitum er komið fyrir inn á milli mjög skýrra krafna um hótel af ákveðinni stærð og tegund og jafnvel þó að tillögurnar stæðust fagleg markmið samkeppninnar þá hafði dómnefndin engar faglegar forsendur til að meta gæði tillagnanna. Niðurstaða keppninnar var því alltaf fyrirfram gefin að stærstum hluta enda búið að leggja línurnar löngu áður en útvaldar arkitektastofur fengu örlítið tækifæri á að gera það besta úr vonlausum aðstæðum á örstuttum tíma fyrir sáralítil laun.  

Sagan endurtekur sig

Það merkilega við þetta allt saman er síðan að afsprengi þessa meingallaða hönnunarferils hefur upp á síðkastið verið notað til að verja og réttlæta hugmyndir um enn gallaðri hönnunarferil hugsanlegrar nýbyggingar við Alþingisreitinn. Í þetta skiptið er hinsvegar seilst enn lengra en á Lækjargötu þar sem Alþingi samþykkti fyrir jól tillögu forsætisráðherra um 75 milljóna króna framlag í hönnun á byggingu í stíl Guðjóns og forsætisráðherrann sjálfur er búinn að senda út jólakort með tölvugerðri mynd af hugsanlegri byggingu í áróðursskyni. Hönnunar- og skipulagsferillinn er því fyrirfram ákveðinn frá upphafi til enda og ljóst er að þeir sem telja að afraksturinn af þó mun faglegra ferli við Lækjargötu 12 hafi verið slæmur geta rétt ímyndað sér hver útkoman verður á Alþingisreitnum. 

Vönduð vinnubrögð taka tíma og kosta peninga

Líkt og Arkitektafélag Íslands hefur áður komið inn á með mjög afgerandi áskorun til stjórnvalda þá er „þverfaglegt samstarf lykill að árangri þegar skapa á betra umhverfi fyrir samfélagið allt“. Besta leiðin til að hefja slíkt samtal er að leyfa lifandi fólki að sinna mannvirkjagerð í hinu byggða umhvefi. Þessu lifandi fólki þarf síðan að veita svigrúm til að vinna vinnuna sína með faglegum hætti og það tekur tíma og kostar peninga. Áður en útlit húsa er ákveðið er t.d. ágætt að leiða hugann að því að hvort að það sé þörf fyrir húsið yfir höfuð. Persónulega hef ég ekki séð nýlega þarfagreiningu á starfsemi Alþingis og leyfi mér að efast um að hinir rúmlega 100 starfsmenn skrifstofu Alþingis eða kjörnir fulltrúar framtíðarinnar hafi mikla þörf fyrir stórar einkaskrifstofur í hjarta miðbæjarins alveg óháð því hvort að hönnuður hússins var lífs eða látinn. Þeir þingmenn og konur sem ég þekki og umgengst mikið eyða í það minnsta sáralitlum tíma á plássfrekum skrifstofum sínum við Austurvöll enda vel tækjum búnir til að sinna sínum störfum þar sem þeim þykir þægilegast hverju sinni. Þarfagreining á vinnuaðstöðu þingmanna- og kvenna væri mun eðlilegra upphaf á hönnunarferli hugsanlegs húss heldur en heimsókn á Þjóðskjalasafnið.  

Hræðsla eða hugrekki?

Þegar gerræðislegar tillögur Sigmyndar Davíðs um að reisa mörg hundruð milljóna króna minnisvarða um Guðjón Samúelsson á Alþingisreitnum (steinsnar frá fimmhundruð milljóna króna bílakjallara-minnisvarðanum við Austurhöfn ) voru bornar undir fyrrnefndan Trausta Valsson arkitekt og skipulagsfræðing sagði hann forsætisráðherrann sýna hugrekki með framgöngu sinni. Hvar téð hugrekki er nákvæmlega að finna er erfitt að segja en fortíðarþrá Sigmundar einkennist augljóslega af hræðslu en ekki hugrekki. Ég leyfi mér að vitna í Andra Snæ um lausnina við vanda Sigmundar sem stjórnast fyrst og fremst af ótta við það sem hann þekkir ekki og skilur ekki: 

Lausnin er ekki afturhvarf til fortíðar, lausnin felst í því að sýna metnað og leyfa okkar besta fólki að gera sitt besta.“

Útópísk einstefna eða raunhæf samgöngustefna?

Ég rak augun í áhugaverða grein á Vísi í dag sem ég má til með að leiðrétta í stuttu máli. Greinin ber heitið Útópísk einstefna og er eftir íbúa í Hlíðunum í Reykjavík. Greinin er áhugaverð fyrir þær sakir að höfundur fellur í nær allar þær gryfjur sem hægt er að falla í, í umræðu um samgöngustefnur og skipulagsmál.

Uppleggið í greininni er borgaryfirvöld séu að skerða lífsgæði borgarbúa með því að þrengja að einkabílnum:

Þrengt er að bílaumferð í Reykjavík með markvissum hætti. Þessar breytingar læðast að okkur í litlum skrefum en eru smám saman að skerða lífsgæði okkar. Hversu margar mínútur hafa bæst við daglegar bílferðir þínar undanfarinn áratug? Hversu mikið kostar það þig í töpuðum vinnustundum eða frítíma?“  

Þarna leiðir höfundur að því líkur að umferðartafir til komnar vegna skorts á innviðum fyrir bílaumferð en ekki vegna þess að það er of mikil umferð í borginni. Hann heldur áfram síðar í greininni og kvartar undan skorti á fjárfestingum:

„Lítið hefur verið fjárfest á undanförnum árum í að auðvelda bílaumferð í borginni s.s. með mislægum gatnamótum, stokkum, viðgerðum eða nýjum akreinum (nema fyrir Strætó). Þess í stað eru götur þrengdar og hægt á umferð svo hún stíflast á sífellt fleiri stöðum.“

Jafnframt varpar hann fram spurningu og fullyrðingu sem mér er bæði ljúft og skylt að svar og leiðrétta.

„Borgin hefur unnið gott starf í að bæta suma samgöngukosti s.s. með göngu- og hjólastígum. Spurning mín er hvort endilega þurfi að gera aðra kosti verri á sama tíma? Vísað er í hjólamenningu ýmissa borga en engin þeirra er staðsett á sama breiddarbaug og Reykjavík. Eins umhverfisvænt og rómantískt sem það hljómar að fleiri hjóli og nýti almenningssamgöngur þá eru veðurfar, skammdegið og tíðni almenningssamgangna hérlendis engan veginn samanburðarhæf við þær borgir sem miðað er við.“

Aðförin gegn einkabílnum

Stutta svarið við spurningu greinarhöfundar um hvort bættar hjólreiða- og almenningssamgöngur þurfi ávallt að vera á kostnað einkabílsins er nei. Eftir því sem fleiri taka strætó eða sjá sér fært að hjóla eða ganga þá gefur augaleið (í afar einfaldaðri myndi) að færri aka um á eigin bíl sem augljóslega liðkar til í umferðinni fyrir þá sem kjósa eða þurfa að aka eigin bíl. Þ.e. árangursríkasta leiðin til að bæta umferðarflæði (eða í það minnsta tryggja að það versni ekki enn frekar) er að gefa sem flestum færi á að nýta sér aðra samgöngukosti heldur en einkabílinn. Staðreyndin er nefnilega sú að eftir því sem akreinum er fjölgað og fleiri mislæg gatnamót eru byggð þá eykst bílaumferð og umferðartafir margfaldast. Hugmyndafræðin sem höfundur nefnir er álíka skynsamleg og fyrir offitusjúkling að fjölga götunum á beltinu sínu í stað þess að leita sér hjálpar og ráðast að rót vandans. Nánari upplýsingar og afgerandi rök um nauðsyn núverandi samöngustefnu Reykjavíkurborgar og höfuðborgarsvæðisins má lesa í stórgóðri skýrslu sem samtök sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu gáfu nýverið út. Árangurinn af þeirri stefnu sem greinarhöfundur talar fyrir og var við lýði áratugum saman í Reykjavík er nefnilega eftirfarandi:

Engar borgir á sömu breiddargráðu og Reykjavík?

Varðandi þá fullyrðingu að þær borgir sem skipulagsyfirvöld bera sig saman við séu ekki samanburðarhæfar þá talar taflan hér að neðan sínu máli og rétt að er að benda á að þau markmið sem borgaryfirvöld hafa stefnt á að ná árið 2030 eru sambærileg stöðu mála í nokkurn veginn sambærilegum nágrannaborgum okkar í dag.

Vilja borgarbúar meiri umferð?

Í niðurlagi greinarinnar fullyrðir höfundur að að borgarbúar vilji greiðari umferð og styttri ferðatíma:

„Borgarbúar vilja greiðari umferð og styttri ferðatíma. Með því að stífla enn frekar helstu samgönguæðar borgarinnar eins og Miklubraut og Sæbraut er enn eitt skrefið tekið í átt að þeirri draumsýn að bílinn gegni afar takmörkuðu hlutverki í samgöngum borgarbúa. Afleiðingar þess eru lengri ferðatími og skert lífsgæði.“

Það væri sannarlega áhugavert ef einhver rök væru færð fyrir þessum fullyrðingum en þær eru því miður á skjön við helstu óskir borgarbúa og ferðavenjur. Staðreyndin er sú að borgarbúar vilja minni bílaum­ferð og betri innviði fyr­ir hjól­reiðar og gang­andi og betri al­menn­ings­sam­göng­ur og í nýlegri búsetukönnun fundu þátttakendur borginni því helst til forráttu að bílaumferð væri of mikil og almenningssgöngur slakar.

Hinn þögli meirihluti

Að lokum spyr greinarhöfundur „Hversu mikið þurfa bílasamgöngur að versna svo hinn þögli meirihluti taki í stýrið?“ Eins og fram hefur komið er svarið við þessari spurningu skýrt en augljóst er að draga þarf talsvert mikið úr bílaumferð að meirihluti kjósenda sé sáttur en hann vill sannarlega minni bílaumferð í borginni. Staðreyndin er sú að þeir flokkar sem höfðu það á stefnuskránni að breyta nýsamþykktu aðalskipulagi borgarinnar í takt við óskir greinarhöfundar hlutu ekki brautargengi í síðustu kosningum og það er fátt sem bendir til þess að sé að breytast. Áherslur borgarinnar í skipulagsmálum eru svipaðar áherslum nær allra annarra borga í heiminum og því í besta falli ábyrgðarleysi að um sé að ræða einhversskonar „útópíska einstefnu“. Ef eitthvað er þá erum við ekki að fylgja öðrum borgum nægilega vel eftir samanber nýjustu fréttir frá Osló...

Google geymir svarið

Ný og glæsileg hjólreiðaáætlun Reykjavíkurborgar var til umræðu í borgarstjórn í gær og af því tilefni ákvað annar fulltrúi Framsóknar og flugvallarvina að stíga í pontu og tjá þá skoðun sína að borgin hefði ekki efni á að framfylgja áætluninni. Þetta er þekkt stef úr röðum stjórnmálafólks sem af einhverjum ástæðum hefur ekki kynnt sér þá gríðarlegu hagræðingu sem hlýst af fjárfestingum í hjóla- og göngustígum, einkum og sér í lagi samanborið við núverandi samgöngukerfi. Í þetta skiptið var það þó ekki þessi rökvilla og þversögn sem var alvarlegust í máli borgarfulltrúans heldur eftirfarandi ummæli (skv. frétt mbl): 

Sagðist Svein­björg mjög hlynnt því að fólk hjóli en ekki væri alltaf hægt að treysta á að rokið feyki meng­un­inni í burtu og því fylgi lífs­stíln­um tölu­verð áhætta vegna meng­un­ar.“

Hér er einnig um að ræða þekktan hræðsluáróður gegn hjólreiðum sem rannsóknir hafa ítrekað sýnt að er ekki á rökum reistur. Borgarfulltrúum og öðrum til málsbóta er rétt að halda til haga að aðgangur að fræðigreinum og rannsóknum er ekki alltaf ódýr eða auðfenginn en þegar það kemur að hjólreiðum er það yfirleitt ekki tilfellið. Í þessu tilfelli hefði verið einfalt fyrir Sveinbjörgu að slá inn eftirfarandi leitarorð: Do the health benefits of cycling outweigh the risks? Ef hún hefði gert það þá hefði þessi rannsókn að öllum líkindum komið upp í leitarniðurstöðum en það vill svo heppilega til að hún er opin öllum, höfundar hennar eru virtir fræðimenn og niðurstöðurnar eru mjög afgerandi. 

Þegar það kemur að hjólreiðum í borgum þá er heilsufarslegur ávinningur af auknum hjólreiðum mun meiri en hugsanleg heilsufarsleg áhætta sem þeim fylgir

Raunar er það svo að þeir sem hjóla í stað þess að keyra lengja líftíma sinn um 3-14 mánuði á meðan meint áhætta af völdum mengunar er einungis talin stytta líftíma hjólreiðamannins um 0.8-40 daga og möguleg slysahætta um 5-9 daga. (e. "For individuals who shift from car to bicycle, we estimated that beneficial effects of increased physical activity are substantially larger (3–14 months gained) than the potential mortality effect of increased inhaled air pollution doses (0.8–40 days lost) and the increase in traffic accidents (5–9 days lost)". 

Þegar áhrifin á samfélagið í heild er síðan tekin með í reikninginn þá er ljóst að áviningurinn af auknum hjólreiðum í borginni er augljós, eða eins og segir í niðurlagi umræddrar fræðigreinar:

"On average, the estimated health benefits of cycling were substantially larger than the risks of cycling relative to car driving. For the society as a whole, this can be even larger because there will be a reduction in air pollution emissions and eventually fewer traffic accidents. Policies stimulating cycling are likely to have net beneficial effects on public health, especially if accompanied by suitable transport planning and safety measures."

Ormar á gulli

Núverandi ríkisstjórn hefur verið nokkuð áberandi í umræðu um skipulagsmál í Reykjavík á yfirstandandi kjörtímabili. Það er að mörgu leyti eðlilegt, einkum í tilfellum húsnæðis- og félagsmálaráðherra sem eðli málsins samkvæmt fer með stjórnarmálefni er tengjast húsnæðismálum og hið sama gildir um innanríkisráðherra sem fer m.a. með vega- og flugmál. Í tilfelli forsætisráðherra virðist hinsvegar eingöngu um einskæran og sérvitringslegan áhuga að ræða, í það minnsta hefur lítið farið fyrir haldbærum rökum í þeim frumvörpum og hugmyndum sem ráðherrann hefur stigið fram með. Það ber auðvitað helst að nefna hið stórfurðulega frumvarp um verndarsvæði í byggð, yfirnáttúrulegar hugmyndir um að veita nýjum kynslóðum arkitekta samtímans einstakt tækifæri til að vinna með Guðjóni Samúelssyni (1887 †1950) og síðast en ekki síst hin sósíalíska tillaga að frumvarpi um breytingu á lögum um menningarminjar nr. 80/2012 en í 10. grein frumvarpsins kemur fram að ráðherrann telji nauðsynlegt að hann hafi (geðþótta)heimild til eignarnáms á löndum, mannvirkjum og réttindum án þess að neinn frekari rökstuðningur sé færður fyrir því.  

Á meðan forsætisráðherra keppist við að reyna að gera við eitthvað sem er ekki bilað þá stendur húsnæðis- og félagsmálaráðherra frammi fyrir raunverulegum vandamálum á húsnæðismarkaðnum og það er óhætt að segja að hún hafi sökkt sér í málaflokkinn og leitað fjölmargra leiða til að vinna bug á vandanum, bæði með bloggfærslum þar sem ýmsar hugmyndir eru reifaðar og einnig með húsnæðisfrumvörpunum sem enn eiga eftir að fá afgreiðslu á þingi. 

Í gíslingu ríkisins

Það sem er áhugavert í þessu öllu saman er að á sama tíma og öll þessi umræða á sér stað hjá ríkisvaldinu um húsnæðis- og skipulagsmál þá gæti ríkið hratt og örugglega haft áþreifanleg áhrif á borgarþróun í Reykjavík og raunverulega lagt sitt af mörkum til að skapa lífvænlega og öfluga borg sem styrkir samkeppnisstöðu þjóðarinnar og styður við lausn húsnæðisvandans sem uppi er. Eina sem þarf er vilji og vottur af framtíðarsýn. Tökum þrjú dæmi:  

Alþingisreiturinn: 

Það segir nánast sjálft að ef ráðherrar og aðrir þingmenn ætlast til einhver taki mark á þeim í umræðu um skipulagsmál þá verður að taka Alþingisreitinn í gegn og það án tafar. Nánast allt í tengslum við reitinn er hörmulegt og við hæfi að vitna í orð Brynjars Níelssonar (af öðru tilefni) þegar Alþingi býsnast yfir skipulagsmálum í miðborginni „Gott er að taka til í eigin garði áður en kvartað er yfir rusli í garði nágrannans“.  

Þjóðskjalasafnið:

Annað ágætis dæmi um húsnæði og svæði sem er á ábyrgð ríkisins og hægt væri að nýta í eðlilegri þróun borgarinnar er Þjóðskjalasafnið við Laugaveg 162. Þarna er um að ræða fámennan vinnustað sem skapar lítið sem ekkert líf á svæði sem er í hjarta borgarinnar. Starfsemin er að sjálfsögðu gríðarmikilvæg en að halda fleiri þúsund fermetrum í gíslingu undir skjalageymslur og bílastæði á besta stað í bænum er í beinlínis skaðlegt fyrir borgina. Guðlaugur Þór hitti naglann á höfuðið hvað þetta varðar um daginn þegar hann sagði orðrétt um Þjóðskjalasafnið og Lögreglustöðina við Hverfisgötu: „Ef það eru ekki tæki­færi núna fyr­ir ríkið að taka bæði þessi hús, skipu­leggja þau upp á nýtt og selja þau, þá er það aldrei. Það skipt­ir einnig máli fyr­ir sjálfa miðborg­ina okk­ar, að þess­ar risa­bygg­ing­ar sem nýt­ast illa séu ekki þar". 

Vatnsmýri: 

Þriðja og síðasta dæmið að þessu sinni og jafnframt hið augljósasta er Vatnsmýrin í Reykjavík. Það er ekkert mikilvægara fyrir eðlilega borgarþróun í Reykjavík og þar með samkeppnishæfni þjóðarinnar en að róa öllum árum að uppbygginu 15-20.000 manna byggðar í Vatnsmýri í samræmi við skipulagsáætlanir Reykjavíkur síðustu 20 árin eða svo. Innanríkisráðherra og aðrir þurfa að horfast í augu við staðreyndir, rök og heildarhagsmuni í stað þess að láta afstöðu sína ráðast af óttapólitík, sérhagsmunum og tilfinningarökum. Eina sem ríkið þarf til að finna innanlandsflugi nýjan stað er vilji og þor og heilbrigð skynsemi. 

Toppurinn á ísjakanum

Dæmin hér að ofan er auðvitað bara þrjú dæmi um nær endalaus tækifæri ríkisins til að haga sér með ábyrgum hætti í tengslum við skipulagsmál í Reykjavík. Æðsta yfirvald landsins á að vera til fyrirmyndar hvað varðar skipulagsmál líkt og önnur mál og ekki sitja eins og ormar á gulli og tefja þannig nauðsynlega uppbyggingu borgarinnar.