Fallegasta bílastæði borgarinnar?

Nú er ég enginn sérstakur áhugamaður um bílastæði nema þá helst ef umræðan snýst um aukna gjaldskyldu eða fækkun þeirra í borgarlandinu. Langflest bílastæði eru hálfgert eyland sem fæstir veita athygli enda ekki margt sem gleður augað. Það er hinsvegar ekki tilfellið á lóð Háskóla Íslands við Dunhaga í Reykjavík. 

Sjálfur hafði ég aldrei tekið eftir einstaklega vel snyrtum trjánum sem umkringja bílastæðið þar til mér var bent á þennan hálfgerða lystigarð af áhugakonu um trjárækt og garðyrkju sem er sérlega hrifin af metnaðinum sem þarna má finna. Sá aðili sem hefur veg og vanda af þessu framtaki á sannarlega hrós skilið en þarna liggur augljóslega margra ára vinna að baki.

Á leið minni um svæðið í gær tók ég nokkrar myndir sem tala sínu máli:

Uppfærsla:

Glöggur lesandi hefur nú bent á í athugasemd hér að neðan á að Páll Melsted, garðyrkjustjóri Háskóla Íslands á heiðurinn af þessari fallegu lóð en þann titil hefur hann borið síðan árið 1980. Árið 2011 fékk lóðin sérstaka fegrunarviðurkenningu Reykjavíkurborgar fyrir „aðlaðandi umhverfi og fallega mótuð tré á bílastæði þar sem fallega snyrtar aspir og sígræn tré gefa umhverfinu skemmtilegt yfirbragð,“ eins og segir í rökstuðningi dómnefndar. Vel gert Páll! 


4 responses
Flott. En hver er garðyrkjumaðurinn?
Þegar stórt er spurt Hilmar! Ég hef því miður ekki hugmynd en viðkomandi er augljóslega fagmaður/kona fram í fingurgóma.
Það er gaman að geta þess að Páll Melsted á heiðurinn af þessu bílastæði. Hann tók á móti viðurkenningu frá borgarstjóra fyrir „aðlaðandi umhverfi og fagurlega mótuð tré“ árið 2011.
Takk fyrir þetta Kristín. Hann er sannarlega vel að viðurkenningunni kominn.