Eftir að greint var frá því að Teiknistofan Gláma-Kím varð hlutskörpust í samkeppni Íslandshótela og Minjaverndar vegna nýs hótels í Lækjargötu í Reykjavík hefur tölvugerða myndin af sigurtillögunni verið notuð í stórfurðulegu áróðurskyni gegn arkitektastéttinni á Íslandi. Forsætisráðherra fer þar fremstur í flokki og ýmsir aðrir sjálfskipaðir sérfræðingar í skipulags- og uppbyggingarmálum borgarinnar taka undir. Skilaboðin eru ætíð sett fram í einhverskonar heimsósómamynd, þ.e. að arkitektar samtímans séu vanhæfir, skorti allt fegurðarskyn og að módernismi í hvaða mynd sem er sé hættulegur samfélaginu. Ákveðnir fagaðilar eru einnig á þessari línu og sem dæmi má nefna nýútgefna sjálfsævisögu Trausta Valssonar skipulagsfræðings og prófessors við Háskóla Íslands þar sem höfundur eyðir um stórum hluta bókarinnar í að finna módernismanum allt til foráttu í bókinni Mótun framtíðar en réttnefni yfir bókina væri frekar Meinsemdir módernismans. Umrædd mynd birtist einmitt í bókinni með myndatextanum „Slæm tíðindi hér!“, án frekari röksemdarfærslna frá fræðimanninum.
"Faglegur" ferill Lækjargötu 12
Það sem fylgir hinsvegar sjaldan umræðunni um hótelið á Lækjargötu 12 er að tillögurnar sem þar komu fram eru afrakstur meingallaðrar, lokaðrar, málamynda-samkeppni þar sem tími til að skila inn tillögum var naumur, dómnefndin var eingöngu skipuð fulltrúum eigenda, dómarar voru allir karlmenn á svipuðu reiki og enginn þeirra með fagþekkingu á sviði arkitektúrs eða skipulags.
Dómnefndinni til varnar réði hún sér arkitekt sem veita átti faglega aðstoð en hann starfaði jafnframt sem ritari dómnefndarinnar. Til viðbótar við arkitektinn var verkfræðingur ráðinn trúnaðar- og umsjónarmaður samkeppninnar en hann var jafnframt verkefnisstjóri. Loks má gera ráð fyrir að eigendur hafi notið ráðgjafar borgarinnar við gerð samkeppnislýsingarinnar en í henni voru þrátt fyrir allt sett fram ýmis góð og gild markmið, meðal annars að:
- Að ná fram góðri skipulagslausn fyrir samkeppnissvæðið í takt við miðborgina og nærumhverfið með áherslu á umhverfisleg- og samfélagsleg gæði hins manngerða umhverfis.
- Að útlit hótelsins taki mið af stíl bygginganna í kring.
- Æskilegt sé að þakgerð og gluggasetning hótels verði í svipuðum stíl og húsa í nágrenninu.
Á sama tíma er hinsvegar tekið fram að leyfileg brúttóstærð hótelsins í Lækjargötu 12 samkvæmt núgildandi deiliskipulagi allt að 7.341 fm., að áætluð rýmisþörf hótelsins sé frá 5.100 fm. að 5.400 fm. nettó sem er áætlað 7.250 fm. til 7.700 fm. brúttó eftir herbergjafjölda og skipulagi. Loks er sérstaklega tekið fram að hönnuðir skuli stefna að „heildarflatarmáli sem er sem næst samþykktu flatarmáli í deiliskipulagi eða 7.341 fm.“ Með öðrum orðum þá eiga hönnuðirnir að stefna að því að ná fram góðri skipulagslausn á reitnum en á sama tíma er þeim gert skylt að kreista út eins mikið byggingarmagn á reitnum og kostur er. Þetta má hæglega túlka sem þversögn í samkeppnislýsingunni þar sem faglegar forsendur eru látnar víkja fyrir skilyrtu byggingarmagni. Til að gæta sanngirni er þó rétt að taka fram að byggingarmagn vinningstillögunnar var örlítið minna en gildandi deiliskipulag heimilar.
Í umræddri samkeppnislýsingunni er af nægu öðru að taka en hún einkennist af því að faglegum fyrirheitum er komið fyrir inn á milli mjög skýrra krafna um hótel af ákveðinni stærð og tegund og jafnvel þó að tillögurnar stæðust fagleg markmið samkeppninnar þá hafði dómnefndin engar faglegar forsendur til að meta gæði tillagnanna. Niðurstaða keppninnar var því alltaf fyrirfram gefin að stærstum hluta enda búið að leggja línurnar löngu áður en útvaldar arkitektastofur fengu örlítið tækifæri á að gera það besta úr vonlausum aðstæðum á örstuttum tíma fyrir sáralítil laun.
Sagan endurtekur sig
Það merkilega við þetta allt saman er síðan að afsprengi þessa meingallaða hönnunarferils hefur upp á síðkastið verið notað til að verja og réttlæta hugmyndir um enn gallaðri hönnunarferil hugsanlegrar nýbyggingar við Alþingisreitinn. Í þetta skiptið er hinsvegar seilst enn lengra en á Lækjargötu þar sem Alþingi samþykkti fyrir jól tillögu forsætisráðherra um 75 milljóna króna framlag í hönnun á byggingu í stíl Guðjóns og forsætisráðherrann sjálfur er búinn að senda út jólakort með tölvugerðri mynd af hugsanlegri byggingu í áróðursskyni. Hönnunar- og skipulagsferillinn er því fyrirfram ákveðinn frá upphafi til enda og ljóst er að þeir sem telja að afraksturinn af þó mun faglegra ferli við Lækjargötu 12 hafi verið slæmur geta rétt ímyndað sér hver útkoman verður á Alþingisreitnum.
Vönduð vinnubrögð taka tíma og kosta peninga
Líkt og Arkitektafélag Íslands hefur áður komið inn á með mjög afgerandi áskorun til stjórnvalda þá er „þverfaglegt samstarf lykill að árangri þegar skapa á betra umhverfi fyrir samfélagið allt“. Besta leiðin til að hefja slíkt samtal er að leyfa lifandi fólki að sinna mannvirkjagerð í hinu byggða umhvefi. Þessu lifandi fólki þarf síðan að veita svigrúm til að vinna vinnuna sína með faglegum hætti og það tekur tíma og kostar peninga. Áður en útlit húsa er ákveðið er t.d. ágætt að leiða hugann að því að hvort að það sé þörf fyrir húsið yfir höfuð. Persónulega hef ég ekki séð nýlega þarfagreiningu á starfsemi Alþingis og leyfi mér að efast um að hinir rúmlega 100 starfsmenn skrifstofu Alþingis eða kjörnir fulltrúar framtíðarinnar hafi mikla þörf fyrir stórar einkaskrifstofur í hjarta miðbæjarins alveg óháð því hvort að hönnuður hússins var lífs eða látinn. Þeir þingmenn og konur sem ég þekki og umgengst mikið eyða í það minnsta sáralitlum tíma á plássfrekum skrifstofum sínum við Austurvöll enda vel tækjum búnir til að sinna sínum störfum þar sem þeim þykir þægilegast hverju sinni. Þarfagreining á vinnuaðstöðu þingmanna- og kvenna væri mun eðlilegra upphaf á hönnunarferli hugsanlegs húss heldur en heimsókn á Þjóðskjalasafnið.
Hræðsla eða hugrekki?
Þegar gerræðislegar tillögur Sigmyndar Davíðs um að reisa mörg hundruð milljóna króna minnisvarða um Guðjón Samúelsson á Alþingisreitnum (steinsnar frá fimmhundruð milljóna króna bílakjallara-minnisvarðanum við Austurhöfn ) voru bornar undir fyrrnefndan Trausta Valsson arkitekt og skipulagsfræðing sagði hann forsætisráðherrann sýna hugrekki með framgöngu sinni. Hvar téð hugrekki er nákvæmlega að finna er erfitt að segja en fortíðarþrá Sigmundar einkennist augljóslega af hræðslu en ekki hugrekki. Ég leyfi mér að vitna í Andra Snæ um lausnina við vanda Sigmundar sem stjórnast fyrst og fremst af ótta við það sem hann þekkir ekki og skilur ekki:
„Lausnin er ekki afturhvarf til fortíðar, lausnin felst í því að sýna metnað og leyfa okkar besta fólki að gera sitt besta.“