Ný og glæsileg hjólreiðaáætlun Reykjavíkurborgar var til umræðu í borgarstjórn í gær og af því tilefni ákvað annar fulltrúi Framsóknar og flugvallarvina að stíga í pontu og tjá þá skoðun sína að borgin hefði ekki efni á að framfylgja áætluninni. Þetta er þekkt stef úr röðum stjórnmálafólks sem af einhverjum ástæðum hefur ekki kynnt sér þá gríðarlegu hagræðingu sem hlýst af fjárfestingum í hjóla- og göngustígum, einkum og sér í lagi samanborið við núverandi samgöngukerfi. Í þetta skiptið var það þó ekki þessi rökvilla og þversögn sem var alvarlegust í máli borgarfulltrúans heldur eftirfarandi ummæli (skv. frétt mbl):
„Sagðist Sveinbjörg mjög hlynnt því að fólk hjóli en ekki væri alltaf hægt að treysta á að rokið feyki menguninni í burtu og því fylgi lífsstílnum töluverð áhætta vegna mengunar.“
Hér er einnig um að ræða þekktan hræðsluáróður gegn hjólreiðum sem rannsóknir hafa ítrekað sýnt að er ekki á rökum reistur. Borgarfulltrúum og öðrum til málsbóta er rétt að halda til haga að aðgangur að fræðigreinum og rannsóknum er ekki alltaf ódýr eða auðfenginn en þegar það kemur að hjólreiðum er það yfirleitt ekki tilfellið. Í þessu tilfelli hefði verið einfalt fyrir Sveinbjörgu að slá inn eftirfarandi leitarorð: Do the health benefits of cycling outweigh the risks? Ef hún hefði gert það þá hefði þessi rannsókn að öllum líkindum komið upp í leitarniðurstöðum en það vill svo heppilega til að hún er opin öllum, höfundar hennar eru virtir fræðimenn og niðurstöðurnar eru mjög afgerandi.
Þegar það kemur að hjólreiðum í borgum þá er heilsufarslegur ávinningur af auknum hjólreiðum mun meiri en hugsanleg heilsufarsleg áhætta sem þeim fylgir.
Raunar er það svo að þeir sem hjóla í stað þess að keyra lengja líftíma sinn um 3-14 mánuði á meðan meint áhætta af völdum mengunar er einungis talin stytta líftíma hjólreiðamannins um 0.8-40 daga og möguleg slysahætta um 5-9 daga. (e. "For individuals who shift from car to bicycle, we estimated that beneficial effects of increased physical activity are substantially larger (3–14 months gained) than the potential mortality effect of increased inhaled air pollution doses (0.8–40 days lost) and the increase in traffic accidents (5–9 days lost)".
Þegar áhrifin á samfélagið í heild er síðan tekin með í reikninginn þá er ljóst að áviningurinn af auknum hjólreiðum í borginni er augljós, eða eins og segir í niðurlagi umræddrar fræðigreinar:
"On average, the estimated health benefits of cycling were substantially larger than the risks of cycling relative to car driving. For the society as a whole, this can be even larger because there will be a reduction in air pollution emissions and eventually fewer traffic accidents. Policies stimulating cycling are likely to have net beneficial effects on public health, especially if accompanied by suitable transport planning and safety measures."