Ormar á gulli

Núverandi ríkisstjórn hefur verið nokkuð áberandi í umræðu um skipulagsmál í Reykjavík á yfirstandandi kjörtímabili. Það er að mörgu leyti eðlilegt, einkum í tilfellum húsnæðis- og félagsmálaráðherra sem eðli málsins samkvæmt fer með stjórnarmálefni er tengjast húsnæðismálum og hið sama gildir um innanríkisráðherra sem fer m.a. með vega- og flugmál. Í tilfelli forsætisráðherra virðist hinsvegar eingöngu um einskæran og sérvitringslegan áhuga að ræða, í það minnsta hefur lítið farið fyrir haldbærum rökum í þeim frumvörpum og hugmyndum sem ráðherrann hefur stigið fram með. Það ber auðvitað helst að nefna hið stórfurðulega frumvarp um verndarsvæði í byggð, yfirnáttúrulegar hugmyndir um að veita nýjum kynslóðum arkitekta samtímans einstakt tækifæri til að vinna með Guðjóni Samúelssyni (1887 †1950) og síðast en ekki síst hin sósíalíska tillaga að frumvarpi um breytingu á lögum um menningarminjar nr. 80/2012 en í 10. grein frumvarpsins kemur fram að ráðherrann telji nauðsynlegt að hann hafi (geðþótta)heimild til eignarnáms á löndum, mannvirkjum og réttindum án þess að neinn frekari rökstuðningur sé færður fyrir því.  

Á meðan forsætisráðherra keppist við að reyna að gera við eitthvað sem er ekki bilað þá stendur húsnæðis- og félagsmálaráðherra frammi fyrir raunverulegum vandamálum á húsnæðismarkaðnum og það er óhætt að segja að hún hafi sökkt sér í málaflokkinn og leitað fjölmargra leiða til að vinna bug á vandanum, bæði með bloggfærslum þar sem ýmsar hugmyndir eru reifaðar og einnig með húsnæðisfrumvörpunum sem enn eiga eftir að fá afgreiðslu á þingi. 

Í gíslingu ríkisins

Það sem er áhugavert í þessu öllu saman er að á sama tíma og öll þessi umræða á sér stað hjá ríkisvaldinu um húsnæðis- og skipulagsmál þá gæti ríkið hratt og örugglega haft áþreifanleg áhrif á borgarþróun í Reykjavík og raunverulega lagt sitt af mörkum til að skapa lífvænlega og öfluga borg sem styrkir samkeppnisstöðu þjóðarinnar og styður við lausn húsnæðisvandans sem uppi er. Eina sem þarf er vilji og vottur af framtíðarsýn. Tökum þrjú dæmi:  

Alþingisreiturinn: 

Það segir nánast sjálft að ef ráðherrar og aðrir þingmenn ætlast til einhver taki mark á þeim í umræðu um skipulagsmál þá verður að taka Alþingisreitinn í gegn og það án tafar. Nánast allt í tengslum við reitinn er hörmulegt og við hæfi að vitna í orð Brynjars Níelssonar (af öðru tilefni) þegar Alþingi býsnast yfir skipulagsmálum í miðborginni „Gott er að taka til í eigin garði áður en kvartað er yfir rusli í garði nágrannans“.  

Þjóðskjalasafnið:

Annað ágætis dæmi um húsnæði og svæði sem er á ábyrgð ríkisins og hægt væri að nýta í eðlilegri þróun borgarinnar er Þjóðskjalasafnið við Laugaveg 162. Þarna er um að ræða fámennan vinnustað sem skapar lítið sem ekkert líf á svæði sem er í hjarta borgarinnar. Starfsemin er að sjálfsögðu gríðarmikilvæg en að halda fleiri þúsund fermetrum í gíslingu undir skjalageymslur og bílastæði á besta stað í bænum er í beinlínis skaðlegt fyrir borgina. Guðlaugur Þór hitti naglann á höfuðið hvað þetta varðar um daginn þegar hann sagði orðrétt um Þjóðskjalasafnið og Lögreglustöðina við Hverfisgötu: „Ef það eru ekki tæki­færi núna fyr­ir ríkið að taka bæði þessi hús, skipu­leggja þau upp á nýtt og selja þau, þá er það aldrei. Það skipt­ir einnig máli fyr­ir sjálfa miðborg­ina okk­ar, að þess­ar risa­bygg­ing­ar sem nýt­ast illa séu ekki þar". 

Vatnsmýri: 

Þriðja og síðasta dæmið að þessu sinni og jafnframt hið augljósasta er Vatnsmýrin í Reykjavík. Það er ekkert mikilvægara fyrir eðlilega borgarþróun í Reykjavík og þar með samkeppnishæfni þjóðarinnar en að róa öllum árum að uppbygginu 15-20.000 manna byggðar í Vatnsmýri í samræmi við skipulagsáætlanir Reykjavíkur síðustu 20 árin eða svo. Innanríkisráðherra og aðrir þurfa að horfast í augu við staðreyndir, rök og heildarhagsmuni í stað þess að láta afstöðu sína ráðast af óttapólitík, sérhagsmunum og tilfinningarökum. Eina sem ríkið þarf til að finna innanlandsflugi nýjan stað er vilji og þor og heilbrigð skynsemi. 

Toppurinn á ísjakanum

Dæmin hér að ofan er auðvitað bara þrjú dæmi um nær endalaus tækifæri ríkisins til að haga sér með ábyrgum hætti í tengslum við skipulagsmál í Reykjavík. Æðsta yfirvald landsins á að vera til fyrirmyndar hvað varðar skipulagsmál líkt og önnur mál og ekki sitja eins og ormar á gulli og tefja þannig nauðsynlega uppbyggingu borgarinnar.