Hugleiðingar um Hafnartorg

Skipulag Hafnartorgs hefur verið mikið til umræðu síðustu vikur eftir að Landstólpi kynnti hugmyndir um útilit húsanna sem unnar voru af PK arkitektum. Raunar er skipulagið sjálft nokkurn veginn óumdeilt en hið sama er ekki hægt að segja um útlit bygginganna. Þetta er umræða sem hefur verið rakin víða annars staðar og er óþarfi að fara nánar út í hér. Allt saman hið eðlilegasta og besta mál. 

Það sem vekur hinsvegar upp ófáar spurningar eru nýjustu fréttir af málinu en nú virðist vera sem forsætisráðuneytið eigi að fá að koma að hönnun bygginganna umdeildur gegn því að ríkið leigi af Landstólpa allt skrifstofuhúsnæði á svæðinu, alls um 6-7.000 fermetrar. Þetta verður að teljast áhugavert í ljósi þess að mikil eftirspurn hefur verið eftir því að hönnun svæðisins verði tekin upp með faglegum hætti, t.d. með því að boðað verði til nýrrar samkeppni og að ferlið verði opið og gagnsætt. Ég leyfi mér að kasta fram nokkrum hugleiðingum varðandi málið sem koma upp í hugann í fljótu bragði:

  • Hvaða arkitektar munu koma að endurhönnun húsanna og í gegnum hvaða ferli verða þeir ráðnir?
  • Er frestur til 12. febrúar 2016 (3 vikur) raunhæfur tímarammi til að vinna jafn umfangsmikla hönnunarvinnu og byggingarheimildir gera ráð fyrir? Þurfa hinu nýju arkitektar að vinna hönnunarvinnuna frá grunni eða fá þeir aðgang að þeim gögnum sem nú þegar er búið að vinna?
  • Hvað mun slík hönnunarvinna kosta og hver á að greiða fyrir hana?
  • Samræmast þessi vinnubrögð 4. grein siðareglna arkitektafélagsins?
  • Er æskilegt að einsleit starfsemi á vegum hins opinbera taki á leigu allt skrifstofurými Hafnartorgs? Hvaða áhrif mun það hafa á annan rekstur á svæðinu, t.d. hvaða kaffihús og verslanir kjósa að hefja rekstur í slíku umhverfi og hvaða íbúar kjósa að búa á svæðinu?
  • Hver er fjárhagslegur ávinningur Landstólpa af inngripum forsætisráðherra á svæðinu? Hvers virði er langtímaleigusamningur við ríkið á leigu á 7.000 fm skrifstofuhúsnæði á dýrasta fasteignasvæði landsins án útboðs?

Að lokum er rétt að leiða hugann að því hvernig landslagið í uppbyggingarmálum borgarinnar er að breytast í tíð núverandi ríkisstjórnar. Standa uppbyggingarverkefni (sem hafa farið í gegnum löglega skipulagsferla) og falla nú með skoðunum ráðamanna hverju sinni og við hverju mega mega fjárfestar og uppbyggingaraðilar búast á næstu árum? 

Mun óvissuástand um hvort að framkvæmdir geti hafist ríkja alveg þar til að steypan byrjar að flæða? Er þessi breytti veruleiki til þess fallinn að flýta fyrir lausnum á húsnæðisvanda borgarinnar eða draga úr nauðsynlegri uppbyggingu? 

Þetta eru allt hlutir sem þarf að ræða í víðu samhengi til að hægt sé að meta kosti og galla hins breytta landslags.