Nú heyrast víða þær raddir að mikið góðæri ríki í samfélaginu og ástandið minni á árin 2007 og 2008. Máli sínu til stuðnings vísar fólk til fjölda krana á höfuðborgarsvæðinu og margir fussa og sveia yfir hækkandi kranavísitölu.
Þessi umræða er óneitanlega svolítið sérstök því að á sama tíma á sér stað mikil umræða um stöðuna á húsnæðismarkaðnum og nauðsyn þess að byggja fleiri íbúðir eins fljótt og kostur er. Greiningaraðilar eru allir á sama máli um að gríðarleg uppsöfnuð þörf sé á húsnæðismarkaðnum og að henni verði ekki mætt nema byggja tugi þúsunda íbúða á næstu árum á höfuðborgarsvæðinu. Þetta var sannarlega ekki tilfellið árin 2007 og 2008 en þá verið að byggja íbúðir langt umfram eftirspurn.
Eftir efnahagshrunið er að sjálfsögðu eðlilegt að fólk setji spurningarmerki við fjölda byggingarkrana í höfuðborginni enda getur bólumyndun á fasteignamarkaði haft alvarlegar afleiðingar eins og allt of margir Íslendingar hafa reynt á eigin skinni. Það verður hinsvegar ekki bæði haldið og sleppt og eins og staðan er í dag þá er án efa ástæða til að fagna fjölgun krananna eftir langt og erfitt samdráttarskeið í byggingariðnaði. Við byggjum ekki hús án krana.
*Myndin fyrir ofan færsluna var fengin að láni hjá Vísi.