Þróun húsa í Reykjavík - Háteigsvegur 3

Það getur verið gaman að rýna í þróun húsa í Reykjavík, einkum með tilliti til þéttingu byggðar og umræðu um uppbyggingaraðila sem oft eru sakaðir um að spá meira í fermetrafjölda en hönnun húsa. Háteigsvegur 3 er eitt þeirra húsa sem hefur tekið miklum breytingum á síðustu árum og inn á teikningavef Reykjavíkurborgar er hægt að rekja hönnunarsögu hússins upp að vissu marki.

Hér má sjá uppdrátt af suðurhlið hússins eins sem var samþykktur árið 1976. Þarna má sjá stóra glugga á jarðhæð sem þykja mjög eftirsóttir í dag og raunar er gerð krafa um götuhliðar á borð við þessa á mörgum svæðum í núgildandi Aðalskipulagi Reykjavíkur.

Árið 2005 virðist hafa verið lögð fram breytingartillaga á húsinu sem var synjað. Ég þekki ekki hvaða ástæður lágu þar að baki en líklega hefur hækkunin ekki samræmst þágildandi deiliskipulagi en eins og sjá má á uppdrættinum þá fær gluggasetningin á jarðhæðinni að halda sér en efri hæðum er breytt í íbúðir. 

Árið 2007 er síðan núverandi útlit hússins samþykkt í kjölfar deiliskipulagsbreytingar þar sem hluti þaksins er hækkaður enn frekar frá 2005 tillögunni og umrædd gluggasetning er á bak og burt. 

Að lokum má sjá mynd af húsinu eins og það lítur út í dag en því hefur verið breytt í íbúðarhús með 13 íbúðum.