Hekla víkur fyrir heimilum

Á fundi borgarráðs í gær var lagt fram bréf skrifstofu eigna og atvinnuþróunar vegna viljayfirlýsingar milli Reykjavíkurborgar og Heklu hf. um uppbyggingar á lóðum ásamt drögum að viljayfirlýsingu, en vonir standa til að Hekla flytji starfsemi sína á á 24 þúsund fermetra lóð í Syðri-Mjódd. Þetta eru jákvæðar fréttir fyrir borgarbúa en við þennan flutning losnar um mikilvægan þéttingarreit sem er staðsettur við þróunarás núgildandi aðalskipulags. Þó svo að byggingarmagn liggi ekki fyrir að svo stöddu er ljóst að reiturinn ætti að rúma 100 íbúðir hið minnsta án þess að hafa íþyngjandi áhrif á aðliggjandi byggð. 

Uppbygging á Heklureitnum svokallaða fangar að mörgu leyti hugtakið margumtalaða þétting byggðar vel en í því felst endurnýjun borgarinnar, þ.e. að byggja upp úr sér gengin og vannýtt svæði innan núverandi byggðar og bæta þar með borgarum­hverfið.

Að því sögðu má ætla að flutningurinn mæti einhverjum mótbárum meðal íbúa Breiðholts og eflaust munu forsvarsmenn ÍR leggjast gegn því að umræddri lóð í Mjóddinni verði úthlutað undir atvinnustarfsemi af þessu tagi á þeim forsendum að verið sé að þrengja að starfsemi íþróttafélagsins. Á teikningunni sem sjá má hér að neðan er hinsvegar ljóst að um er að ræða svæði sem liggur nær alveg upp við Reykjanesbrautina með tilheyrandi ónæði og svifryksmengun sem varla fer vel saman við íþróttaiðkun. Slík skilyrði ættu hinsvegar að hafa lítil áhrif á starfsemi Heklu sem mun án nokkurs vafa sóma sér vel á þessum nýja stað við fjölfarna stofnbraut.

Að svo stöddu er ekki annað sjá en að hér sé um góða skipulagsákvörðun að ræða og vonandi mun áframhaldandi þróunarvinna milli borgarinnar og lóðarhafa ganga hratt og örugglega fyrir sig. 

2 responses
Þakka þér Guðmundur fyrir blogg þitt. Það er bæði vel skrifað, fróðlegt og kallar fram skapandi hugsun og jafnvel þörf til þess að bregðast við eins og nú. Ég er oftast sammála þínum sjónarmiðum en ekki alltaf eins og gengur. Í þessari færslu er það einkum tvent sem ég vil vekja máls á. Í fyrsta lagi finnst mér að það ætti að gefa Suður- Mjódd grið í nokkur ár. Þetta svæði liggur vel að mikilvægu stoðkerfi á Höfuðborgarsvæðinu og mun henta betur til íþrótta- og útivistarstarfssemi en fyrir bílabúð þegar til langs tíma er lirið. Ég held að borgin ætti að geyma þetta í nokkra áratugi enn vegna þess að það eru jafnvel hemnturgri svæði í boði fyrir þessa starfssemi. Heppilegra væri að hafa bílabúðina á reit, sem þú þekkir og er merktur M9 eða Þ96, í AR 2010-2030 og er einmitt ætlaður fyrir starfssemi eins og Heklu. Þetta er þarna sem Korputorg er. Það er nauðsynlegt að ljúka því svæði sem bíður bara eftir að fá viðeigandi notkun. Ég held líka að Vesturlandsvegurinn þoli meiri umferðaraukninngu en Reykjarnesbrautin . Hitt er núverandi staðsetning Heklu sem vissulega er eins og þú nefnir mikilvægur þéttingarreitur nátengdur frábærum þróunar- og samkönguás AR 3010-2030. Þú skilgreini svæðið sem "úr sér gengið og vannýtt svæði"! Mér finnst þetta svoldið gildishlaðið orðalag. Það liggur í orðanna hjlóðan (í mínum eyrum) eins og það sé ónýtt, "úr sér gengið" sennilega hvað byggingarnar varðar. Mér finnst þetta svæði ekki vera úr sér gengið heldur tilbúið til e.k sjálfsþróunnar, líkt og Meatpacking district í NY og önnur hafnarsvæði víða um heim. Þarna er sjálfsagt eins og þú segir að auka nýtinguna verulega en það má gera þó svo að mestur hluti núverandi bygginga standi áfram. Það mætti kannsk láta byggingarnar við Brautarholt víkja að hluta og svo má byggja verulega á Bílastæðinu stóra austast. Núverandi byggingar við Laugaveg henta ágætlega fyrir verslun og þjónustu til langrar framtíðar og það er óþarfi að ryðja þei úr vegi. Takk aftur fyrir þitt ágæta innlegg í skipulagsumræðuna.
Sæll Hilmar og takk fyrir sérlega góða athugasemd. Varðandi staðarvalið fyrir bílaumboðið þá þarf er viðbúið (og nú þegar orðið ljóst) að staðsetningin í Mjódd mun mæta miklum mótmælum. Minn skilningur á þessu, án þess þó að hafa séð neina uppdrætti fyrir utan þann sem ég birti í færslunni, er sá að þarna sé um að ræða afmarkaða landræmu meðfram Reykjanesbrautinni. Þannig gæti starfsemin verið einsskonar "buffer" fyrir íþróttasvæðið og hugsanlega dregið úr hljóðmengun á svæðinu. Að því sögðu þá þekki ég starfsemi Heklu ekki til hlítar og geri mér ekki grein fyrir nauðsynlegu byggingarmagni hinna nýju húsakynna. Varðandi Korputorg þá væri það auðvitað tilvalin staður fyrir starfsemi af þessu tagi en það sem ég held að það sé erfitt að sannfæra rekstraraðila sem nú eru í eigin húsnæði miðsvæðis um að færa starfsemi sína þangað! En það er auðvitað ekki þar með sagt það sé ómögulegt. Hvað Heklureitinn sjálfan varðar þá er ég hjartanlega sammála þeirri nálgun sem þú talar um hvað uppbygginguna varðar. Að sjálfsögðu á að halda í þau hús sem fyrir eru, einkum og sér í lagi þau sem búa yfir góðri lofthæð á jarðhæð en það er mikil vöntun á slíkum húsum í Reykjavík. Ég hef áður skrifað um varðveislu húsa, t.d. hér: http://borgarskipulag.is/umhverfisvaen-verdmaeti Það sem ég átti við með "úr sér gengið og vannýtt svæði" snéri einkum að bílastæðinu stóra og lágreistu húsunum meðfram Brautarholti þar sem núna eru rekin verkstæði ofl. Þarna mætti nýta sér hæðarmismunin á lóðinni betur og styrkja þannig götumyndir bæði Brautarholts og Laugavegs með tíð og tíma. Hitt er síðan annað mál að það er auðvitað mörgum spurningum ósvarað þarna, til að mynda hvaða skólahverfi börnin sem þarna eiga að búa munu tilheyra en Háteigsskóli er iðulega þéttsetinn og talsvert langt í aðra skóla. Það verður áhugavert að fylgjast með þessu, svo mikið er víst.