Inn og upp eða út og niður

Eftirfarandi grein birtist í Kjarnanum 13. október 2013

Samfélagsleg ábyrgð þeirra yfirvalda sem koma að borgarskipulagi er mikil. Umhverfið sem við búum í markar lífsgæði okkar og í tilfelli stór-höfuðborgarsvæðisins er um að ræða lífsgæði um 80% landsmanna. Sem höfuðborg gegnir borgin einnig veigamiklu hlutverki gagnvart landsbyggðinni og því má segja að skattgreiðendur allir eigi þá réttmætu kröfu að borgin sé rekin á sem hagkvæmastan hátt. Hagkvæmni er hins vegar sérlega flókið hugtak með tilliti til borgaskipulags og þá sér í lagi þegar kemur að samgöngumálum. Þrátt fyrir að stofn- og rekstarkostnaður hins opinbera vegna samgöngumála sé í flestum tilvikum skýr þá er ekki sömu sögu að segja um annan raunkostnað umferðar. Honum má skipta í tvo flokka, eða innri og ytri kostnað. Innri kostnaður umferðar, líkt og aksturs- og tímakostnaður, veltur á tímavirði vegfarenda og fjarlægðum og ytri kostnaður veltur á fjölda umferðarslysa og vægi umhverfisáhrifa. Alla þessa þætti er erfitt að meta nákvæmlega til fjár en þó er ljóst að allur umferðarkostnaður hækkar með aukinni umferð.

Umferðarteppur þrátt fyrir hátt þjónustustig

Einkabíllinn hefur verið ráðandi samgöngutæki Reykvíkinga síðustu áratugi og er bílaeign borgarbúa í kringum 550 bílar á hverja 1000 íbúa sem er eitt hæsta hlutfall í Evrópu. Fyrir vikið eru umferðartafir farnar að gera vart við sig á stofnbrautum borgarinnar á háannatímum þrátt fyrir hátt þjónustustig. Til að anna framtíðarumferð er því tvennt í stöðunni. Annars vegar að hækka þjónustustigið með umfangsmiklum umferðarmannvirkjum eða að auka hlutdeild annarra samgöngumáta innan borgarinnar og skapa þannig forsendur til að fresta framkvæmdum stórra umferðarmannvirkja. Síðarnefndi kosturinn gefur borginni kost á að vaxa án þess að bílaumferð aukist og samkvæmt samgönguáætlun frá 2011–2022 þá hefur sá kostur orðið fyrir valinu hjá yfirvöldum. Á tímabilinu stendur til að fjárfesta í innviðum fyrir hjólandi og gangandi vegfarendur fyrir rúma fimm milljarða króna og öðrum níu milljörðum verður varið í rekstur almenningssamgangna. Til samanburðar verður um sex milljörðum varið í önnur umferðarmannvirki.

Forsendurnar eru þétting byggðar

Þarna er um að ræða gríðarlega háar upphæðir og því eðlilegt að líta á þessa stefnubreytingu í samgöngumálum út frá hagkvæmnissjónarmiðum. Fjöldin allur af rannsóknum bendir til þess að aukin hlutdeild almenningssamgangna, hjólreiða og gönguferða lækki raunkostnað umferðar. Hins vegar þurfa ákveðnar grunnforsendur að liggja að baki því að fjárfestingar líkt og nú á að ráðast í á höfuðborgarsvæðinu skili þeirri hlutdeildaraukningu sem til þarf.

Í stuttu máli snúast þær forsendur að stórum hluta um þéttingu byggðar og líkt og sjá má í nýju aðalskipulagi Reykjavíkur er stefnt að mikilli þéttingu byggðar í Reykjavík fram til ársins 2030. Aðalskipulagið miðar að því að skapa þær forsendur sem fjárfestingar samgönguáætlunar þarfnast til að teljast hagkvæmar. Með þetta í huga er áhugavert að skoða þær tugþúsundir undirskrifta sem borist hafa borgaryfirvöldum vegna nýs aðalskipulags. Vissulega má þétta byggð á mörgum svæðum borgarinnar en ef þau svæði sem eru hvað mest miðsvæðis verða undanskilin er erfitt að sjá að fjármunum skattborgara sé varið á hagkvæman hátt í nýrri samgönguáætlun. Vatnsmýrin er engin undantekning þar á.
En burtséð frá öllum hugmyndum um hagkvæmni og arðsemi er einnig mikilvægt að sjá mikilvægi þeirra breytinga sem fyrirhugaðar eru í Reykjavík er lúta að þéttingu byggðar og öðrum umhverfisvænum áætlunum í nýju aðalskipulagi í öðru ljósi.

70 prósent íbúa jarðar verða í borgum

Talið er að fyrir hundrað árum hafi 20 prósent íbúa jarðar búið í þéttbýli. Árið 1990 var hlutfallið komið upp í 40 prósent og árið 2010 bjuggu rúmlega 50 prósent jarðarbúa í þéttbýli. Talið er að árið 2030 muni hlutfallið aukast í 60 prosent og að árið 2050 muni 70 prósent íbúa jarðar búa í borgum. Í dag býr um helmingur borgarbúa í heiminum í borgum þar sem íbúafjöldi er um 100 til 500 þúsund og innan við tíu prósent búa í svokölluðum „mega-borgum“ þar sem íbúar eru fleiri en tíu milljónir.

Með öðrum orðum: borgarskipulagsmál verða í brennidepli á komandi áratugum.
Í nýju aðalskipulagi er að finna fjölmargar tillögur sem miða að því að Reykjavík nútímavæðist og verði með tíð og tíma sú framúrskarandi og fyrirmyndarborg sem hún hefur fulla burði til að vera. Með þéttingu byggðar, breyttum samgönguháttum og aukinni umhverfisvitund er hægt að skapa þekkingu og fordæmi sem aðrar þjóðir geta horft til og nýtt sér á komandi árum.