Frumvarp til laga um verndarsvæði í byggð var samþykkt á fundi ríkisstjórnar 11. mars síðastliðinn. Í fréttatilkynningu frá forsætisráðuneytinu þar sem frumvarpið var unnið kemur fram að því er "ætlað að stuðla að vernd og varðveislu byggðar innan þéttbýlis og byggðarkjarna utan þéttbýlis vegna svipmóts, menningarsögu eða listræns gildis".
Er þetta nauðsynlegt?
Í skipulagslögum og lögum um menningarminjar eru þegar fyrir hendi heimildir til að tryggja vernd sögulegrar byggðar, t.d. með ýmisskonar friðlýsingu og með svokallaðri hverfisvernd við gerð skipulagsáætlanna. Í frumvarpinu er lagt til að þessi ákvæði skipulagslaga falli niður og ákvæði frumvarpsins komi í þeirra stað án þess að fyrir því séu færð betri rök en að með frumvarpinu verði "vernd gert hærra undir höfði en svo að vera hluti af almennri skipulagsvinnu sveitarfélaga".
Til að tryggja veg og virðingu byggðarverndar er því lagt til í umsögn um frumvarpið að "Minjastofnun Íslands verði sveitarstjórn til ráðgjafar í þeim efnum og sinni sveitarstjórn ekki þessu verki geti ráðherra falið Minjastofnun það". Einnig er lagt til að "ráðherra geti falið Minjastofnun að útbúa tillögu um að tiltekin byggð, sem að mati ráðherra hefur varðveislugildi á landsvísu, verði gerð að verndarsvæði í byggð". Með öðrum orðum: Sveitastjórnir skulu lúta geðþótta og skipuagsvaldi ráðherra.
Skipulagsráðherra ríkisbákns
Það verður áhugavert að fylgjast með umræðum um frumvarpið á Alþingi en í fljótu bragði virðist það eingöngu vera til þess fallið að draga úr skipulagsvaldi sveitarstjórna og færa það í hendur ráðherra og ráðuneytis þar sem lítil sem enginn sérfræðiþekking á skipulagsmálum er fyrir hendi.
Það er aldrei góð hugmynd að gera við eitthvað sem er ekki bilað.