Annaðhvort eða

Ökumenn kvarta sáran undan bágu ástandi gatnakerfis höfuðborgarsvæðisins. Ég hef enga ástæða til að draga réttmæti þeirra kvartana í efa. Ég hef hinsvegar tekið eftir því að uppbygging innviða fyrir hjólreiðafólk og gangandi er oft dregin inn í umræðuna um slæmt ástand gatnakerfisins í einhversskonar annaðhvort eða samhengi. Það er hvorki réttmætt né skynsamlegt.

Landspítalinn eða Reykjalundur?

Til samanburðar má nefna að ástandið á Landspítalanum hefur lengi verið slæmt af ýmsum ástæðum. Umræðan um spítalann einkennist hinsvegar ekki af því að brýnt sé að draga úr starfsemi Reykjalundar. Ástæðan er einföld, við vitum að markviss endurhæfing er afar árangursrík en tiltölulega ódýr læknismeðferð miðað við ýmsar aðrar meðferðir. Skjólstæðingar stofnunarinnar skila sér aftur út í lífið í stað þess að verða varanlegur baggi á heilbrigðiskerfinu. Það gefur augaleið að fjárfestingin margborgar sig. Hið sama gildir um fjárfestingar í hjóla- og göngustígum. 

Má ég bjóða þér 20 krónur í staðinn fyrir 1?

Það hefur sýnt sig að hlutfallsleg arðsemi af fjárfestingum í hjóla- og göngustígum er í kringum 5:1 - 20:1. Með öðrum orðum, fyrir hverja krónu sem er eytt í uppbygginga hjóla- og göngustíga, fær samfélagið allt að 20 krónur til baka yfir líftíma stígarins. Á ensku kallast fjárfesting af þessu tagi no-brainer 

Það er sjálfsagt mál að gera við göturnar en allt tal um að beina fjármagni frá uppbyggingu arðbærra samgöngumannvirkja í malbikun og holufyllingar er órökrétt.

P.s. Myndin hér að ofan sýnir hefðbundnar niðurstöður úr viðamikilli rannsókn á arðsemi hjóla- og göngustígamannvirkja þar sem tekið er tillit til fjölmargra þátta.