Borgarlæsi & Borgartún

Borgarlæsi er orð sem skilar ekki mörgum niðurstöðum á leitarvefum. Kannski er það ekki formlega til, ég finn það í minnsta ekki í neinni orðabók. Það ætti hinsvegar undir öllum kringumstæðum að vera til og hafa ríka merkingu í íslenskri tungu. Íslendingar eru nefnilega ein borgarvæddasta þjóð í heimi, jafnvel þó að sjálfsmynd okkar kunni að einkennast af hugmyndum um annað. Í kringum 65% þjóðarinnar býr á höfuðborgarsvæðinu og 15% til viðbótar í nágrannasveitarfélögum. Heilt yfir búa tæplega 94% þjóðarinnar í þéttbýli. Fyrir vikið eru íslendingar í 13. sæti yfir þéttbýlisvæddustu þjóðir heims. Til samanburðar er Frakkland í 26. sæti og Bandaríkin 35. sæti. Samt er bara ein raunveruleg borg á Íslandi en fleiri en 20,000 í Bandaríkjunum. 

Það getur verið áhugavert að rýna í tölur og talningar en á sama tíma getur það verið mjög varasamt. Þetta á sérstaklega við um borgir. Umferðartalningar eru ágætis dæmi um þetta, en því miður eru þær sá mælikvarði sem fær alltof mikið vægi í umræðu um skipulagsmál. 

Tölfræði sem tungumál

Tölfræði er oftar en ekki tungumál kjörinna fulltrúa og tölfræðin sem þeir nota máli sínu til stuðnings er annaðhvort fullnægjandi eða ófullnægjandi, allt eftir málefnaafstöðu. Tveir borgarfulltrúar vísa til dæmis oft í sömu tölfræðina en fá gjörólíkar niðurstöður. Allt er þetta túlkunum háð, sem segir auðvitað margt um áreiðanleika tölfræði yfir höfuð. Nýlegt dæmi um þetta svargrein sem birtist í Fréttablaðinu síðastliðin föstudag. Þar sakar Ólafur Kr. Guðmundsson varaformaður Félags íslenskra bifreiðaeigenda og varamaður Sjálfstæðisflokksins í umhverfis- og skipulagsráði Reykjavíkurborgar borgarfulltrúann Kristínu Soffíu Jónsdóttur um að fara frjálslega með staðreyndir varðandi Borgartún í Reykjavík í aðsendri grein nokkru áður. 

Tvær hliðar á sama peningi

Greinarnar tvær fjalla um sömu framkvæmdirnar og vísa í sömu tölfræðina en á þeim er einn áberandi munur. Grein Kristínar Soffíu einkennist af borgarlæsi á meðan grein Ólafs ristir ákaflega grunnt. "Eini alvörumælikvarðinn á umferðarmálin í Borgartúni er fjöldi notenda eftir vegfarendahópum." segir Ólafur en Kristín Soffía bendir á að vissulega sé umferð einkabíla um götuna svipuð og áður en á sama tíma hafi "ný bankaútibú hafa opnað sem og nýtt kaffihús sem slegið hefur í gegn". 

Í stað þess að einblína á umferðartalningar bendir Kristín Soffía á að þjónusta við götuna vex og dafnar, sem eðli málsins samkvæmt dregur að sér aukið mannlíf sem aftur auðgar borgina og umhverfi hennar á ótal vegu. 

Staðreyndin er sú að það er ekki hægt að taka "umferðarmálin" út fyrir sviga í umræðu um Borgartún eða aðrar götur af svipuðum toga því að gatan er svo miklu meira en samgönguæð. Borgartún er verslunar- og þjónustugata og mun í náinni framtíð einnig verða íbúðagata. Gatan og umhverfi hennar eru híbýli fólks. Staður þar sem fjöldi fólks eyðir lunganum úr deginum við leik og störf. "Fjöldi notenda" segir mér ósköp lítið um gæði Borgartúns sem borgarrýmis en þeim mun meira um þann sem kýs að kalla íbúa þessarar borgar, manneskjur af holdi og blóði "notendur". Við sem manneskjur búum í borgum, við notum þær ekki til þess eins að komast á milli staða. 

Hvað telur?

Ef gæði borgargötu eiga að velta á talningum þá þarf líka að taka tíma með í reikninginn og spyrja um líðan. Hvað eyðir fólk miklum tíma í rýminu og hvernig líður því á meðan. Upplifir það öryggi og vellíðan? Er umferðin hröð eða hæg, nær augað að grípa eitthvað áhugavert í nærumhverfinu eða er hraðinn of mikill? Geta börn hlaupið um og aldraðir komist klakklaust á milli staða? Ná hjólreiðamenn augnsambandi við ökumenn eða eru allir í eigin heimi? Er hægt að setjast niður og fylgjast með fólkinu sem streymir upp og niður götuna og anda að sér fersku lofti á meðan? Veitir gatan þeim manneskjum sem eiga leið um hana einhversskonar andagift í þeirra daglega amstri?

Borgarlestur er eins hver annar lestur. Það er ekki fjöldi orðanna sem skiptir máli heldur samhengi þeirra og meining. Að skilgreina og skipuleggja borgir út frá tölum er eins og að skrifa sögu án söguþráðar. Við vitum öll að góð bók er miklu meira en orð á blaði.