Óhapp, slys eða áhættuhegðun?

Fjölmiðlar flytja daglega fréttir af manneskjum sem hafa orðið fyrir meiðslum af einhverju tagi. Oftast er um að ræða umferðafréttir eða íþróttafréttir. Umræða um umferðarmál snýst hinsvegar gjarnan um slysatíðni en umræða um íþróttir um meiðslatíðni. Þ.e. við tölum um að manneskjur hafi slasast í umferðarslysum en meiðst við íþróttaiðkun. Þessi umræða leiðir af sér spurninguna um hvað sé slys og hvað ekki?

Er slys slys?

Í fljótu bragði er erfitt að finna nákvæma skilgreiningu á orðinu slys. Í umræðu um vátryggingrétt virðist slys vera skilgreint með eftirfarandi hætti: "Skyndilegur utanaðkomandi atburður sem gerist án vilja vátryggðs og veldur meiðslum á líkama hans". Nú er ég sannarlega enginn lögspekingur en þessa skilgreiningu má augljóslega túlka með ýmsum hætti og heimfæra upp á vel flest meiðsli sem t.d. manneskjur verða fyrir við íþróttaiðkun. Keppni í bardagaíþróttum er með því fyrsta sem kemur upp í hugann í þessu samhengi. Fæstir eru tilbúnir að flokka áverka sem iðkendur bardagaíþrótta verða fyrir sem slys, jafnvel þótt skyndilegt spark í höfuð hafi gerst án vilja viðkomandi og valdið varanlegum skaða. Ástæðan er sú að báðir aðilar gera sér grein fyrir þeim afleiðingum sem bardaginn getur leitt af sér en ákveða að berjast engu að síður. 

Er umferðarslys slys?

Í beinu framhaldi er þá rétt að spyrja  hvort að sömu röksemdarfærslu megi ekki beita í umræðu um umferðarslys? Afleiðingar árekstra og annarra óhappa í umferðinni eru oft á tíðum alvarleg meiðsli á fólki sem jafnvel leiða til dauða. Þetta eru staðreyndir sem eru á flestra vitorði, sér í lagi ökumanna og annarra vegfarenda. Við tökum meðvitaða áhættu með að hætta okkur út í umferðina til að komast á milli staða og á degi hverjum láta yfir 3.300 manns lífið í umferðinni á heimsvísu. Í mörgum tilfellum vita ökumenn nákvæmlega hvar hætturnar liggja, t.d. hafa gatna­mót Grens­ás­veg­ar og Miklu­braut­ar verið talin hættulegustu gatna­mót höfuðborg­ar­svæðis­ins und­an­far­in fimm ár. Þar varð síðast harður árekstur fyrir örfáum dögum en þrátt fyrir að enginn virðist hafa slasast er engu að síður talað um bílslys í athugasemdum við fréttina á Vísi.

Er slys einhvern tíman slys?

Auðvitað meiðast manneskjur af fjölmörgum orsökum. Leikvellir barna, sundlaugar, miðbær Reykjavíkur, allt eru þetta staðir þar sem að tilkynnt erum slys og jafnvel dauðsföll án þess að nokkur efist um að neitt annað en slys að ræða. Eftir því sem að harmleikurinn er meiri, þeim mun réttmætara virðist vera að tala um slys, nema kannski ef um líkamsárás er að ræða. 

Það er enginn leið að forðast það að taka meðvitaða áhættu af einhverju tagi í dagsins önn og skilgreiningin á slysi verður aldrei klippt og skorin. Það er hinsvegar áhugavert að skoða rannsóknir á meiðslum í hinu byggða umhverfi. Þegar fræðigreinum er beint að umferð í borgum er sjaldan talað um slys heldur nær eingöngu meiðsli (e. traffic-related injuries). Fjölmargir fræðimenn telja að sé hreinlega rangt að tala um umferðarslys og að orsakir flestra umferðartengdra-meiðsla (hvort sem þau eru bannvæn eða ekki) sé að finna í hinu byggða umhverfi, einkum því sem stuðlar að óheftu flæði bílaumferðar. Í fullkomnum heimi skipulagsfræðingsins er þar af leiðandi hægt að draga úr meiðslatíðni af völdum umferðar í gegnum hönnum, stefnumörkun og fræðslu í skipulagsmálum sem miðar einkum og sér í lagi að því að lækka hraða og draga úr umferð. 

Að kalla hlutina réttum nöfnum

Eftir því sem að vitneskja okkar eykst um áhætturnar sem felast í mismunandi gerðum hins byggða umhverfis er rétt að velta fyrir sér hvort að hlutirnir séu kallaðir réttum nöfnum. Óháð öllum skilgreiningum og orðalagi munu borgir sem ýta undir aukna bílaumferð, t.d. með lagningu mislægra gatnamóta, að endingu fyrirgera rétti sínu til að tala um umferðarslys. Á einhverjum tímapunkti hætta slys að vera slys. Blessunarlega eru núverandi borgaryfirvöld að róa öllu árum að því að svo verði ekki í Reykjavík. Því ber að fagna. 

2 responses
Þetta er athyglisverð hugleiðing. Mér hefur t.a.m. ekki líkað hugtakið "skipulagsslys" vegna þess að skipulagsákvarðanir eru oftast teknar að vel skoðuðu máli. Allt er fyrirséð og því ekki slys. Ég nefni að orkuveituhúsið upp á Hálsi var byggt án tengsla við borgarvefinn. Sama á við um Háskólann í Reykjavík. Marg var bent á umferðavandræði vegna þessarra húsa. Höfðatorg og Skuggahverfið sem eru svokölluð verktakaskipulög. Í Skuggahverfi og Höfðatorgi var deiliskipulagi breytt til þess að mæta hagsmunum fjárfesta. Svo er það deiliskipulag landsspítalans sem er að vissu marki verktakaskipulag. Hvað finnst mönnum um það. Er það í himna lagi eða stefnir í slys?
Sæll Hilmar og takk fyrir innlitið! Ég er hjartanlega sammála með notkun orðsins "skipulagsslys". Mismunandi borgarskipulag og afleiðingar þess hafa verið rannsóknarefni áratugum saman, ef ekki lengur. Það er sjaldnast neitt óvænt í þeim efnum nema skipulagið sé þeim mun prógressívara, sem er sannarlega ekki raunin í þeim dæmum sem þú nefnið. Varðandi deiliskipulag Landspítalans þá verð ég að viðurkenna að mér hefur þótt erfitt að átta mig á því risavaxna verkefni öllu saman. Þú rekur þetta auðvitað prýðilega í síðustu færslu þinni og það lýsir kannski stöðu mála hvað best að nær eina umræðan um þessa fyrirhuguðu risafjárfestingu, og eitt stærsta skipulagsmál Reykjavíkur, á sér stað á persónulegri heimasíðu þinni. Persónulega tel ég að það þurfi að endurskoða skipulagið og velta upp öðrum möguleikum. Ég tel að einhversskonar biðleikur væri það skynsamlegasta í stöðunni. Bæta aðstöðuna við Hringbraut eins og kostur er, kannski byggja 1-2 álmur til viðbótar til að mæta þörfum um nýjan og plássfrekan tækjakost osfrv. en huga að framtíðaruppbyggingu spítalans á öðrum stað þar sem að vaxtarmöguleikarnir eru meiri. Fæst orð bera hinsvegar minnsta ábyrgð og ég treysti mér ekki ennþá til að tjá mig um skipulag spítalans með tæmandi hætti, enda ekki um "hefðbundið" skipulagsmál að ræða. Þetta er vissulega afar flókið mál og fjölmargir þættir sem þarf að taka með í reikninginn. Annars segja gámskrifstofurnar við Landsspítalann auðvitað allt sem segja þarf um þetta mál. Staðan er óásættanleg, sama hvernig á það er litið.