Alvara ekki afsláttur

Kristinn Steinn Traustason, formaður íbúasamtaka Úlfarsárdals skrifar áhugaverða grein í Fréttablaðið í dag sem ber heitið Hvað er til ráða í húsnæðismálum í Reykjavík? Þar rekur hann meinta galla þess að þétta byggð og kosti þess að dreifa byggð í Reykjavík enn frekar með áframhaldandi uppbyggingu í Úlfársdal. Í greininni segir m.a. 

"Bygging húsa á þéttingarreitum er oft flóknari og erfiðari en á nýbyggingasvæðum og getur að auki kallað á endurskipulagningu annara innviða s.s. samgöngumannvirkja og lagnakerfa sem eykur kostnað enn frekar, um þá staðreynd er hins vegar sjaldan rætt í tengslum við áform um þéttingu byggðar."

Ástæðan fyrir því að um þessa "staðreynd" er sjaldan rætt í tengslum við þéttingu byggðar er sú að þrátt fyrir aukinn kostnað og hærra flækjustig er ávinningurinn af þéttri byggð margfalt meiri en kostnaðurinn. Þétt byggð styður við fjölbreytta samgöngumáta og dregur þannig úr álagi á samgöngukerfi auk þess sem hagkvæmni alls reksturs, líkt og lagnakerfa, eykst eftir því sem fleiri geta nýtt sér þau. Það er hinsvegar ein staðreynd sem alltof sjaldan er rædd í tengslum við úthverfabyggð. Hún er sú að ýmis gjöld, frá lóðarverði til fasteignaskatta, endurspegla ekki raunkostnað. Við búum við kerfi þar sem þeir sem búa þéttast niðurgreiða raunbúsetukostnað þeirra sem búa í minna þéttum íbúðahverfum með einum eða öðrum hætti. Staðreyndin er sú að afleidd áhrif dreifðrar byggðar innan borgarinnar, líkt og losun gróðurhúsalofttegunda og umferðarteppur, eru ekki verðlagðar í samræmi við raunkostnað. Með öðrum orðum, kostnaðurinn sem Kristinn telur að sparist við að byggja upp úthverfi bliknar í samanburði við kostnaðinn sem skapast í kjölfarið og leggst á samfélagið í heild sinni en ekki þá sem bera ábyrgð á honum eða njóta góðs af uppbyggingunni. Sparnaðurinn er enginn en óréttlætið þeim mun meira. 

Hvað er til ráða?

Það er von að fólk spyrji sig hvað sé til ráða í húsnæðismálum í Reykjavík. Svarið er að það eru engar skyndilausnir í boði. Besta leiðin er að byggja upp alvöru borg með alvöru almenningssamgöngum og alvöru atvinnutækifærum. Það er í besta falli krúttlegt að halda að það ríki samkeppni um ungt fólk á milli sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu. Samkeppnin ríkir á milli Íslands og útlanda. Reykjavík vs allar aðrar borgir í heiminum. Við eigum ekki að gefa neinn afslátt á uppbyggingu samkeppnishæfs borgarsamfélags á Íslandi. Alvöru urbanismi er svarið við spurningu Kristins, sama hvað hann kostar.