Samhengi hlutanna

Það er fátt jafn gefandi eins og að vera sammála og blessunarlega erum við öll sammála um ótal margt. Langflestir eru sammála um að mannkyninu stafar raunveruleg ógn af offitu og öðrum lífstílstengdum sjúkdómum. Íslendingar eru feitasta þjóð í Evrópu og langflest ótímabær dauðsföll á Íslandi má rekja beint til lífstíls fólks. Ef að fleiri íslendingar hefðu kost á að nýta eigið hreyfiafl til að komast til og frá vinnu mun þessum dauðsföllum fækka. Heilbrigð skynsemi segir okkur að bætt lýðheilsa bjargar mannslífum. Mun fleiri mannslífum en flugvöllur sem væri staðsettur ofan á fullkomnasta spítala í heimi. Langflestir eru líka sammála um að okkur stafar veruleg ógn af loftlagsbreytingum og það er ljóst að íbúar hins vestræna heims bera mikla ábyrgð í þeim efnum. Ef allir íbúar jarðar væru jafn neyslufrekir og við íslendingar þá þyrftum við rúmlega 5 jarðir í viðbót. Þær eru ekki í boði. Íslendingar eru umhverfissóðar á heimsmælikvarða

Það eru flestir sammála um að það sé dýrt að eiga bíl og að það séu mikil lífsgæði fólgin í því að geta sótt verslun og þjónustu í göngufjarlægð frá heimili okkar. Þeir sem eru orðnir eldri en tuttugu og fimm ára minnast þess að svoleiðis hafi þetta verið í "gamla daga". Flestar nauðsynjavörur var hægt að nálgast á tveimur jafnfljótum á innan við tuttugu mínútum. Í hverfiskjörnunum var hægt að fá sér strípur, fara í sérvöruverslanir og kaupa bland í poka allt í sömu ferð. Flestir eru sammála um að það sé alls ekkert hræðilegt að þurfa að keyra á milli verslunarkjarna til að sækja verslun og þjónustu og að vissulega felist í því ákveðið frelsi og hagræði fyrir neytendur. Á sama tíma eru flestir sammála um að það væri betra ef hægt væri að spara tíma og peninga með því að geta gengið út í búð, hreyft sig þannig í leiðinni og um leið verndað umhverfið. Svo finnst líka flestum gott að geta sent börnin sín út í búð án þess að þau þurfi að fara yfir hættulegar umferðargötur og þurfi ekki að eiga á hættu á að þróa með sér öndunarfærasjúkdóma sökum svifryks- og loftmengunar. Það er ömurlegt að árið 2014 sé astmi á uppleið á Íslandi og það sérstaklega hjá börnum og ungu fólki. Flestir geta sammælst um að það væri afar ákjósanlegt ef öll hverfi borgarinnar væru á þessa leið, óháð staðsetningu: 

Myndin hér að ofan er fengin úr nýju svæðisskipulagi höfuðborgarsvæðisins sem er á vinnslustigi og mun ná fram til ársins 2040. Hún endurspeglar framtíðarsýn sem öll sveitarfélög á höfuðborgarsvæðinu eru sammála um að tryggi íbúum sem best lífsgæði á sem sjálfbærastan hátt. 

"Sjálfbær þróun er þróun sem fullnægir þörfum samtíðarinnar án þess að skerða möguleika komandi kynslóða til að fullnægja sínum þörfum."

Hverju sveitarfélagi er síðan í sjálfsvald sett hvernig best er að haga skipulagsmálum til að tryggja að að ofangreind framtíðarsýn nái fram að ganga, einkum með gerð aðalskipulags. Í nýju aðalskipulagi Reykjavíkur er að finna ótal markmið, áherslur, stefnur og pælingar um hvernig tryggja megi sjálfbæra þróun borgarinnar í víðu samhengi. Þar er leitast við að setja hlutina í samhengi með það að markmiði að Reykavík sé ábyrg borg þar sem yfirvöld gera sér grein fyrir samhengi hlutanna. Að baki kaflanum um kaupmanninn á horninu er ekki útópískt draumsýn yfirvalda um gamlan mann í slopp að rétta húsmæðrum vörur yfir búðarborð, heldur ítarleg greiningarvinna sem sýnir meðal annars fram á að í kjölfar þess að verslun og þjónusta færðist úr nærumhverfi fólks jókst tíðni offitu með alvarlegum afleiðingum fyrir þjóðfélagið í formi kostnaðar og dauðsfalla. Skipulagsmál eru dauðans alvara. Niðurstöður nýlegrar búsetukönnunar sýna einnig að flestir telja helstu ókosti síns hverf­is vera mikla bílaum­ferð, skort á versl­un og þjón­ustu og slakt stræt­is­vagna­kerfi. Samkvæmt sömu könnun vilja flestir búa miðsvæðis, eða í þeim hverfum þar sem þjónusta og verslun hefur ekki horfið úr nærumhverfinu. Best væri ef niðurstöður búsetukannanna væru á þann veg að sem flestir séu ánægðir og stoltir af sínu hverfi.

Í innleiðingu á aðalskipulagi Reykjavíkur er verið að stíga nýtt skref sem miðar að því að kortleggja styrkleika og veikleika allra hverfa borgarinnar með það að markmiði að öll hverfi borgarinnar þróist á forsendum þeirra sem þar búa á sjálfbæran hátt í gegnum hverfisskipulag. Markmiðið við gerð hverfisskipulags er að skapa kraftmikil hverfi með öfluga nærþjónustu í takt við óskir íbúa. Hverfisskipulagið á að vera unnið í virku samráði við íbúa og grasrótarsamtök og það á að vera byggt á staðbundinni þekkingu og hverfisivitund. Það á að vera verkfæri íbúa til að móta sín hverfi eftir eigin höfði og með gildistöku þess á öll skipulagsvinna að verða einfaldari og hraðari. Hverfisskipulagið er unnið á smáum skala en af stórri hugsjón. Með gerð hverfisskipulags er hægt að hugsa hnattrænt en bregðast við heimafyrir. 

Á löngu ferðalagi þarf oft að rétta kúrsinn af og það verður ekki betur séð en að ákvörðun borgarráðs sé til þess fallinn að fyrirbyggja misskilning sem farið var að gæta varðandi markmið og tilgang hverfisskipulagsins sem skipulagsverkfæris. Hverfisskipulag á ekki að verða að pólitísku bitbeini í aðdraganda kosninga og það er óþarfi að vega að starfsheiðri margra af fremstu ráðgjafastofum arkitekta, landslagsarkitekta og skipulagsfræðinga hér á landi í pólitískum tilgangi með villandi umræðu. Hverfisskipulag er einn af þessum hlutum sem við eigum að geta verið nokkurn veginn sammála um. 

4 responses
Hvers vegna mega bjórsalar auglýsa vörur sínar á gangstéttum borgarinnar en búðareigendur ekki? Það væri gott að fá svar við því - samhengisins vegna. http://www.mbl.is/frettir/innlent/2013/11/06/bo...
"Íslendingar eru feitasta þjóð í Evrópu" Geturðu stutt þessa fullyrðingu með vísun í heimildir?
Sæl Elín Þetta hefur væntanlega eitthvað með aðgengismál að gera, þ.e. að skiltin hindri ekki för sjónskertra og fatlaðra. Það hlýtur eitt að ganga yfir alla í þessum efnum án þess að ég þekki þessar reglugerðir til hlítar sjálfur. Sæll Már Anna Sigríður Ólafsdóttir, dósent í næringafræði við Háskóla Íslands og í stjórn Félags fagfólks um offitu gerir þessari fullyrðingu ágætis skil hér: http://www.ruv.is/mannlif/feitasta-thjod-evropu Á vef landlæknis má líka finna áhugaverða skýrslu um sama málefni. Þar kemur fram að íslendingar séu feitastir norðurlandabúa: http://www.landlaeknir.is/servlet/file/store93/... Það er sægur af upplýsingum um holdafar íslendinga á netinu og þær eru allar jafn sláandi. Líkt og segir í þessari frétt frá árinu 2011, þá er offita hinn þögli dauði: http://www.visir.is/niu-daudsfoll-vegna-offitu-...
Skilti kaupmanna eru ekki hættulegri en skilti kráareigenda. Eins og fram­kvæmda­stjóri Sam­taka kaup­manna og fast­eigna­eig­enda við Lauga­veg benti á þá er um að ræða valdníðslu borgaryfirvalda og mismunun. PS. Fín mynd hjá þér: Láttu ekki vín breyta þér í svín.