1+1=3

Umræðan um nýjan landspítala og staðsetningu hans sprettur reglulega upp og eins og gengur og gerist í umræðu um stóra málaflokka á borð við heilbrigðis- og skipulagsmál þá skipar fólk sér í flokka, með eða á móti, tilteknum ákvörðunum. Stórar skipulagsákvarðanir eru þess eðlis að þær verða alltaf (og eiga að vera) umdeildar. Í tilfelli Landspítalans er ljóst að enginn staðsetning er fullkomin og þar er Hringbraut að sjálfsögðu enginn undantekning. Þegar rætt er um nýja staðsetningu á umræðan hinsvegar til að snúast upp í að gallar núverandi staðsetningar eru tíundaðir og kostir annarra staða upphafðir líkt og þeir séu gallalausir. Eðli málsins samkvæmt veldur þetta ruglingi og myndar óþarfa skotgrafir. Þetta á auðvitað við um flestar aðrar rökræður þar sem röksemdir eru valdar eftir þörfum hverju sinni 

Hvað á heima miðsvæðis?

Vegna þess hve litla þekkingu ég hef á rekstri og hönnun spítala (sem þó er væntanlega aðalatriðið í stóra spítalamálinu) þá snúa mínar hugleiðingar varðandi þetta mál eingöngu að skipulagsmálum en þar liggja einmitt margar röksemdir þeirra sem hafa efasemdir um staðsetningu spítalans við Hringbraut. Stærsti samnefnarinn í skipulagsmálum er yfirleitt umferðar- og bílastæðamál og á þeim forsendum er auðvelt að færa rök fyrir því að Hringbraut sé vonlaus kostur vegna umferðarálags á Hringbraut, einkum og sér í lagi við flöskuhálsinn sem myndast þar sem nýja Hringbrautin mætir þeirri gömlu. Þetta eru hlutir sem flestir tengja við og hafa þar af leiðandi réttmætar skoðanir á. 

Ég tel hinsvegar að líta þurfi á þetta mál í mun víðara samhengi og horfa á miðbæinn og aðliggjandi miðsvæði í heild. Spurningin sem við þurfum að spyrja okkur að er hvernig miðborg við stöndum frammi fyrir ef stærsti vinnustaður landsins fer og í staðinn koma íbúðir og hótel? Viljum við að miðborgin sem atvinnusvæði verði enn einsleitari en hún er nú þegar, eða felast tækifæri í því að tryggja í sessi stóra og fjölbreytta vinnustaði sem draga að allskonar fólk í miðbæinn en ekki bara ferðamenn, starfsmenn ráðuneyta og stjórnmálafólk? 

Margir taka andköf yfir fyrirhuguðu byggingarmagni spítalans við Hringbraut en á móti þurfum við að spyrja okkur hvaða byggingar mega taka meira pláss en aðrar í þéttri byggð. Eru það bara fjármálastofnanir og háskólar en ekki spítalar? (Talandi um fjármálstofnanir og háskóla þá er reyndar ekki langt síðan að uppbyggingaráform Landsbankans við Austurhöfn voru gagnrýnd harðlega og nú er ljóst að Listháskóli Íslands mun ekki rísa á Frakkastígsreit þrátt fyrir mjög spennandi áætlanir þar um.) Fyrir vikið snýr nær öll uppbygging í miðbænum að túrisma, hvort sem um ræðir hótel eða íbúðarhús, sem flest enda í skammtímaleigu til ferðamanna þrátt fyrir fögur fyrirheit um annað. 

Þetta á hinsvegar ekki við um Vatnsmýrina, en út frá borgarskipulagi gegnir svæðið lykilhlutverki í tengslum við fyrirhugaða uppbyggingu nýs spítala við Hringbraut. 

Vaxtapóll í Vatnsmýri

Með þróun atvinnusvæðis í Vatnsmýri og nágrennis, þar sem lögð er höfuðáhersla á uppbyggingu og þróun háskóla og rannsóknastarfsemi, fyrirtækja og stofnana á sviði hátækni og nýsköpunar, heil­brigðisvísinda og líftækni og heilbrigðisþjónustu, felst einstakt tækifæri. Grunnforsendan er hinsvegar sú að uppbyggingin fari nokkurnvegin jafnhliða fram á svæðum við Háskóla Íslands við Suðurgötu, á Vísindagarðasvæðinu við Njarðargötu, með uppbyggingu nýs Háskólasjúkrahúss við Hringbraut, Hlíðarendasvæðinu og við Háskólann í Reykjavík við Öskjuhlíð. Þannig getur skapast öflugur kjarni í Vatnsmýrinni sem yrði vaxtarpóll framtíðaruppbyggingar atvinnu á Íslandi. Jafnframt gæti risið blönduð byggð á svæðinu sem myndi styrkja kjarnann enn frekar og gjörbreyta samgöngum og byggðarmynstri borgarinnar. Allt er þetta í samræmi við aðalskipulag Reykjavíkur og mikilvægur þáttur sem ekki má taka út fyrir sviga í umræðu um spítalann.

1+1 er ekki alltaf 2

Máttur borgarsamfélaga felst einna helst í nálægðinni því að afköst og sköpunargáfur fólks verða meiri í samfélagi við aðra sem hafa sömu verkefni og áskoranir til úrlausnar. Þar af leiðandi er summan af 1+1 stærri en 2 í öflugum borgarsamfélögum vegna þess hve hratt upplýsingar og þekking flæðir á milli fólks, sem skilar sér í aukinni framlegð og hagkvæmni hjá fyrirtækjum og stofnunum sem sem eru í nálægð við hvort annað í stað þess að standa ein og sér. Það er í þessari dýnamík sem framtíð nútímasamfélaga veltur að miklu leyti á og einmitt þess vegna má ekki líta framhjá þeim einstöku tækifærum sem felast í Vatnsmýri og hvergi annars staðar í borginni. 

Hvort að þessi sjónarmið eða skipulagsmál yfir höfuð eiga að ráða för við staðarval spítala skal ósagt látið, en ef svo er þá hefur núverandi staðsetning við Hringbraut marga ótvíræða kosti fram yfir aðra staði, að því gefnu að þar sé hægt að byggja háskólasjúkrahús sem sinnir hlutverki sínu á fullnægjandi hátt. 

2 responses
Þetta eru ágætar pælingar, en samt er niðurstaðan ekki rétt. Það sést á því að í nágrannalöndunum þar sem byggðir hafa verið spítalar á síðustu árum er meira um að þeir séu byggðir í friðsælu umhverfi þar sem er nægt rými en í miðjum miðbænjum. Að hafa bráðasjúkrahús í umferðaröngþveiti miðbæja með þeirri truflun sem fylgir er fráleitt, svo ekki sé meira sagt.
Góð umræða en í hana vantar aðal ástæðu þess að svona stórir spítlar eru ekki settir inn í miðborgir. Ástæðan er að svona stórir spítalar eru með allt innborðs og vinna í lokuð kerfi án raunverulega teninga við umhverfið.