Harmleikurinn á Bræðraborgarstíg 1 hefur vakið upp nauðsynlega umræðu um stöðu húsnæðismála á Íslandi. Sú umræða er ekki ný af nálinni og stendur raunar alltaf yfir en birtingarmyndin er misjöfn hverju sinni. Þannig virðist umræðan um ósamþykkt íbúðarhúsnæði reglulega leggjast í dvala en svo brýst hún aftur fram, oftar en ekki í kjölfarið á fjölmiðlaumfjöllunum um aðbúnað erlends verkafólks. Blessunarlega eru mannskæðir brunar fátíðir á Íslandi en þegar þeir gerast þá vekja þeir fólk réttilega til umhugsunar um stöðu húsnæðismála og brunavarna og hvaða félagshópar eru berskjaldaðastir fyrir ófullnægjandi aðbúnaði.
Hringekjan
Um allan heim er ósamþykkt íbúðarhúsnæði órjúfanlegur hluti af borgarsamfélögum. Það er einfaldlega staðreynd, hvort sem fólki líkar betur eða verr. Ástæðan er sú að stórir hópar fólks komast ekki inn inn á "löglega" húsnæðismarkaðinn vegna efnahagslegrar stöðu sinnar. Skortur á framboði eykur auðvitað enn frekar á þennan vanda og eina lausnin við honum er að byggja meira. Til að mæta þörfum hinna efnaminni er jafnframt gerð krafa um "hagkvæmt húsnæði" sem á að vera eins ódýrt og kostur er hverju sinni. Ein leið til að byggja "hagkvæmt húsnæði" er að ráða til verksins ódýrt vinnuafl, sem aftur þarf ódýrt húsnæði og þannig heldur hringekjan áfram. Til að byggja meira þarf fleira fólk og eftir því sem fólkinu fjölgar þarf meira húsnæði. Lífsgæði okkar eru að stóru leyti undir erlendu verkafólki komin þótt ekki sé gert ráð fyrir því í skipulags- og húsnæðisáætlunum.
Strangari viðurlög
Margir kalla eftir meira eftirliti og strangari viðurlögum við ólöglegri leigustarfsemi. Það eru réttmæt og skiljanleg sjónarmið en því miður eru allar líkur á að hert viðurlög í þessu efnum bitni helst á þeim sem verst skyldi. Það eru engar opinberar skrár fyrir ósamþykkt húsnæði og því oftar en ekki undir íbúunum sjálfum komið að tilkynna um ófullnægjandi hollustuhætti til að yfirvöld geti brugðist við. Þar bítur hinsvegar kerfið í skottið á sér því þeir sem búa við hvað verstar aðstæður eru einmitt þeir sem eru hvað mest hjálparvana. Þetta fólk vill síst af öllu auka enn á vanda sinn með því að óska eftir aðkomu opinbera aðila sem gæti leitt til þess að þeir endi uppi húsnæðislausir. M.ö.o. þá vill þetta fólk ekki greina frá stöðu sinni af ótta við að lenda í enn verri aðstæðum og yfirvöld vilja ekki grípa inn í því á endanum er það hlutverk þeirra að vernda þetta sama fólk frá því að lenda á götunni. Í slíkum tilvikum er auðvitað ekki við fólkið sjálft að sakast heldur leigusalana sem nýta sér neyð þess en svona er raunveruleikinn. Fyrir vikið eru svo gjarnan allir leigusalar ósamþykkts húsnæðis settir undir sama hatt og þeir kallaðir ótíndir glæpamenn, óháð því hvort að húsnæði þeirra uppfylli kröfur um brunavarnir eða hollustuhætti eða ekki. Slík umræða ýtir tæpast undir lausn vandans.
Birtingamynd raunveruleikans
Umræðan um húsnæðisvanda erlends verkafólks og hinna efnaminni endurspeglar á margan hátt flóknustu hliðar skipulags- og byggingarmála. Skipulagsáætlanir og landnotkunarskilmálar endurspegla oft ákveðna draumsýn sem byggir á fræðilegum kenningum og ítrustu kröfum um hið byggða umhverfi og hvernig við sjáum fyrir okkur samfélagið sem við búum við. Raunveruleikinn er hinsvegar oft annar. Bræðraborgarstígur 1-3 er ágætis dæmi um það. Leigustarfsemin í húsinu og fjöldi íbúa hefur verið öllum ljós í áraráðir og eigendur hússins hafa sótt um breytingar sem ríma að einhverju leyti við raunverulega notkun hússins. Þeim hefur hinsvegar verið synjað af yfirvöldum á grundvelli skipulagslaga. Sambærileg dæmi má finna um allt höfuðborgarsvæðið og því miður verður oft niðurstaðan sú að húsnæði sem fjöldi fólks býr í breytist hægt og sígandi í dauðagildrur því eigendur þess sjá ekki hag í því að fjárfesta í úrbótum í samræmi við raunverulega notkun húsnæðisins. Í sumum tilvikum gerist það fyrir allra augum líkt og á Bræðraborgarstígnum en mun oftar er um að ræða húsnæði í iðnaðarhverfum sem fáir eiga leið um í sínu daglega amstri.
Hvað er til ráða?
Skortur á yfirsýn er án efa eitt af stóru vandamálunum í tengslum við húsnæðisvanda almennt. Það á ekki síst við um ósamþykkt íbúðarhúsnæði en yfirsýnin þar er nánast engin. Slökkviliðið hefur um árabil freistað þess að kortleggja búsetu í ósamþykktu húsnæði á höfuðborgarsvæðinu, m.a. í iðnaðarhverfum. Aðferðafræðin byggir á því að farið er í vettvangsferðir þar sem litast er um eftir sorpi og gardínum eða ljósum í glugga seint um kvöld. Einnig er áætlaður fjöldi íbúa í ólöglegu húsnæði út frá því hversu margir voru skráðir með lögheimili í slíku húsnæði eða skráðir þar til heimilis á já.is. Eðli málsins samkvæmt eru skekkjumörkin á þessum könnunum veruleg og tölurnar í samræmi við það. Þá hefur gengið illa að höfða til ábyrgðar leigusala því með því að gera kröfur um úrbætur því þá er í raun verið að viðurkenna hina ólögmætu starfsemi. Það skilar sér í pattstöðu þar sem enginn bregst við beggja vegna borðsins.
Þennan vanda mætti ef til vill leysa með því að heimila leigusölum að upplýsa um ósamþykkt húsnæði, ástand þess og fjölda íbúa án þess að við því yrðu einhversskonar viðurlög. Þannig myndi skapast nauðsynleg yfirsýn og þessum aðilum gefin kostur á að að framkvæma nauðsynlegar úrbætur. Skref í þessa átt voru stigin í tillögum stjórnvalda um úrbætur á húsnæðismarkaði árið 2019. Í tillögu nr. 25 er kveðið á um íbúðarhúsnæði til skammtímanota og er hún svohljóðandi:
"Í skipulagslöggjöf verði skilgreint og heimilt að útbúa íbúðarhúsnæði til skammtímanota á athafnasvæðum og að enn fremur verði heimilt að reisa skammtímahúsnæði til að bregðast við tímabundnum vanda. Tilgangur slíkra heimilda er að vinna gegn búsetu í óviðunandi og ósamþykktu húsnæði, mæta þörf vegna tímabundinnar búsetu og vinna gegn heimilisleysi."
Þarna er stigið mikilvægt skref í að viðurkenna vandann sem er grunnforsenda þess að leysa hann. Stóra áskorunin er síðan að skapa hér samfélag þar sem að allar manneskjur hafa efni og kost á að búa í viðunandi og mannsæmandi húsnæði.