Lausar lóðir í Vesturbænum?

Árið 2006 var samþykkt deiliskipulag á reit sem markast af Meistaravöllum, Hringbraut, Víðimel og lóðarmörkum Meistaravalla 5-7. Austast á reitnum stendur gamalt hús (Víðimelur 80) en að öðru leiti er reiturinn opið svæði. Með deiliskipulagsbreytingunni árið 2006 var þessu svæði breytt í 4 flutningshúsalóðir undir hús sem nú standa við Hringbraut 116-118 og Vesturvallagötu 10-12. Þær lóðir eru báðar innan skólalóðar Vesturbæjarskóla og hafa því húsin tvö verið nýtt undir skólastarf á meðan þau bíða flutnings. Í deiliskipulagi frá 2008 á var kveðið á um að þau yrðu flutt á ofangreindar lóðir sunnan við Hringbraut og að lóðir þeirra yrðu sameinaðar núverandi lóð Vesturbæjar. 

Í síðustu viku dró loks til tíðinda í þessu máli þar sem tillaga Umhverfis- og skipulagssviðs um heimild til að rífa annað húsið var samþykkt með breytingu á deiliskipulagi skólalóðar Vesturbæjarskóla. Hinsvegar mun hitt húsið (Vesturvallagata 8) standa í ljósi þess að byggt hefur verið við það og það nýtt undir skólastarf Vesturbæjarskóla. Það var raunar samþykkt árið 2015. Í samþykktu tillögunni segir: 

"Ekki hefur tekist að losna við húsið við Hringbraut 116-118 til flutnings af lóðinni og snýst deiliskipulagsbreytingin því um að heimila niðurrif á því. Minjavernd var boðið húsið til flutnings en afþakkaði. Húsið var nýtt sem kennsluhúsnæði á árunum 2014-2018 vegna plássleysis í Vesturbæjarskóla en eftir að byggt var við skólann hefur húsið staðið autt. Aðstöðuleysi á skólalóð stendur skólanum fyrir þrifum og er því brýnt að húsið fari sem fyrst.
Þrátt fyrir að vera smátt í sniðum er þetta svolitið áhugavert mál fyrir enda ekki oft sem maður sér tvær sjálfstæðar deiliskipulagstillögur vera samhangandi ef svo má að orði komast. Þýðir breytingin á skipulagi skólalóðarinnar að skipulagið hinum megin við Hringbraut fellur sjálfkrafa úr gildi ef húsin sem átti að flytja eru annars vegar ekki að fara neitt og hinsvegar að enda í niðurrifi?