Á fundi borgarráðs í gær var lagt fram bréf skrifstofu eigna og atvinnuþróunar vegna viljayfirlýsingar milli Reykjavíkurborgar og Heklu hf. um uppbyggingar á lóðum ásamt drögum að viljayfirlýsingu, en vonir standa til að Hekla flytji starfsemi sína á á 24 þúsund fermetra lóð í Syðri-Mjódd. Þetta eru jákvæðar fréttir fyrir borgarbúa en við þennan flutning losnar um mikilvægan þéttingarreit sem er staðsettur við þróunarás núgildandi aðalskipulags. Þó svo að byggingarmagn liggi ekki fyrir að svo stöddu er ljóst að reiturinn ætti að rúma 100 íbúðir hið minnsta án þess að hafa íþyngjandi áhrif á aðliggjandi byggð.
Uppbygging á Heklureitnum svokallaða fangar að mörgu leyti hugtakið margumtalaða þétting byggðar vel en í því felst endurnýjun borgarinnar, þ.e. að byggja upp úr sér gengin og vannýtt svæði innan núverandi byggðar og bæta þar með borgarumhverfið.
Að því sögðu má ætla að flutningurinn mæti einhverjum mótbárum meðal íbúa Breiðholts og eflaust munu forsvarsmenn ÍR leggjast gegn því að umræddri lóð í Mjóddinni verði úthlutað undir atvinnustarfsemi af þessu tagi á þeim forsendum að verið sé að þrengja að starfsemi íþróttafélagsins. Á teikningunni sem sjá má hér að neðan er hinsvegar ljóst að um er að ræða svæði sem liggur nær alveg upp við Reykjanesbrautina með tilheyrandi ónæði og svifryksmengun sem varla fer vel saman við íþróttaiðkun. Slík skilyrði ættu hinsvegar að hafa lítil áhrif á starfsemi Heklu sem mun án nokkurs vafa sóma sér vel á þessum nýja stað við fjölfarna stofnbraut.
Að svo stöddu er ekki annað sjá en að hér sé um góða skipulagsákvörðun að ræða og vonandi mun áframhaldandi þróunarvinna milli borgarinnar og lóðarhafa ganga hratt og örugglega fyrir sig.