Lausar lóðir í Vesturbænum?

Árið 2006 var samþykkt deiliskipulag á reit sem markast af Meistaravöllum, Hringbraut, Víðimel og lóðarmörkum Meistaravalla 5-7. Austast á reitnum stendur gamalt hús (Víðimelur 80) en að öðru leiti er reiturinn opið svæði. Með deiliskipulagsbreytingunni árið 2006 var þessu svæði breytt í 4 flutningshúsalóðir undir hús sem nú standa við Hringbraut 116-118 og Vesturvallagötu 10-12. Þær lóðir eru báðar innan skólalóðar Vesturbæjarskóla og hafa því húsin tvö verið nýtt undir skólastarf á meðan þau bíða flutnings. Í deiliskipulagi frá 2008 á var kveðið á um að þau yrðu flutt á ofangreindar lóðir sunnan við Hringbraut og að lóðir þeirra yrðu sameinaðar núverandi lóð Vesturbæjar. 

Í síðustu viku dró loks til tíðinda í þessu máli þar sem tillaga Umhverfis- og skipulagssviðs um heimild til að rífa annað húsið var samþykkt með breytingu á deiliskipulagi skólalóðar Vesturbæjarskóla. Hinsvegar mun hitt húsið (Vesturvallagata 8) standa í ljósi þess að byggt hefur verið við það og það nýtt undir skólastarf Vesturbæjarskóla. Það var raunar samþykkt árið 2015. Í samþykktu tillögunni segir: 

"Ekki hefur tekist að losna við húsið við Hringbraut 116-118 til flutnings af lóðinni og snýst deiliskipulagsbreytingin því um að heimila niðurrif á því. Minjavernd var boðið húsið til flutnings en afþakkaði. Húsið var nýtt sem kennsluhúsnæði á árunum 2014-2018 vegna plássleysis í Vesturbæjarskóla en eftir að byggt var við skólann hefur húsið staðið autt. Aðstöðuleysi á skólalóð stendur skólanum fyrir þrifum og er því brýnt að húsið fari sem fyrst.
Þrátt fyrir að vera smátt í sniðum er þetta svolitið áhugavert mál fyrir enda ekki oft sem maður sér tvær sjálfstæðar deiliskipulagstillögur vera samhangandi ef svo má að orði komast. Þýðir breytingin á skipulagi skólalóðarinnar að skipulagið hinum megin við Hringbraut fellur sjálfkrafa úr gildi ef húsin sem átti að flytja eru annars vegar ekki að fara neitt og hinsvegar að enda í niðurrifi?

Lind/línbergsreitur

Það dró heldur betur til tíðinda á Grandanum í nýliðinni viku þegar Skipulags- og samgönguráð Reykjavíkur samþykkti að auglýsa nýtt deiliskipulag fyrir svokallaðan Línbergsreit á Örfirisey. Reiturinn á sér nokkuð langa sögu og því markar þetta skipulag viss tímamót. Núverandi eigandi lóðanna sem um ræðir er félagið Línberg ehf. en áður voru þeir í eigu félagsins Lindberg ehf. Ég veit ekki til þess að það séu nein tengsl á milli félaganna önnur en að nöfnin eru keimlík. 

Burtséð frá nafninu varð reiturinn til þegar Lindberg ehf. stóð fyrir miklum uppkaupum á svæðinu fyrir hrun með það fyrir augum að þar myndi rísa íbúðabyggð. Slíkar hugmyndir hafa hinsvegar aldrei hlotið náð fyrir augum Faxaflóahafna og ráðandi afla í skipulagsmálum borgarinnar. Raunar má segja að flestar uppbyggingahugmyndir sem þarna hafa komið fram hafi verið umdeildar, einkum og sér í lagi á þeim forsendum að þær vegi að hafnsækinni starfsemi á svæðinu. Íbúðahugmyndirnar voru hinsvegar metnaðarfullar og var m.a. hin virta arkitektastofa Studio Granda fengin til að útfæra blandaða byggð á svæðinu, þá fyrir fjárfestingabankann Straum. 

Örlög Lindberg ehf. og þeirra hugmynda á svæðinu urðu hinsvegar þau sömu og margra annarra félaga sem stóðu í stórræðum fyrir hrun og enduðu uppi hjá slitastjórnum í eignasöfnum föllnu bankanna. Áfram var þó leitast við að hefja uppbyggingu á svæðinu en segja má að þær umleitanir hafi endanlega verið slegnar útaf borðinu með nýju deiliskipulagi sem samþykkt var árið 2015. Meginmarkmið deiliskipulagsins var að festa í gildi fyrri landnotkunarstefnu Örfiriseyjar og mætti tillagana talsverðri andspyrnu eigenda lóða á svæðinu. Höfðu þeir meðal annars eftirfarandi að orði í athugasemdum við tillöguna:

Að leggja fram jafn metnaðarlausar tillögur og raun ber vitni veldur miklum vonbrigðum svo ekki sé talað um samráðsleysið, ... Í tillögunum vottar ekki fyrir framtíðarsýn um uppbyggingu á svæðinu, þvert á móti torvelda þær alla byggðaþróun,“

Í síðustu kosningum blés síðan Sjálfstæðisflokkurinn lífi í hugmyndir um allt að 4000 manna bíllalausa íbúðabyggð á Grandanum. Þær hugmyndir voru býsna metnaðarfullar en mættu harðri andstöðu pólitískra andstæðinga flokksins. 

Í nýju deiliskipulagstillögunni sem m.a. má sjá efst í færslunni er m.a. gert ráð fyrir uþb. 40.000 fermetrum af nýju atvinnnuhúsnæði, stóru bílastæðahúsi og að starfsemi á svæðinu verði breytt úr "Hafnsækin starfsemi/athafnasvæði (HAT)" í "Hafnsækna starfsemi, verslun, þjónusta og fínlegri atvinnustarfsemi (HÞV)". Markmiðið með breytingunni er sagt vera að víkka út og auka við fjölbreytni á svæðinu, m.a. með tilkomu skrifstofubygginga inn á svæðið sem geta meðal annars hýst uppbyggingu og þróun á starfsemi tengdri tækni og þróun íslensks sjávarútvegs, aukna menningarstarfsemi og nýtingu svæða til viðburða í tengslum við ýmisskonar hátíðarhöld. Samkvæmt Aðalskipulagi Reykjavíkur 2010-2030 er ekki gert ráð fyrir stórverslunum á hafnarsvæðinu, en heimilt er að starfrækja minni dagvöruverslanir s.s. bakarí, fiskbúðir og aðrar fiskvöruverslandir. Ekki er heimilt að reka hótel eða byggja íbúðir á svæðinu. 

Fróðlegt verður að fylgjast með framvindu skipulagstillögunnar eftir að lögbundnum kynningarfresti lýkur. Eftir stendur þá stóra spurningin sem markaðurinn einn getur svarað: 

Er eftirspurn eftir 40.000 fermetrum af nýju atvinnuhúsnæði á þessum stað?

112

Framkvæmdasýslan fyrir hönd Ríkiskaupa hefur að undanförnu birt heilsíðuauglýsingar í dagblöðum þar sem "óskað er eftir upplýsingum um mögulegar lóðir, staðsetningar, húsnæði og tækifærum á samstarfi á markaði". Ástæðan er sú að uppi eru áform um að koma upp sérhæfðu húsnæði fyrir löggæslu og viðbragðsaðila á höfuðborgarsvæðinu og markmiðið með könnuninni er að kanna framboð á lóðum sem sem geta uppfyllt þarfir verkefnisins. Kröfurnar til viðkomandi lóðar eru eftirfarandi:

  1. Lóðin verður að liggja miðsvæðis á höfuðborgarsvæðinu.

  2. Staðsetning gefi sem stystan viðbragðstíma frá Alþingisreit.

  3. Útakstur af lóð sé aðgengilegur inn á stofnbrautir og nokkrar leiðir séu af lóðinni.

  4. Nálægð við almenningssamgöngur (borgarlínu), göngu- og hjólaleiðir.

Krafan um staðsetningu sem gefur hvað stystan viðbragðstíma frá Alþingisreit setur könnuninni nokkuð þröngar skorður, einkum ef leita á eftir "tækifærum á samstarfi á markaði". Þ.e. ekki nýta ríkislóðir og/eða borgarland á borð við Vatnsmýrina. 

Eitt svæði sem kemur sterklega til greina er Laugarnesið en þar á verktakafyrirtækið Þingvangur stórar lóðir við Köllunarklettsveg og Héðinsgötu sem virðast í fljótu bragði uppfylla ofangreind skilyrði. Lóðin komst síðast í fréttirnar árið 2017 en þá voru kynnt stórtæk áform um 200 þúsund fer­metra hverfi á lóðunum. Þeim áformum var síðar sópað út af borðinu með breytingu á Aðalskipulagi Reykjavíkur þar sem heimildir um íbúðarhúsnæði á svæðinu voru alfarið felldar út. Í skiptum var leyfilegt byggingarmagn atvinnuhúsnæðis aukið og því ljóst að svæðið hentar vel undir ofangreinda starfsemi. 

*Teikningarnar á myndinni hér fyrir ofan eru eftir ​Arkþing/​Nordic arki­tekt­a

Illviðráðanlegur vandi

Harmleikurinn á Bræðraborgarstíg 1 hefur vakið upp nauðsynlega umræðu um stöðu húsnæðismála á Íslandi. Sú umræða er ekki ný af nálinni og stendur raunar alltaf yfir en birtingarmyndin er misjöfn hverju sinni. Þannig virðist umræðan um ósamþykkt íbúðarhúsnæði reglulega leggjast í dvala en svo brýst hún aftur fram, oftar en ekki í kjölfarið á fjölmiðlaumfjöllunum um aðbúnað erlends verkafólks. Blessunarlega eru mannskæðir brunar fátíðir á Íslandi en þegar þeir gerast þá vekja þeir fólk réttilega til umhugsunar um stöðu húsnæðismála og brunavarna og hvaða félagshópar eru berskjaldaðastir fyrir ófullnægjandi aðbúnaði. 

Hringekjan

Um allan heim er ósamþykkt íbúðarhúsnæði órjúfanlegur hluti af borgarsamfélögum. Það er einfaldlega staðreynd, hvort sem fólki líkar betur eða verr. Ástæðan er sú að stórir hópar fólks komast ekki inn inn á "löglega" húsnæðismarkaðinn vegna efnahagslegrar stöðu sinnar. Skortur á framboði eykur auðvitað enn frekar á þennan vanda og eina lausnin við honum er að byggja meira. Til að mæta þörfum hinna efnaminni er jafnframt gerð krafa um "hagkvæmt húsnæði" sem á að vera eins ódýrt og kostur er hverju sinni. Ein leið til að byggja "hagkvæmt húsnæði" er að ráða til verksins ódýrt vinnuafl, sem aftur þarf ódýrt húsnæði og þannig heldur hringekjan áfram. Til að byggja meira þarf fleira fólk og eftir því sem fólkinu fjölgar þarf meira húsnæði. Lífsgæði okkar eru að stóru leyti undir erlendu verkafólki komin þótt ekki sé gert ráð fyrir því í skipulags- og húsnæðisáætlunum. 

Strangari viðurlög

Margir kalla eftir meira eftirliti og strangari viðurlögum við ólöglegri leigustarfsemi. Það eru réttmæt og skiljanleg sjónarmið en því miður eru allar líkur á að hert viðurlög í þessu efnum bitni helst á þeim sem verst skyldi. Það eru engar opinberar skrár fyrir ósamþykkt húsnæði og því oftar en ekki undir íbúunum sjálfum komið að tilkynna um ófullnægjandi hollustuhætti til að yfirvöld geti brugðist við. Þar bítur hinsvegar kerfið í skottið á sér því þeir sem búa við hvað verstar aðstæður eru einmitt þeir sem eru hvað mest hjálparvana. Þetta fólk vill síst af öllu auka enn á vanda sinn með því að óska eftir aðkomu opinbera aðila sem gæti leitt til þess að þeir endi uppi húsnæðislausir. M.ö.o. þá vill þetta fólk ekki greina frá stöðu sinni af ótta við að lenda í enn verri aðstæðum og yfirvöld vilja ekki grípa inn í því á endanum er það hlutverk þeirra að vernda þetta sama fólk frá því að lenda á götunni. Í slíkum tilvikum er auðvitað ekki við fólkið sjálft að sakast heldur leigusalana sem nýta sér neyð þess en svona er raunveruleikinn. Fyrir vikið eru svo gjarnan allir leigusalar ósamþykkts húsnæðis settir undir sama hatt og þeir kallaðir ótíndir glæpamenn, óháð því hvort að húsnæði þeirra uppfylli kröfur um brunavarnir eða hollustuhætti eða ekki. Slík umræða ýtir tæpast undir lausn vandans. 

Birtingamynd raunveruleikans 

Umræðan um húsnæðisvanda erlends verkafólks og hinna efnaminni endurspeglar á margan hátt flóknustu hliðar skipulags- og byggingarmála. Skipulagsáætlanir og landnotkunarskilmálar endurspegla oft ákveðna draumsýn sem byggir á fræðilegum kenningum og ítrustu kröfum um hið byggða umhverfi og hvernig við sjáum fyrir okkur samfélagið sem við búum við. Raunveruleikinn er hinsvegar oft annar. Bræðraborgarstígur 1-3 er ágætis dæmi um það. Leigustarfsemin í húsinu og fjöldi íbúa hefur verið öllum ljós í áraráðir og eigendur hússins hafa sótt um breytingar sem ríma að einhverju leyti við raunverulega notkun hússins. Þeim hefur hinsvegar verið synjað af yfirvöldum á grundvelli skipulagslaga. Sambærileg dæmi má finna um allt höfuðborgarsvæðið og því miður verður oft niðurstaðan sú að húsnæði sem fjöldi fólks býr í breytist hægt og sígandi í dauðagildrur því eigendur þess sjá ekki hag í því að fjárfesta í úrbótum í samræmi við raunverulega notkun húsnæðisins. Í sumum tilvikum gerist það fyrir allra augum líkt og á Bræðraborgarstígnum en mun oftar er um að ræða húsnæði í iðnaðarhverfum sem fáir eiga leið um í sínu daglega amstri. 

Hvað er til ráða?

Skortur á yfirsýn er án efa eitt af stóru vandamálunum í tengslum við húsnæðisvanda almennt. Það á ekki síst við um ósamþykkt íbúðarhúsnæði en yfirsýnin þar er nánast engin. Slökkviliðið hefur um árabil freistað þess að kortleggja búsetu í ósamþykktu húsnæði á höfuðborgarsvæðinu, m.a. í iðnaðarhverfum. Aðferðafræðin byggir á því að farið er í vettvangsferðir þar sem litast er um eftir sorpi og gardínum eða ljósum í glugga seint um kvöld. Einnig er áætlaður fjöldi íbúa í ólöglegu húsnæði út frá því hversu margir voru skráðir með lögheimili í slíku húsnæði eða skráðir þar til heimilis á já.is. Eðli málsins samkvæmt eru skekkjumörkin á þessum könnunum veruleg og tölurnar í samræmi við það. Þá hefur gengið illa að höfða til ábyrgðar leigusala því með því að gera kröfur um úrbætur því þá er í raun verið að viðurkenna hina ólögmætu starfsemi. Það skilar sér í pattstöðu þar sem enginn bregst við beggja vegna borðsins. 

Þennan vanda mætti ef til vill leysa með því að heimila leigusölum að upplýsa um ósamþykkt húsnæði, ástand þess og fjölda íbúa án þess að við því yrðu einhversskonar viðurlög. Þannig myndi skapast nauðsynleg yfirsýn og þessum aðilum gefin kostur á að að framkvæma nauðsynlegar úrbætur. Skref í þessa átt voru stigin í tillögum stjórnvalda um úrbætur á húsnæðismarkaði árið 2019. Í tillögu nr. 25 er kveðið á um íbúðarhúsnæði til skammtímanota og er hún svohljóðandi:

"Í skipulagslöggjöf verði skilgreint og heimilt að útbúa íbúðarhúsnæði til skammtímanota á athafnasvæðum og að enn fremur verði heimilt að reisa skammtímahúsnæði til að bregðast við tímabundnum vanda. Tilgangur slíkra heimilda er að vinna gegn búsetu í óviðunandi og ósamþykktu húsnæði, mæta þörf vegna tímabundinnar búsetu og vinna gegn heimilisleysi."

Þarna er stigið mikilvægt skref í að viðurkenna vandann sem er grunnforsenda þess að leysa hann. Stóra áskorunin er síðan að skapa hér samfélag þar sem að allar manneskjur hafa efni og kost á að búa í viðunandi og mannsæmandi húsnæði. 


Botnlaus hít

Þeim sem finna Borgarlínuverkefninu hvað mest til foráttu finnst af einhverjum ástæðum gott að gagnrýna verkefnið undir nafnleynd. Ein slík skrif birtust í dag í "Innherja" dálki Viðskiptamoggans. Í pistlinum sem ber heitið "Öllu má snúa á haus" segir m.a. 

"Það þurfti félagshagfræðilega greiningu til þess að fá það út að Borgarlína myndi einhvern tíma borga sig. Allar aðrar hagfræðilegar greiningar myndu að sjálfsögðu benda til að línan sú verði botnlaus hít sem skattgreiðendur muni moka í af veikum mætti. Þar mun aldrei sjást til botns og stjórnmálamennirnir sem ýttu málinu úr vör þrátt fyrir varnaðarorð munu heldur aldrei komast til botns í því af hverju félagshagfræðilega greiningin gekk ekki upp"

Í íslenskri nútímamálsorðabók er hugtakið botnlaus hít skilgreint sem "eitthvað sem tekur endalaust við". Hugtakið á ágætlega við um rekstur samfélaga almennt, algjörlega óháð því hvaða leiðir eru farnar. Það tekur alltaf eitthvað nýtt við í öllum opinberum rekstri. Innviðum þarf að halda við og það þarf stöðugt að bregðast við breyttum aðstæðum og fjárfesta í nýjum lausnum. Í umræðunni um Borgarlínu er hollt að hafa þetta í huga og segja má að Innherjinn hitti naglann á höfuðið með titlinum á pistli dagsins. 

Það er nefnilega nauðsynlegt í allri umræðu um samgöngu- og skipulagsmál að vega og meta alla valkosti og snúa öllu á haus inn á milli. Ef sömu fjárhæðum og til stendur að veita til Borgarlínuverkefnisins yrði veitt í að þenja út núverandi samgöngukerfi hver yrði ávinningurinn? Mun fólk komast hraðar á milli staða með minni umhverfisáhrifum? Verður höfuðborgarsvæðið meira eða minna samkeppnishæft miðað við önnur höfuðborgarsvæði á Norðurlöndunum með slíku samgöngukerfi? Verður byggðaþróun hagstæð í kringum slíkt kerfi eða þurfum við að brjóta nýtt land til að mæta fólksfjölgun?  

Þetta einfalda en á sama tíma flókna verkefni að koma fólki á milli staða er í eðli sínu botnlaus hít. Tilgangurinn helgar hinsvegar meðalið. Þetta vita auðvitað eigendur Morgunblaðsins manna best. 


Best heppnaða neyslustýring Íslandssögunnar?

Í umræðu um samgönguáætlun á dögunum komst formaður Miðflokksins svo að orði um Borgarlínuna:

"Eitt af markmiðunum er einfaldlega að þrengja að umferðinni, þrengja að annarri umferð. Taka eina akrein í hvora átt undir Borgarlínuna, þannig að það sé þrengt að annarri umferð og fólk hreinlega neyðist til að nýta sér Borgarlínuna. Þetta er með öðrum orðum neyslustýring. Mjög sérkennilegt að sjá, sérstaklega Sjálfstæðisflokkinn, beita sér fyrir eins grófri neyslustýringu sem í þessu felst."

Segja má að þarna hafi Sigmundur Davíð hitt naglann á höfuðið því samgöngumál, líkt og skipulagsmál almennt eru alltaf einhversskonar blanda af neyslu- og miðstýringu. Það veit Sigmundur ef til vill manna best því sem forsætisráðherra lét hann töluvert til sín taka í skipulagsmálum. T.d. beitti hann sér eftirminnilega fyrir því að Minjastofnun skyndifriðaði hafnargarð í miðbænum. Í fjárlagafrumvarpi ríkisstjórnar hans fyrir árið 2016 var samþykkt að veita 75 milljónum króna til undirbúnings vegna umdeildrar viðbyggingu Alþingis með þeim skilyrðum að undirbúningurinn ætti að hafa hliðsjón af þeim áformum sem uppi voru um uppbyggingu á Alþingisreitnum fullveldisárið 1918 „sbr. fyrirliggjandi teikningar Guðjóns Samúelssonar fyrrverandi húsameistara ríkisins". Þá vakti það mikla athygli þegar tölvugerð mynd af teikningum Guðjóns prýddi jólakort Sigmundar það sama ár og var myndin einnig hluti af áramótakveðju ráðherrans á Facebook-síðu hans. Loks má ekki gleyma frumvarpi hans til laga um verndarsvæði í byggð sem var samþykkt þrátt fyrir hávær mótmæli fjölmargra hagsmunaaðila. Samkvæmt lögunum getur forsætisráðherra hverju sinni gert tiltekna byggð að verndarsvæði og þannig tekið framfyrir hendurnar á lýðræðislega kjörnum sveitarstjórnum í skipulagsmálum. Þá eru ótaldar ótal greinar og skrif Sigmundar þar sem hann lýsir sýn sinni á skipulagsmálin og hvernig sé best að stýra þeim. 

En ef Borgarlínan er "gróf neyslustýring" hvað er þá núverandi samöngukerfi sem samanstendur af tugmilljarða fjárfestingum í hefðbundnu gatnakerfi yfir margra áratugaskeið sem þekur nánast helming alls borgarlands í Reykjavík? 

Bílaeign landsmanna svarar líklega þeirri spurningu best en hún hefur aldrei verið meiri. Það ætti því að vera óhætt að kalla núverandi samgöngukerfi vel heppnaða neyslustýringu. Raunar er hún svo vel heppnuð að í árslok 2018 áttu landsmenn bifreiðir og ökutæki sem metin voru á 312 milljarða króna.  

Oft var þörf en nú er nauðsyn

Húsnæðismál á höfðuborgarsvæðinu hafa verið í brennidepli að undanförnu. Ástæðurnar fyrir erfiðri stöðu á markaðnum eru auðvitað margflóknar en flest spjót að beinast að borgaryfirvöldum í Reykjavík og núgildandi aðalskipulagi. Orð á borð við lóðaskortsstefna eru notuð og háværar raddir eru uppi um að hverfa á ný til ríkjandi skipulagsstefnu síðustu áratuga og þenja byggðina enn frekar út. 

Sjaldan ef nokkurn tímann hefur verið ríkari ástæða til að standa í lappirnar og halda sig við samþykktar skipulagsáætlanir þótt það sé dýrt, erfitt og sársaukafullt á akkúrat þessum tímapunkti. Eftir áratuga óráðssíu í skipulagi borgarinnar horfir loks til betri vegar og við eigum að styðja við bakið á þeim sem standa í ströngu við að bjarga þessari borg frá því að verða eitt risastórt og ósamkeppnishæft úthverfi að Norður-Amerískri fyrirmynd. Að snúa skipinu við bitnar vissulega á þeirri kynslóð sem núna þarf að búa óhóflega lengi í foreldrahúsum  en kynslóðirnar sem á eftir koma munu þakka þeim. Fórnarkostnaðurinn er fullkomlega þess virði og hann mun greiða götur þess að hér vilji ungt fólk búa, sem getur valið sér búsetu hvar sem er í heiminum. Meirihluti mannkyns, hvort sem okkur líkar það betur eða verr, vill nefnilega búa í vel skipulögðu borgarumhverfi. 

Að þessu sögðu má að sjálfsögðu slá hressilega í klárinn og reyna að hraða uppbyggingu á þeim sem svæðum sem bíða þess að iða af mannlífi, laus við loftmengun og bílaumferð. Það er því kærkomið að heyra af nýjasta útspili Þorsteins Víglundssonar. Það er ekki annað að sjá en að þarna sé talað af skilningi og skynsemi um stöðuna sem er uppi og fókusinn settur á rót vandans en Þorsteinn segir: 

„... ef það eigi að leggja svona mikla áherslu á þéttingu byggðar, sem sé á allan hátt skynsamleg aðgerð út frá landnýtingu, umhverfislegu samhengi og skemmtilegri borgarbrag, þá verði að einfalda ferlið í kringum þéttingarverkefnin. Í dag eru þau of tímafrek. Þau taka fleiri fleiri ár. Svo er sjálfstætt vandamál að það sé verið að selja reitina á milli manna áður en það er byggt á þeim. Það mætti alveg skoða hvort það eigi að vera byggingarkvaðir á þessum reitum. Að það verði að hefja framkvæmdir innan tilskilins tíma að því gefnu að öll leyfi séu fyrir hendi þannig að menn geti ekki bara verið að leika leikinn að bíða með verkefnið á teikniborðinu, bíða eftir að verðið hækki og selja það svo einhverjum öðrum sem ætlar að leika sama leikinn.“

Það er kærkomið að heyra ráðherra tala með þessum hætti í stað þess að hjóla í vel ígrundaðar og rökstuddar skipulagsáætlanir borgarinnar og slá þær útaf borðinu með ábyrgðarlausum hugmyndum um einfaldar lausnir við flóknum vanda. 


Hlandblautir skór í boði Samtaka iðnaðarins

Ekki alls fyrir löngu birtist stutt grein um húsnæðismál í Fréttablaðinu þar sem afar misvísandi fullyrðingum var haldið á lofti um byggingarkostnað af framkvæmdastjóra Samtaka iðnaðarins (SI). Í greininni segir orðrétt: 

Á síðustu árum hefur um og yfir 30% af nýju húsnæði verið í útjaðri byggðar á höfuðborgarsvæðinu. Hins vegar er vaxandi áhersla á þéttingu byggðar og mikill meirihluti byggingarverkefna á næstu misserum verður inni í miðju þéttbýli. Það kann að hafa ýmsa kosti í för með sér. Það vinnur hins vegar gegn hinu mikilvæga markmiði um að lækka byggingarkostnað enda er mun ódýrara að byggja uppi í jaðri byggðar.

Stuttu seinna steig aðstoðarframkvæmdastjóri SI fram í kvöldfréttum RÚV og fullyrti að auka þurfi framboð á "ódýrum lóðum" utan skilgreindra þéttingarreita. Til að fullkomna þrennuna birtist síðan aðalhagfræðingur samtakanna í viðtali við Fréttablaðið  og sagði  

„Fókusinn á höfuðborgarsvæðinu hefur verið að þétta byggð. Það eru ákveðnir kostir við það. Hins vegar samrýmist það illa hugmyndum um að reyna að ná niður byggingakostnaði og kostnaði við húsnæði,“. 

Af öllum þessum ummælum má hæglega draga þá ályktun að SI séu í einhverskonar skipulagðri herför gegn gildandi skipulagsáætlunum á höfuðborgarsvæðinu sem miða allar að þéttingu byggðar. Að þéttingaráformin séu lítið annað en sprikl sem skynsömu mennirnir þurfi að binda enda á. Samtökin eru með öðrum orðum að krefjast afturhvarfs til fortíðar í skipulagsmálum, þvert á ríkjandi stefnur nær allra þróaðra borga í heiminum í dag. 

Ekki tískufyrirbrigði

Þó svo að samtök og ýmsir þrýstihópar á borð við SI tali um þéttingu byggðar líkt og um sé að ræða óraunhæft tískufyrirbrigði sem „kunni að hafa ýmsa kosti í för með sér“ er veruleikinn allt annar. Þvert á móti er þétting byggðar eitt verkfæri af mörgum sem ætlað er að leysa þann grafalvarlega vanda sem samfélög manna standa frammi fyrir vegna óheftrar útþenslu byggðar síðustu áratugi. Það hefur nefnilega komið á daginn að allt ódýra húsnæðið sem búið er að byggja á öllum ódýru lóðunum er í raun rándýrt og lífshættulegt. Ódýrara fasteignaverð í úthverfum segir einungis hálfa söguna og það er með ólíkindum að jafn stór samtök og SI skuli standa fyrir öðrum eins einföldunum og raun ber vitni. 

Tölum um raunkostnað

Fasteignaverð og byggingarkostnaður eru stærðir sem tiltölulega auðvelt er að ná utan um. Uppbygging innviða á borð við lagna- og veitukerfi, umferðarmannvirki, göngu- og hjólastíga er líka eitthvað sem meginþorri fólks skilur en hefur þó minni tilfinningu fyrir enda hlaupa upphæðirnar á milljörðum. Loftmengun, svifryksmengun, loftlagsbreytingar, og versnandi lýðheilsa er síðan bleiki fíllinn í herberginu sem fæstir vilja raunverulega tækla þó svo að þá fyrst séum við farin að tala um afleiddan kostnað sem hleypur á tugum milljarða. Allt er þetta kostnaður og vandamál sem aukast með auknu framboði á ódýru húsnæði á ódýrum lóðum. Raunkostnaðurinn við skammtímalausnir á borð við þær sem SI eru að bjóða neytendum upp á er lítið annað en óútfylltur tékki sem kynslóðir framtíðarinnar þurfa að borga dýrum dómum. 

Í millitíðinni er það auðvitað iðnaðurinn og atvinnulífið sem blæðir, með stóran hluta vinnuaflsins fastan í umferðarteppum, veikan heima vegna óheilbrigðs lífstíls og kyrrsetu eða liggjandi inn á opinberum heilbrigðisstofnunum vegna lífsstílstengdra sjúkdóma. Allt eru þetta vel þekktar afleiðingar óhagkvæms og óheilbrigðs borgarumhverfis. 

Rót vandans  

Auðvitað er það rétt að eftir því sem að land verður takmarkaðri auðlind þá hækkar lóðaverð. Það sem hækkar verðið hinsvegar ennþá meira eru innbyggðir hvatar í kerfinu sem hvetja m.a. til spákaupmennsku með lóðir sem hækkar verð fram úr hófi. Eitt lítið dæmi um þetta er t.d. Barónsreiturinn í Reykjavík, en í fljótu bragði virðist sá reitur hafa skipt um eignarhald fimm til sex sinnum á síðustu 5 árum. Í hvert skipti hækkar verðmiðinn og þrýstingurinn á aukið byggingarmagn og breytt skipulag eykst eðli málsins samkvæmt með hverri sölu. Ekkert bólar hinsvegar á byggingaframkvæmdunum sjálfum. Þetta á við um fjölmargar aðrar lóðir í bænum þar sem samþykkt skipulag liggur fyrir en lóðarhafarnir bíða og bíða á meðan eftirspurnin eftir húsnæði eykst og svo selja þeir til einhvers sem er enn áhættusæknari og ætlar ýmist að bíða enn lengur eða freista þess að fá nýtt skipulag samþykkt með auknum byggingaheimildum. Allt er þetta auðvitað úthugsað af greiningaraðilum sem markvisst halda aftur af framboðinu til að auka enn frekar eftirspurnina. Vandinn er ekki skortur á lóðum innan vaxtarmarka borgarinnar heldur miklu frekar sá að aðilarnir sem eiga lóðirnar eru ekki og ætla sér ekki að byggja á þeim. 

Til viðbótar má auðvitað nefna of flókið regluverk, hátt vaxtastig, vont lánakerfi, og skammtímaleigu húsnæðis til ferðamanna, allt hlutir sem SI og fleiri hafa ítrekað nefnt að þurfi að einfalda og breyta til að bæta ástandið á húsnæðismarkaðnum. 

Hvað er til ráða? 

Einfaldar skammtímalausnir við jafn flóknum vanda og við er að etja í húsnæðismálum eru ekki líklegar til árangurs og umræðan verður að færast á ábyrgara plan en að halda því fram að frekari útþensla byggðar sé ódýr eða hagkvæm á einhvern hátt. Það er einfaldlega rangt. Beinum sjónum okkar frekar að kerfinu og búum til hvata fyrir fjárfesta og lóðarhafa til að byrja að byggja og láta af spákaupmennsku með lóðir og íbúðarhúsnæði. Styttum gildistíma deiliskipulagsáætlana og byggingarleyfa og veltum upp hvaða leiðir eru færar til að takmarka heimildir fasteignafélaga til að söðla undir sig mörg hundruð íbúða eignasöfn sem aldrei rata inn á almennan leigumarkað. 

Það sem er til ráða er að standa í lappirnar og byggja upp hagkvæma, heilbrigða og umhverfisvæna borg í samræmi við löngu tímabærar skipulagsáætlanir sem loksins hafa tekið gildi. Það tekur tíma og kostar peninga en er engu að síður eina rétta leiðin. Pissum ekki enn eina ferðina í skóna okkar með því að brjóta nýtt land í jaðri byggðar og senda reikninginn á komandi kynslóðir. 



1+1=3

Umræðan um nýjan landspítala og staðsetningu hans sprettur reglulega upp og eins og gengur og gerist í umræðu um stóra málaflokka á borð við heilbrigðis- og skipulagsmál þá skipar fólk sér í flokka, með eða á móti, tilteknum ákvörðunum. Stórar skipulagsákvarðanir eru þess eðlis að þær verða alltaf (og eiga að vera) umdeildar. Í tilfelli Landspítalans er ljóst að enginn staðsetning er fullkomin og þar er Hringbraut að sjálfsögðu enginn undantekning. Þegar rætt er um nýja staðsetningu á umræðan hinsvegar til að snúast upp í að gallar núverandi staðsetningar eru tíundaðir og kostir annarra staða upphafðir líkt og þeir séu gallalausir. Eðli málsins samkvæmt veldur þetta ruglingi og myndar óþarfa skotgrafir. Þetta á auðvitað við um flestar aðrar rökræður þar sem röksemdir eru valdar eftir þörfum hverju sinni 

Hvað á heima miðsvæðis?

Vegna þess hve litla þekkingu ég hef á rekstri og hönnun spítala (sem þó er væntanlega aðalatriðið í stóra spítalamálinu) þá snúa mínar hugleiðingar varðandi þetta mál eingöngu að skipulagsmálum en þar liggja einmitt margar röksemdir þeirra sem hafa efasemdir um staðsetningu spítalans við Hringbraut. Stærsti samnefnarinn í skipulagsmálum er yfirleitt umferðar- og bílastæðamál og á þeim forsendum er auðvelt að færa rök fyrir því að Hringbraut sé vonlaus kostur vegna umferðarálags á Hringbraut, einkum og sér í lagi við flöskuhálsinn sem myndast þar sem nýja Hringbrautin mætir þeirri gömlu. Þetta eru hlutir sem flestir tengja við og hafa þar af leiðandi réttmætar skoðanir á. 

Ég tel hinsvegar að líta þurfi á þetta mál í mun víðara samhengi og horfa á miðbæinn og aðliggjandi miðsvæði í heild. Spurningin sem við þurfum að spyrja okkur að er hvernig miðborg við stöndum frammi fyrir ef stærsti vinnustaður landsins fer og í staðinn koma íbúðir og hótel? Viljum við að miðborgin sem atvinnusvæði verði enn einsleitari en hún er nú þegar, eða felast tækifæri í því að tryggja í sessi stóra og fjölbreytta vinnustaði sem draga að allskonar fólk í miðbæinn en ekki bara ferðamenn, starfsmenn ráðuneyta og stjórnmálafólk? 

Margir taka andköf yfir fyrirhuguðu byggingarmagni spítalans við Hringbraut en á móti þurfum við að spyrja okkur hvaða byggingar mega taka meira pláss en aðrar í þéttri byggð. Eru það bara fjármálastofnanir og háskólar en ekki spítalar? (Talandi um fjármálstofnanir og háskóla þá er reyndar ekki langt síðan að uppbyggingaráform Landsbankans við Austurhöfn voru gagnrýnd harðlega og nú er ljóst að Listháskóli Íslands mun ekki rísa á Frakkastígsreit þrátt fyrir mjög spennandi áætlanir þar um.) Fyrir vikið snýr nær öll uppbygging í miðbænum að túrisma, hvort sem um ræðir hótel eða íbúðarhús, sem flest enda í skammtímaleigu til ferðamanna þrátt fyrir fögur fyrirheit um annað. 

Þetta á hinsvegar ekki við um Vatnsmýrina, en út frá borgarskipulagi gegnir svæðið lykilhlutverki í tengslum við fyrirhugaða uppbyggingu nýs spítala við Hringbraut. 

Vaxtapóll í Vatnsmýri

Með þróun atvinnusvæðis í Vatnsmýri og nágrennis, þar sem lögð er höfuðáhersla á uppbyggingu og þróun háskóla og rannsóknastarfsemi, fyrirtækja og stofnana á sviði hátækni og nýsköpunar, heil­brigðisvísinda og líftækni og heilbrigðisþjónustu, felst einstakt tækifæri. Grunnforsendan er hinsvegar sú að uppbyggingin fari nokkurnvegin jafnhliða fram á svæðum við Háskóla Íslands við Suðurgötu, á Vísindagarðasvæðinu við Njarðargötu, með uppbyggingu nýs Háskólasjúkrahúss við Hringbraut, Hlíðarendasvæðinu og við Háskólann í Reykjavík við Öskjuhlíð. Þannig getur skapast öflugur kjarni í Vatnsmýrinni sem yrði vaxtarpóll framtíðaruppbyggingar atvinnu á Íslandi. Jafnframt gæti risið blönduð byggð á svæðinu sem myndi styrkja kjarnann enn frekar og gjörbreyta samgöngum og byggðarmynstri borgarinnar. Allt er þetta í samræmi við aðalskipulag Reykjavíkur og mikilvægur þáttur sem ekki má taka út fyrir sviga í umræðu um spítalann.

1+1 er ekki alltaf 2

Máttur borgarsamfélaga felst einna helst í nálægðinni því að afköst og sköpunargáfur fólks verða meiri í samfélagi við aðra sem hafa sömu verkefni og áskoranir til úrlausnar. Þar af leiðandi er summan af 1+1 stærri en 2 í öflugum borgarsamfélögum vegna þess hve hratt upplýsingar og þekking flæðir á milli fólks, sem skilar sér í aukinni framlegð og hagkvæmni hjá fyrirtækjum og stofnunum sem sem eru í nálægð við hvort annað í stað þess að standa ein og sér. Það er í þessari dýnamík sem framtíð nútímasamfélaga veltur að miklu leyti á og einmitt þess vegna má ekki líta framhjá þeim einstöku tækifærum sem felast í Vatnsmýri og hvergi annars staðar í borginni. 

Hvort að þessi sjónarmið eða skipulagsmál yfir höfuð eiga að ráða för við staðarval spítala skal ósagt látið, en ef svo er þá hefur núverandi staðsetning við Hringbraut marga ótvíræða kosti fram yfir aðra staði, að því gefnu að þar sé hægt að byggja háskólasjúkrahús sem sinnir hlutverki sínu á fullnægjandi hátt. 

Suður Mjódd

Ég sé að fjölmiðlar í dag flytja fréttir af fyrirhuguðum flutningi bílaumboðsins Heklu í Suður Mjódd en samkvæmt þeim eru íbúar ósáttir við fyrirætlanirnar. Án þess að vilja tjá mig um málið umfram það sem hér hefur áður komið fram er ástæða til að benda á að myndbirtingar með öllum fréttum sem ég hef séð af málinu eru afar villandi. Ég læt því fylgja með eina mynd sem sýnir svæðið sem raunverulega um ræðir en ekki eitthvað allt annað (ég veit því miður ekki hver tók myndina). Án þess að hafa neina uppdrætti undir höndum þá skilst mér að lóðin sem um ræðir sé nokkurn veginn í jaðri svæðisins, alveg við Reykjanesbrautina. 

Að gefnu tilefni vek ég einnig athygli á því að hvað mislæg gatnamót taka ótrúlega mikið pláss í borgarlandinu líkt og sjá má á myndinni. Þeim má sannarlega mótmæla ef fólki er annt um skynsamlega landnotkun í borginni.