Vítahringur meintrar velmegunar

Þrátt fyrir að umræða um mikilvægi holls mataræðis og heilbrigðs lífsstíls sé í hámæli og aðgengi almennings að upplýsingum sé nær óendanlegt er líkt og borgarsamfélög séu föst í banvænum vítahring. Í afar fróðlegri grein eftir Guðmund Löve, framkvæmdastjóra SÍBS í nýjasta tölublaði sambandsins, bendir höfundur á að hækkandi lífaldur og heilbrigð ævi eru ekki einn og sami hluturinn:

"Í fyrsta sinn á seinni tíð er nú raunveruleg hætta á að næsta kynslóð lifi skemur en þær sem á undan hafa gengið. Þótt lífaldur hafi lengst er heilbrigð ævi ekki að lengjast að sama skapi, og þar er fyrst og fremst um að kenna hinum svo­ kölluðu lífsstílssjúkdómum – hinum óumdeilda faraldri 21. aldarinnar."

Það sem höfundur greinarinnar á við um heilbrigða ævi er að lengd mannsævinnar segi okkur ekki allt um heilsufar fólks. Sífellt stærri hópur fólks verður af ákveðnum lífsgæðum eða góðum æviárum vegna örorku og sjúkdóma með gríðarlegum kostnaði fyrir samfélagið. Þá er ónefndur kostnaðurinn af hinum ógnvaldinum sem vestrænar þjóðir standa frammi fyrir sem eru loftlagsbreytingar. Lýðheilsa og loftlagsbreytingar eru nefnilega tvær hliðar á sama peningi.

Er rót vandans kapítalismi?

Á Íslandi, líkt og víðast hvar annars staðar í heiminum hefur hagvöxtur, knúinn áfram af vergri landsframleiðslu (e. Gross Domestic Product) verið álitinn upphaf og endir alls sem skiptir máli. Af heilsufari þjóðarinnarástandi heilbrigðiskerfisins og þróun loftlagsmála er hinsvegar ljóst að hagvöxtur er meingallaður mælikvarði á lífsgæði. Er mögulegt að rót vandans sé nútíma kapítalismi?

Líkt og myndin hér að ofan sýnir þá eru afleiðingar markaðskerfisins sem nú er við lýði aukinn hagvöxtur en einnig aukin losun gróðurhúsalofttegunda sem og aukin tíðni lífsstílsjúkdóma. Neysla hefur aukist gríðarlega, með tilheyrandi aukningu í framleiðslu sem eykur losun gróðurhúsalofttegunda. Krafan um aukna framlegð fyrirtækja hefur leitt til örrar þróunar ýmisskonar tækni sem hefur komið í stað vinnuafls sem áður sinnti líkamlegri vinnu. Í mörgum tilvikum hefur þessi þróun leitt til atvinnuleysis og tekjuójöfnuðar. Einmitt undir þeim kringumstæðum virðist vera hvað brýnast að auka hagvöxtinn til að bregðast við atvinnuleysinu og jafna kjör fólks. Þannig eykst landsframleiðslan og ýtir enn frekar undir hagvöxt með tilheyrandi streituvaldandi lífsgæðakapphlaupi. Í slíku umhverfi eiga vinnudagar til að lengjast, sbr. á Íslandi þar sem vinnudagurinn er sá lengsti á Norðurlöndunum. Langur vinnudagur skapar lítinn tíma til eldamennsku og fyrir vikið hefur neysla á óhollri fyrirfram-eldaðri matvöru aukist gríðarlega sem aftur ýtir undir orkufreka framleiðslu sem losar mikið magn gróðurhúsalofttegunda. Allt virðist þetta síðan leiða með einum eða öðrum hætti til aukinnar tíðni lífsstílssjúkdóma. 

Hið byggða umhverfi

Það má eflaust finna gloppur í skýringarmyndinni sem ég bjó til hér að ofan enda er ég ekki hagfræðingur. Skipulagsfræði er hinsvegar mitt fag og því ákvað ég að breyta myndinni lítillega.
Er rót vandans hugsanlega hið byggða umhverfi og hvernig við skipuleggjum borgirnar okkar? Þeirri spurningu og ótal öðrum verður velt upp miðvikudagsvöldið 12. nóvember á Kjarvalsstöðum kl. 20:00Ég hlakka til að sjá ykkur!