Umhverfisvæn verðmæti

Torfusamtökin sendu frá sér yfirlýsingu þann 12. febrúar síðastliðin vegna fyrirhugaðs niðurrifs Rammagerðarinnar í Hafnarstræti 19 í Reykjavík. Samtökin segja að ómet­an­leg verðmæti geti farið for­görðum verði húsið rifið en eigendur hússins, Suður­hús ehf., segja að steyp­an í hús­inu sé ónýt og því þurfi að rífa það og byggja eft­ir­mynd þess. Til stendur að reka hótel í húsinu. 

 Fyrirhugaðar framkvæmdir við Hafnarstræti 

Í samræmi við skipulag? 

Það skal ósagt látið hvort að steypan í húsinu sé ónýt eða hvort að hér sé um að ræða fyrirslátt líkt og Torfusamtökin láta í veðri vaka. Óháð úttekt ætti hæglega að geta skorið úr um ástand hússins og með réttu ættu borgaryfirvöld að fara fram á slíka úttekt í ljósi þess að hér um að ræða sögufræga byggingu í hjarta borgarinnar. Í aðalskipulagi Reykjavíkur má finna kafla um borgarvernd þar sem kveðið er á um að "menningarsöguleg gildi verði höfð í heiðri við skipulagningu, hönnun og uppbyggingun borgarinnar á öllum stigum - við skipulagingu hverfa, hönnun bygginga, gatnumhverfis, torga, garða og almenningsrýma, götu gagna og annarra mannvirkja" (bls. 152). Þar segir einnig að "Ákvarðanir um verndun byggðaheilda, húsaraða, stakra húsa, og annarra mannvirkja verði ávallt byggðar á faglegu og heildrænu mati með almannahagsmuni að leiðarljósi" (bls. 152). Þessi ákvæði, auk fjölda annarra eiga sérstaklega við um svæðið innan Hringbrautar sem sjá má hér fyrir neðan sem nýtur sérstakar hverfisverndar í aðalskipulaginu: 

Innbyggð orka

Önnur hlið á máli sem þessu sem einnig er mikilvægt að vekja athygli á snýr að umhverfisvernd. Í allri umræðu um sjálfbærni, notkun orku og annarra auðlinda verður að hafa hugfast að umhverfisvænustu byggingarnar eru í flestum tilfellum þær sem nú þegar hafa verið byggðar. Það fer gríðarleg orka í byggingu húsa, í orðsins fyllstu merkingu. Það þarf að aka efni til og frá byggingarsvæðinu, nota ógrynni af rafmagni, steypu, stáli, gleri, osfrv. Öll þessi orka og byggingarefnin eru innbyggð í húsið (e. embodied energy) og munu fara til spillis að stærstum hluta þegar hús eru rifin. Allt skilar þetta sér í aukinni losun gróðurhúsalofttegunda, en myndin hér að neðan er dæmi um áætlað losunarhlutfall ýmissa verkþátta byggingaframkvæmdar

Besta leiðin

Minja- og menningarsöguleg gildi borgarumhverfis eru afar mikilvægir þættir í borgarskipulagi, sér í lagi í tengslum við ferðaþjónustu og upbbygingu hennar. Minjagildi húsa felast í húsunum sjálfum, ekki eftirbyggingum þeirra, sama hve nákvæmar þær kunna að vera. Niðurrif húsa, jafnvel þó að til standi að byggja umhverfisvænar byggingar í þeirra stað á sömu lóð er einnig afar óumhverfisvæn iðja, einkum með tilliti til losunar gróðurhúsalofttegunda. Ákjósanlegast er að varðveita byggingar en á sama tíma endurnýta þær í takt við tímann hverju sinni (e. adaptive reuse). Frábært dæmi um slíkt skipulag og uppbyggingu eru verbúðirnar við Grandagarð í Reykjavík en þær hafa öðlast nýtt líf með breyttri starfsemi án þess þó að nokkurt niðurrif hafi átt sér stað.