Tilgangslausar framkvæmdir?

Mér varð hugsað til bloggfærslu sem Egill Helgason birti ekki alls fyrir löngu á meðan ég rýndi í niðurstöður mjög svo áhugverðrar rannsóknar frá árinu 2010 sem ber heitið Infrastructure, programs, and policies to increase bicycling: An international review og birtist í hinu virta tímariti Preventitive Medicine. Niðurstöður rannsóknarinnar, sem í raun er samantekt á niðurstöðum 139 annarra rannsókna á áhrifum framkvæmda og verkefna sem miða að því að auka hjólreiðar í borgum um allan heim, eru afgerandi og sýna fram á bein tengsl milli stefnumótunar og uppbyggingu innviða fyrir hjólreiðar og fjölgun hjólreiðafólks í borgum. Eitt prýðilegt dæmi er frá borginni Portland í Oregon fylki í Bandaríkjunum. Þar átti sér stað 247% aukning í lagningu hjólastíga frá árinu 1991 (79 mílur) til ársins 2008 (274 mílur). Grafið hér að neðan (sjá hér) sýnir aukningu hjólreiða í Portland á tímabilinu:

If you build them, they will come

Færsla Egils, sem ber heitið Tilgangslausar framkvæmdir snýr að uppbyggingu hjólastíga við Grensásveg í Reykjavík. Í færslunni kemst Egill, sem alla jafna skrifar um skipulagsmál af mikilli þekkingu, svo að orði: 

"Keyrði Grensásveginn áðan, þann hluta sem á að fara að breyta. Á þessum hluta vegarins er fjarska rúmgott fyrir alla, bíla, gangandi vegfarendur, hjól. Maður sér varla að neinu þurfi að breyta – hvað þá kosta til miklu fé.

Egill heldur áfram og skrifar: 

"Þarna er svolítið eins og farið sé í framkvæmdir bara til að gera eitthvað (jú og þá man maður eftir hinum tilgangslausa reiðhjólastíg sem hefur verið lagður niður Frakkastíginn, en bara frá Skólavörðuholtinu niður að Njálsgötu)."

Þarna lýsir Egill hættulegu viðhorfi til borgarskipulags sem er lykilatriði að breyta til að Aðalskipulag Reykjavíkur nái fram að ganga og að Reykjavík nútímavæðist og standist samanburð við aðrar borgir. Hjólreiðar eiga að vera valkostur fyrir alla, ekki einungis þá sem treysta sér til að hjóla í bílaumferð eða innan um gangandi vegfarendur. Einmitt þess vegna þarf að fækka akreinum við götur eins og Grensásveg og byggja upp hjólastíga til að ungir sem aldnir treysti sér til að hjóla og upplifi öryggi og ánægju á ferðum sínum um borgina. Myndbandið hér að neðan, sem mætti kalla Hjólastígar 101, segir allt sem segja þarf: 

Stórt og mikið púsluspil

Við megum ekki láta skammsýni ráða för og það er lykilatriði að líta á lagningu hjólastíga sem langtíma-púsluspil. Í hvert skipti sem ráðist er í gatnaframkvæmdir, líkt og við Frakkastíg á síngum tíma, þá er nauðsynlegt að nýta tækifærið og koma fyrir hjólastígum í göturýminu, sama hve stuttir þeir kunna að vera. Við verðum að hugsa um heildarmyndina og líta á hvern einasta hjólastígs-stubb sem hluta af henni. Eftir 20-30 ár verða stubbarnir ekki lengur stubbar heldur hluti af umfangsmiklu hjólastíganeti sem mun ná um alla borg samkvæmt Hjólreiðaáætun Reykjavíkurborgar. Lagning hjólastíga er aldrei tilgangslaus og hver einasti metri skiptir máli.