Samnýtingarbölið

Í Aðalskipulagi Reykjavíkur eru settir fram tvenns konar starfsemiskvótar í miðborg Reykjavíkur. Annars vegar kvótar með það að markmiði að vernda og efla smávöruverslun og hinsvegar kvótar sem miða að því að tryggja fjölbreytilega starfsemi. Kvótarnir tryggja visst lágmarkshlutfall smávöruverslunar við ákveðin götusvæði auk þess sem þau kveða á um hámarkshlutfall starfsemi af svipuðum toga við ákveðin götusvæði eða torg. Markmiðin með þessum kvótum eru eftirfarandi og má lesa nánar um hér á bls. 218-219:

  • Stuðla að heildarmynd göturýmisins með því að samræma útlit og umhverfi.
  • Efla mannlíf í göturýmum.
  • Tryggja samfellu í verslunargötuhliðum.
  • Stuðla að fjölbreyttri starfsemi.
  • Vernda og efla smávöruverslun. 

Freki kallinn

    Í Morgunblaði dagsins er vísað í starfsemiskvótanna og rætt við Gunn­ar Guðjóns­son kaupmann við Laugaveg og formann Sam­taka kaup­manna og fast­eigna­eig­enda við Lauga­veg. Að vanda er Gunnar neikvæður, kvartar yfir túristum og keppist við að tala niður Laugaveginn og finna honum allt til foráttu. Hann syrgir verslunina Dressman og hefur áhyggjur af því að þekkt­ar versl­an­ir með alþjóðleg vörumerki vilji ekki opna í miðborg Reykjavíkur vegna af­stöðu borg­ar­yf­ir­valda. „Al­menn versl­un er orðin und­ir og við taka lunda­búðir og veit­ingastaðir“ seg­ir Gunn­ar sem af einhverjum ástæðum virðist vera tilneyddur til að reka verslun við Laugaveg þrátt fyrir verslunarmiðstöðvar á borð við Kringluna, Smáralind og Korputorg hafi beinlínis verið fundnar upp til að svara kalli hans og annarra sem sækjast eftir hreinræktuðum verslunarvæðum þar sem allt snýst um þægindi. 

    Óneitanlega leitar hugurinn til skrifa Jóns Gnarr um freka kallinn, sem ég hef áður vísað í á þessari síðu, þegar Gunnar og félagar hefja upp raust sína. Blessunarlega var Gunnari svarað snögglega af Magnúsi Berg Magnússyni, kaupmanni við Hverfisgötu sem nýlega opnaði húsgagnaverslunina Norr11 ásamt konu sinni. Magnús bendir réttilega á þá staðreynd að það sé ekkert því til fyrirstöðu að alþjóðlegar verslanakeðjur séu reknar hér á landi við hlið lundabúða. "Það eru fjölmargar túristabúðir á Strikinu en það stoppar ekki H&M að vera við hliðina á þeim“ segir Magnús og nefnir jafnframt að fjöldi túristabúða á Laugarveginum sé hluti af eðlilegri borgarþróun. "Þetta sést líka í öðrum borgum. Stærri götur verða túristamiðaðri og göturnar í kring taka að lifna. Það er nýbúið að taka Hverfisgötuna í gegn og hér opna nýjar verslanir í hverjum mánuði. Þær eru oft sérhæfðari og metnaðarfyllri verslanir sem „lókallinn“ þekkir. Flottustu búðirnar eru ekki endilega á Strikinu heldur í hliðargötum“. Á Twitter tóku aðrir í sama streng. 

    Hróplegt skipulagsleysi

    Guðrún Helga Sigurðardóttir, blaðamaður og ökuleiðsögumaður er einnig ein af þeim sem er ekki sátt við stöðu mála í miðborginni. Í opnu bréfi til Hjálmars Sveinssonar, formanns umhverfis- og skipulagsráðs lýsir hún "hróplegu skipulagsleysi" hvað varðar bílastæðamál hótela og gistihúsa úti um alla borg. Hún vísar einkum til ákvörðunar sem ráðið tók í tengslum við nýtt hótel sem á að opna við Hlemm, en þar eiga 17 bílastæði að nægja undir starfsemina. Bílasalinn og borgarfulltrúinn Júlíus Vífill hafði áður lýst yfir áhyggjum vegna þessara áætlana. Bæði hafa þau sitthvað til síns máls, enda ljóst að íbúar og gestir miðbæjarins hafa ekki farið varhluta af farþegaflutningum á svæðinu, flestum til ama við núverandi aðstæður. Það sem ég geri hinsvegar athugasemd við er eftirfarandi röksemdarfærsla Guðrúnar:

    "Ferðamenn kaupa þá þjónustu að vera sóttir eða þeim skilað í næsta nágrenni gististaðar. Það er greinilega markaður fyrir þessa þjónustu og því sjálfsagt að bjóða upp á hana."

    Það er mikill misskilningur að þó að það sé eftirspurn eftir ákveðinni þjónustu þá sé sjálfsagt að bjóða upp á hana. Til samanburðar hefur um langt skeið verið eftirspurn eftir nektardansklúbbum í miðbænum en starfsemi þeirra er engu að síður óheimil. Raunar var sett inn sérákvæði í deiliskipulag Kvosarinnar árið 1997 þar sem "óheimilt er að setja á stofn eða starfrækja nýja næturklúbba (nektarklúbba) innan svæðisins". 

    Víða erlendis er almenn bílaumferð heilt yfir óheimil í miðborgum en engu að síður þrífst hótelstarfsemi þar með miklum ágætum. 

    Tragedy of the commons

    Margir þekkja hagfræðingukenningu Garret Hardin, Tragedy of the commons, sem Hannes Hólmsteinn kallar "samnýtingarbölið". Kenningin skýrir listilega vel þann vanda sem hlýst af því að margir nýti saman einhver gæði. Þá er hætt við því, að einhver freistist til að ofnýta gæðin og að endingu mun auðlindin eyðileggjast fyrir fárra sakir en kostnaðurinn mun hinsvegar skiptast á alla. Kenningin á vel við um miðborgina og hugsanlegar afleiðingar þess að leyfa einni starfsemi að eignast of mikla hlutdeild í borgarumhverfinu, hvort sem að það er í formi bílastæða, akstri hópferðabíla eða annarrar plássfrekrar starfsemi. Að sjálfsögðu má einnig heimfæra kenninguna yfir á umfang verslunar og þjónustu sem undirstrikar mikilvægi starfsemiskvóta í miðborginni

    Öll dýrin í skóginum eiga að vera vinir

    Fjölbreytt starfsemi er einkenni miðborga og jafnframt þeirra helsti styrkleiki. Í Aðalskipulaginu er komist svo að orði á bls. 189-190:

    "Til að viðhalda fjölbreytileikanum er mikilvægt að stuðla að blandaðri starfsemi sem fellur vel saman og hefur heppileg áhrif á miðborgarbraginn. Verslun, skrifstofustarfsemi og veitingarekstur stuðlar til dæmis að samnýtingu aðstöðu og tryggir miðborgarlíf á ólíkum tíma dagsins. Veitinga­ starfsemi á íbúðarsvæðum getur hins vegar orðið árekstra­ valdur sé tillitssemi ónóg. Sama á við um ferðaþjónustu sem getur orðið fráhrindandi ef hún fléttast ekki eðlilega inn í þjónustu fyrir íbúa. Sum tegund starfsemi er opin öll­ um almenningi, gefur af sér út í göturýmið og getur tengt saman ólíka aðila í miðborginni. Önnur starfsemi höfðar einungis til sérhæfðs hóps og fer best fram fyrir luktum dyrum. Enn önnur starfsemi þarfnast næðis. Við sækjum miðborgina af ólíkum ástæðum. Dveljumst þar mislengi og á ólíkum tíma dags. Því er brýnt að miðborgin geti rækt öll sín ólíku hlutverk og að þar sé fullnægt mismunandi óskum og hagsmunum án þess að neinum sé troðið um tær. Í miðborginni þurfa einnig að vera í boði fjölbreytt rými fyrir ólíkar athafnir, rými sem eru ólíkrar ásýndar og hafa margvíslega eiginleika, þar sem er hægt að gleyma sér í ysi og þysi borgariðunnar en líka að vera einn með sjálfum sér". 

    Auðvitað er ekki einfalt mál að tryggja að miðborgin geti rækt öll sín ólíku hlutverk en neikvæðni, bölmóður og barátta fyrir eigin hagsmunum er ekki líkleg til árangurs.