Áhugaverðar breytingar á deiliskipulagi Kvosarinnar og Grjótaþorps eru nú til kynningar hjá Reykjavíkurborg. Í breytingartillögunum er kveðið á um hámarkshlutfall gistiþjónustu á svæðinu en borgarstjóri hefur áður lýst því yfir að hann vilji beina hóteluppbyggingu til annarra hverfa en miðborgarinnar á næstu árum. Ef breytingarnar ná fram að ganga má hlutfall gistþjónustu, sbr. lög um veitingastaði, gististaði og skemmtanahald nr. 85/2007, ekki fara yfir 23% af samtölu birtrar stærðar eigna á skilgreindu svæði, sem nær yfir deiliskipulagssvæði Kvosarinnar í heild og hluta deiliskipulagssvæðis Grjótaþorps. Hámarkshlutfallið er miðað við núverandi starfsemi, útgefnar byggingaheimildir og heimildir um gistiþjónustu skv. samþykktum deiliskipulagsáætlunum.
Skýr stefna
Með þessum breytingartillögum er ljóst að borgaryfirvöldum er full alvara með stöðva frekari hóteluppbyggingu í miðbænum og er hér að vissu leyti um að ræða nýja nálgun í skipulagsmálum borgarinnar. Sóley Tómasdóttir, forseti borgarstjórnar, hefur áður bent á að borgin geti ekki hafnað fyrirspurnum um frekari hóteluppbyggingu í miðbænum en núverandi meirihluti virðist nú vera búinn að þróa verkfæri sem gerir þeim kleift að slá frekari uppbyggingaráætlanir út af borðinu. Ég hef áður fjallað um starfsemiskvóta í miðborg Reykjavíkur, en hið nýja hámarkshlutfall gistiþjónustu sem nú er kynnt til sögunnar er af allt öðrum toga. Starfsemiskvótarnir ná eingöngu til jarðhæða bygginga en hámarkshlutfallið nær til allra bygginga í heild sinni innan skilgreinda svæðisins.
Sumir munu hagnast - aðrir tapa
Í breytingartillögunum kemur ekki fram hvert núverandi hlutfall gistiþjónustu á svæðinu er. Engu að síður er ljóst að ef tillögurnar verða samþykktar verður lítið sem ekkert svigrúm fyrir aukna gistiþjónustu nema núverandi rekstaraðilar hætti starfsemi eða flytji hana annað. Af þessu má ætla að þau gistileyfi sem nú eru í gildi á þessu eftirsótta svæði verða mun verðmætari en áður og er því um verulega hagsmuni að ræða fyrir hótel- og gistihúsa eigendur í miðborg Reykjavíkur. Það er hinsvegar viðbúið að þeir aðilar sem nýverið hafa keypt húsnæði á svæðinu á uppsprengdu verði með það að markmiði að selja gistiþjónustu munu sitja eftir með sárt ennið.