Hlíðarendi

Enn og aftur hefur sprottið upp umræða um Reykjavíkurflugvöll og nú í tengslum við fyrirhugaða uppbyggingu á Hlíðarenda. Fréttastofa Stöðvar 2 setti málið í hálfgerðan æsifréttabúning og Hilmar Þór Björnsson arkitekt fjallar einnig um málið á heimasíðu sinni. Mér sýnist ekki vanþörf á að skerpa aðeins á eftirfarandi staðreyndum í tengslum við þetta mál sem hefur hlotið mjög einhliða og oft á tíðum ónákvæma umfjöllun á síðustu dögum.

Deiliskipulagstillagan sem um ræðir var unnin í samvinnu Reykjavíkurborgar og Isavia á grundvelli samkomulags ríkis og borgar frá 25. október 2013 og Aðalskipulags Reykjavíkur 2010-2030, sem nú hefur verið staðfest. Deiliskipulagstillagan er í einu og öllu í samræmi við markmið og ákvæði fyrrnefnds samkomulags og er endurskoðun deiliskipulagsins í raun forsenda þess að samkomulaginu (viðbótarsamkomulaginu) verði fylgt eftir. Viðfangsefni nefndarinnar, sem skipuð var samkvæmt samkomulaginu, er fyrst og fremst að gera frekari könnun á staðarvalskostum fyrir innanlandsflug. Í öllum fyrri athugunum sem gerðar hafa verið á mögulegum valkostum innanlandsflugvallar hefur ávallt verið miðað við 2ja brauta flugvöll í samanburði við 2ja brauta grunnkost í Vatnsmýri.

Upphaflega voru settar fram tillögur um lokun NA-SV flugbrautar í skýrslu samgönguráðherra, „Sambýli flugs og byggðar“ frá árinu  1990. Tillögurnar voru unnar af nefnd sem sett var á stofn í kjölfar alvarlegs flugslyss sem átti sér stað á Reykjavíkurflugvelli í ágúst 1988. Eins og nafn skýrslunnar ber með sér var áherslan í vinnunni að meta umhverfisáhrif og áhættuþætti flugrekstrar í nálægð við byggð. Á undirskriftarsíðu skýrslunnar segir: „Í álitinu setur nefndin fram tillögur sem miða að því að draga úr augljósum áhættuþáttum, ónæði og mengun án þess að skerða mikilvægi Reykjavíkurflugvallar sem miðstöð samgangna í innanlandsflugi. Tillögurnar eru byggðar á hættumati nefndarinnar og mati á slysalíkum umhverfis flugvölinn. Full samstaða tókst um þessar tillögur í nefndinni.“  Í nefndinni sátu m.a. flugmálastjóri og framkvæmdastjóri flugvalladeildar Flugmálastjórnar. Í niðurstöðum skýrslunnar segir m.a. (bls. 70): „Að öllu samanlögðu verður að telja að mest áhætta sé tekin við notkun NA/SV-brautar og að tvímælalaust beri að loka henni. Auk þess sem brautin hefur hverfandi vægi í notagildi flugvallarins…“

Í framhaldi af starfi áhættumatsnefndar samgönguráðherra árið 1990, hefur lokun NA-SV ávallt verið markmið í allri stefnumörkun um flugvöllinn, hvort sem litið er til aðalskipulags Reykjavíkur (AR1990-2010, 1996-2016 og AR2001-2024), deiliskipulags flugvallarins frá 1999 og þeirra fjölmörgu sameiginlegu yfirlýsinga borgar og ríkis um framtíð flugvallarins á síðustu árum. Staðfesting Aðalskipulags Reykjavíkur 2010-2030 og samkomulag ríkis og borgar (viðbótarsamkomulag undirritað af innanríkisráðherra og borgarstjóra) frá 25. október 2013, er því lokaskrefið í að tryggja framfylgd þessa markmiðs. Raunar var NA-SV flugbrautin þegar felld út af aðalskipulagi árið 2007, með sérstakri breytingu á AR2001-2024, m.a. vegna  staðsetningar samgöngumiðstöðvar norðan Loftleiðahótels, þar sem NA-SV brautin liggur. Það staðarval samgöngumiðstöðvar var niðurstaða sameiginlegrar nefndar samgönguráðuneytis og Reykjavíkurborgar. Það er áhugavert og rétt að taka fram að Leifur Magnússon, einn frummælenda á fundi sem samtökin Hjartað í Vatnsmýri hélt nýlega, sat í nefndinni sem komst að þessari niðurstöðu. Breyting þessi frá 2007 var staðfest af umhverfisráðherra án fyrirvara.

Það er því í algjörlega nýtt af nálinni að gera ágreining um lokun NA-SV brautar, sem sátt hefur verið um að stefna að um áratugaskeið. Sáttin byggist ekki síst á því að með lokun brautarinnar er dregið úr áhættu sem fylgir flugrekstri svo nærri þéttri byggð. Hér vegast á rekstrarlegt nýtingarhlutfall flugvallarins og aukið öryggi fyrir byggð í nágrenninu. Reynslutölur benda eindregið til þess að rekstrarlegt nothæfi vallarins verði ásættanlegt eftir lokun umræddrar brautar, auk þess sem rekstraröryggi mætti tryggja enn frekar með opnun sambærilegrar brautar á Keflavíkurflugvelli.
5 responses
Takk Guðmundur Kristján fyrir afar góða og skýra grein.
Það er afar ánægjulegt þegar fólk gefur sér tíma til að deila upplýsingum sem það hefur aflað, en að sama skapi vont þegar áhugasamir hafa ekki komist í réttar eða fullnægjandi upplýsingar. Þar sem Guðmundur Kristján Jónsson hefur gefið af tíma sínum til að deila með okkur sinni sýn á þetta mál, þá er sjálfsagt að gjalda líku líkt, en hér er mín sýn á sömu atriði. Deiliskipulag um Reykjavíkurflugvöll sem samþykkt var af meirihluta borgarstjórnar í sumar notaði sem rök gegn athugasemdum vegna lokunar á flugbraut 06/24 skýrslu frá forstjóra Isavia frá 13. desember 2013. Efni: „Afleiðingar lokunar norðaustur suðvestur flugbrautar Reykjavíkurflugvallar fyrir sjúkraflug“. Forstjóri Isavia ætlar þessari skýrslu að vera útreikningur á nothæfisstuðli ímyndaðs lendingarstaðar sem samanstendur af Keflavíkurflugvelli í óbreyttri mynd og Reykjavíkurflugvelli með tveimur flugbrautum. Þá er reiknað miðað við hámarks leyfilegan hliðarvindsstuðul 25 hnútar í Keflavík allt árið og í Reykjavík 25 hnútar sjö mánuði ársins og 15 í fimm mánuði. Þetta verklag er skýrt brot á reglugerð um flugvelli nr. 464/2007. Samkvæmt reglugerð um flugvelli skal nota 10 og 13 hnúta hliðarvindsstuðul fyrir þá flugumferð sem flugvöllurinn þjónar. Í umsögn Samgöngustofu við umrætt deiliskipulag leggur bréfritari áherslu á að við gerð deiliskipulags sé farið eftir kröfum í reglugerð um flugvelli nr. 464/2007. Svar skipulagsfulltrúa var: Deiliskipulagstillagan er unnin í samvinnu Reykjavíkurborgar og Isavia. Farið verður að lögum og viðkomandi ákvæðum reglugerða við breytingar og þróun flugvallarstarfsemi sem nýtt deiliskipulag kallar á. Síðar vitnar skipulagsfulltrúi í falsskýrslu Isavia og notar hana sem helsta rökstuðning fyrir því að ásættanlegt sé að loka flugbraut 06/24. Í reglugerð um flugvelli nr. 464/2007 segir: „Fjöldi og stefna flugbrauta á flugvelli ætti að vera slíkur að notkunarstuðull flugvallarins sé ekki minni en 95% fyrir flugvélarnar sem flugvöllurinn þjónar.“ Vitað er að engin tveggja brauta lausn í Vatnsmýri gerir það. Ég geri fyllilega ráð fyrir að hver svo sem niðurstaðan verður á staðsetningu miðstöðvar innanlandsflugs, þá uppfylli niðurstaðan kröfur í viðeigandi lögum og reglugerðum. Sá sorglegi atburður varð 1988 að mikið breytt rannsóknarflugvél af gerðinni Casa fórst við Reykjavíkurflugvöll. Í ljós kom að handvömm í viðhaldi var orsök slyssins. Á þeim röska aldarfjórðungi sem síðan er liðinn hafa kröfur um rekjanleika varahluta og viðhaldsferla aukist gríðarlega svo að líkur á samskonar handvömm hafa minnkað til muna. Bilanir í áætlunarfugvélum sem leiða til þess að flugvél hrapi eru gríðarlega fátíðar. Vitnað er í skýrslu nefndar sem þáverandi samgönguráðherra, Steingrímur J. Sigfússon skipaði undir forystu Álfheiðar Ingadóttur, titluð „Reykjavíkurflugvöllur – sambýli flugs og byggðar“. Á bls. 2 er eftirfarandi bókun: „Nefndarmenn komust að þeirri niðurstöðu að gerð áhættumats vegna Reykjavíkurflugvallar krefðist yfirgripsmeiri og sérhæfðari rannsókna en væru á færi nefndarinnar auk þess sem ekki liggur fyrir ákvörðun stjórnvalda um það hvað teljist ásættanleg áhætta af rekstri flugvallar í Vatnsmýri.“ Engu að síður lagði nefndin fram 10 tillögur, og ein þeirra var: „Hætt verði notkun á NA/SV-braut (07-25) og henni lokað, sbr. kafla 5.2.“ Í umfjöllun skýrslunnar er hins vegar hvergi minnst á hvaða áhrif lokun brautarinnar hefði á nothæfisstuðul flugvallarins eða þá auknu slysahættu, sem myndi fylgja auknu flugi við efri mörk leyfilegs hliðarvindar. Hvorki samgönguráðherrar né ráðuneytið tók nokkurn tíma afstöðu til tillagna nefndarinnar, og umrædd skýrsla hennar var aldrei send Flugráði til umsagnar eins og hefð var fyrir. Þetta er því marklaust plagg. Viðhorf Álfheiðar má síðan sjá í grein sem hún birti í Fréttablaðinu 7. september 2013 undir fyrirsögninni „Tillaga um sátt í flugvallarmálinu“ þar sem hún telur ásættanlegt að reka Reykjavíkurflugvöll með einni A/V flugbraut, sem hún telur að muni standa undir 92% nothæfisstuðli, án þess að gera grein fyrir því hvernig hún kemst að þeirri niðurstöðu, en færa má rök fyrir að sá nothæfisstuðull sé verulega ofmetinn. Áhætta almennings á jörðu vegna flugs í kringum Reykjavíkurflugvöll var metin árið 1997. Niðurstöður þeirrar vinnu voru birtar í skýrslu titluð „Áhættumat fyrir Reykjavíkurfugvöll“ 25. ágúst 1997. Skýrslan var unnin af National Air Traffic Services Ltd. (NATS) í Bretlandi. Á bls. fjögur í skýrslunni segir: Út frá þessum kortum sést að: – Áhættan við Reykjavíkurflugvöll er innan þeirra marka sem miðað er við á öðrum sviðum þjóðlífsins. – Ekkert tilefni er til að rýma byggingar við flugvöllinn eða breyta nýtingu þeirra, en þess ber að geta að nokkur íbúðarhús í vesturbæ Kópavogs eru við mörk 2 * 10^-5 svæðisins. – Lítil áhætta er samfara notkun á NA/SV (07/25) flugbraut. Til að setja áhættumörk 2 * 10^-5 í samhengi, þá er skilgreind „Ásættanleg áhætta“ í reglugerð 505/2000 um hættumat vegna ofanflóða 50% hærri, eða 3 * 10^-5. Samkvæmt faglegri úttekt er því ljóst að allt tal um þá hættu sem af flugvellinum stafar er innantómur hræðsluáróður. Það er rétt að skipulagsyfirvöld í Reykjavík hafa haft að markmiði að loka Reykjavíkurflugvelli í áföngum, en því miður er ekki unnið að því faglega. Það hefur ekki verið reiknaður nothæfisstuðull fyrir Reykjavíkurflugvöll samkvæmt ICAO viðauka 14, sem innleiddur er í reglugerð um flugvelli nr. 464/2007, síðan árið 2000. Þá hefur ekki verið lokið áhættumati vegna fyrirhugaðrar lokunar á flugbraut 06/24, sem til stendur að loka um næstu áramót, en bráðabirgðaniðurstöður sýna að áhætta farþega og áhafna verði óásættanleg, þrátt fyrir opnun sambærilegrar flugbrautar í Keflavík. Í stuttu máli, þá hefur lokun NA/SV flugbrautarinnar engin áhrif á öryggi fyrir byggð í nágrenninu, en eykur hættu fyrir farþega, áhafnir og sjúklinga. Það er tímabært að borgarfulltrúar Samfylkingar, Bjartar framtíðar, Vinstri grænna og Pírata taki niðurstöður stjórnsýsluúttektar Reykjavíkurborgar til sín, skoði hvers vegna borgin fær falleinkunn á flestum sviðum og bæti síðan verklag sitt eins og kostur er.
Það er rétt að settar hafa verið fram tillögur og stefnt að lokun 06/24 um langt skeið. Það er ekki þar með sagt að sá gjörningur standist gildandi reglugerðir. Hvort 06/24 er kölluð „neyðarbraut“ eða „sjúkrabraut“ er aukaatriði. Aðalatriðið er að Reykjavíkurflugvöllur þarf að uppfylla 95% notkunarstuðul, samkvæmt núgildandi og væntanlegum reglugerðum. Það liggur fyrir, samkvæmt viðurkenndum athugunum, að lokun 06/24 lækkar Reykjavíkurflugvöll niður fyrir 95% Þú veist væntanlega að reglugerðir heimila ekki að raða saman í körfu fleiri en einum flugvelli í sama landshluta, til þess að uppfylla 95% Þykir þér ekki ekki við hæfi að hugsanlegar málamiðlanir sem gerðar eru í skipulagsmálum, standist gildandi reglugerðir? Bestu kveðjur
Takk Björk! Sælir Sigurður og Ingvar og takk fyrir ykkar innlegg. Ég er auðvitað fyrst og fremst að rekja ákveðna sögulega þætti í þessu máli sem mér finnst mikilvægt að liggi fyrir og séu aðgengilegir fyrir þá sem vilja kynna sér málavexti. Það er þó rétt að taka fram að þetta eru allt saman hlutir sem hafa komið fram áður í þessari umræðu og má t.d. finna í svörum Reykjavíkurborgar við fjölmörgum athugasemdum við deiliskipulag Hlíðarenda. Í þessari umræðu er oft fullyrt að nýtingarhlutfall 2ja brauta flugvallar falli í 93,8% með lokun NA-SV brautar og verði þar með undir 95% viðmiðinu sem kveðið er á um í Reglugerð um flugvelli (nr. 646/2007). Oft er vísað til niðurstöðu einnar athugunar frá febrúar 2000, þar sem miðað er við 13 hnúta hliðarvind. Þar að auki er oft vísað til ýmissa annarra athugana á nothæfisstuðli, sem gerðar hafa verið á undanförnum árum, þar sem stuðst er við mismunandi forsendur við útreikningana, m.a. um hliðarvind. Af einhverjum ástæðum er þó sjaldnast vísað til tveggja skýrslna frá 1997 (Veðurstofa Íslands-Sigurður Jónsson: Athugun á notagildi Reykjavíkurflugvallar. Með og án flugbrautar 0725) og 2000 (Línuhönnun: Mat á nothæfisstuðlum fyrir Reykjavíkurflugvöll) þar sem m.a. var reiknað nothæfi miðað við 13 hnúta hliðarvind. Niðurstöður þeirra skýrslna benda til þess að nothæfi flugvallarins geti fallið niður í kringum 95% með lokun NA-SV-brautar. Annars undirstrika athugasemdir ykkar (ásamt öllum hinu fjölmörgu niðurstöðum undanfarinna ára um nothæfi Reykjavíkurflugvallar, með og án breytinga, og annarra staðarvalkosta á höfuðborgarsvæðinu) vel hversu útreikningar á nothæfi eru flóknir og háðir margvíslegum forsendum. Yfir 70 ára reynsla af flugi í Vatnsmýri hlýtur þó að hafa eitthvað að segja við mat á nothæfi flugvallar í Vatnsmýri. Við verðum að horfa á reynslutölur um nýtingu einstakra flugbrauta þar en ekki að einblína eingöngu á niðurstöður reiknilíkana. Að lokum vil ég taka fram að ég er efins um þessa skýrslu/jargon rökræðu sem oft vill eiga sér stað í tengslum við þennan Reykjavíkurflugvöll. Ég er auðvitað sekur um að hafa margoft tekið þátt í henni en að sama skapi tel ég að hún sé ekki að skila okkur miklum árangri eða sé gagnleg til að miðla málum. í mínum huga snýst þetta mál um ákveðnar hugsjónir og sjálfsmynd okkar sem borgarbúa í þessu strjálbýla landi. Það er hinsvegar efni í annan pistil sem vill svo heppilega til að ég hef þegar skrifað og má finna hér http://gudmkri.is/ut-fyrir-sviga. Enn og aftur takk fyrir góðar umræður, bæði hér og á bloggi Hilmars.
Sæll aftur Guðmundur, Það er synd að hafa ekki vitað af bloggi þínu fyrr og takk fyrir að vísa í pistil þinn "Út fyrir sviga". Engin umræða sem vísar í bæði XKCD og MH máli sínu til stuðnings getur verið alslæm... Skipulagsvinna í Vatnsmýri hefur ekki verið fagleg. Tugum hektara hefur verið úthlutað undir t.d. HR án þess að sú framkvæmd hafi verið á skipulagi, hvorki heildstæðu eða sérstæðu. Þetta er almennt talið stórfellt skipulagsslys af hálfu kollega þinna. Þá vekur ugg að unnar eru skýrslur eins og sú sem forstjóri Isavia sendir Innanríkisráðherra, sem falsa raunverulegan nothæfisstuðul Reykjavíkurflugvallar. Samkvæmt reglugerð um flugvelli ber að vinna slíkar skýrslur eftir skilgreindri forskrift sem er alþjóðleg. Í því samhengi er reynsla ekki marktæk þar sem aðferðarfræðin er bundin í reglugerð. Illu heilli, þá er þetta ekki eina dæmið um tilraun til að fegra niðurstöður sem miða að því að loka flugvellinum í áföngum og hafa nothæfisstuðlar verið reiknaðir með hliðarvindsstuðul allt að 33 hnútum, þegar reglugerð fyrirskiptar 13 hnúta fyrir þann flokk flugvéla sem notast er við fyrir áætlunarflug um Reykjavíkurflugvöll. Hver svo sem skoðun fólks er á því hvort flugvöllur í Vatnsmýri eigi að vera eða fara, þá hljótum við að geta fallist á að ferlið sem ræður því sé opið, fylgi lögum og reglugerðum og að um niðurstöðuna náist sem víðtækust sátt í samfélaginu. Mbk, SIJ