Fullbyggt og fastmótað

Það sló í brýnu milli borgaryfirvalda og íbúa við Austurbrún á dögunum þegar breyting á deiliskipulagi Laugaráss var samþykkt. Deiliskipulagsbreytingin er vegna lóðarinnar Austurbrún 6 og gerir ráð fyrir búsetuúrræði fyrir sex hreyfihamlaða einstaklinga. Um er að ræða 600 fermetra byggingu en fyrir er á lóðinni 13 hæða bygging með 71 íbúð. Þetta mál er áhugavert fyrir margra hluta sakir og gefur ágætis vísbendingu um það sem koma skal á næstu árum ef viss viðhorf til borgarskipulags og byggðarþróunar breytast ekki. Í athugasemdum íbúa Austurbrúnar 8,10,12 og 14 er að finna ýmis kunnuleg stef sem mörg hver eru réttmæt en önnur virðast byggð á misskilningi. Viðbrögð borgaryfirvalda eru einnig nokkuð fyrirsjáanleg og ekki til þess fallin að miðla málum. Niðurstaða málsins er óheppileg fyrir alla sem að málinu koma. Íbúunum þykir á sér brotið og hóta málsókn og borgayfirvöld sem í samstarfssáttmála hafa heitið að kynning og upplýsingagjöf til íbúa verði bætt í tengslum við skipulagsmál, bæði stór og smá eru komin í vörn. Allt kostar þetta tíma, peninga og orku sem annars væri hægt að nýta til ýmissa uppbyggilegra hluta. 

Sagan endurtekur sig    

Því miður virðist það vera orðinn viðtekin venja að breytingar á skipulagsáætlunum, hvort sem um er að ræða smávægilegar breytingar líkt og við Austurbrún 6 eða breytingar á aðalskipulagi vekja hörð viðbrögð þar sem kvartað er yfir skorti á gagnsæi og íbúalýðræði. Orð á borð við sýndarsamráð og gervigagnsæi eru orðin algeng í umræðu um skipulagsmál sem er dapurlegt. Það má öllum vera ljóst að þetta þarf að breytast ef að aðalskipulag Reykavíkur, sem er leiðarljós núverandi meirihluta í skipulags- og umhverfismálum á fram að ganga. Samkvæmt aðalskipulaginu munu 90% allra nýrra íbúða í Reykjavík rísa innan þéttbýlismarka fram til ársins 2030. Til að forðast að sagan endurtaki sig og uppbyggingaráætlanir endi fyrir dómstólum þurfa einkum tveir þættir að breytast: viðhorf borgarbúa til borgarlífs (e. urbansim) og undirbúningur og viðbrögð borgaryfirvalda við breytingum á fastmótaðri byggð. Hvort tveggja krefst vinnu, þolinmæði og umburðarlyndis. 

Borgarrými er breytingum háð

Í opnu bréfi vegna deiliskipulagsins við Laugarás koma íbúar við Austurbrún meðal annars eftirfarandi athugasemd á framfæri: 

"Þegar íbúar ofanskráðra húsa byggðu eða keyptu hús sín, var talið útilokað að frekari byggingar yrðu reistar á þessu svæði enda sættu þessar úthlutanir á svo viðkvæmu svæði mótmælum. Í Aðalskipulagi Reykjavíkur 2010 - 2030, á bls 260 (sic) í Skipulag Borgarhluta segir : ÍB24 Laugarás. Svæðið er fullbyggt og fastmótað."

Athugasemdin lýsir vel viðhorfi fólks til borgarinnar sem rík þörf er á að breyta. Reyndar er það svo, og þetta eiga íbúarnir að vita ef þeir kynntu sér ákvæðin í aðalskipulaginu líkt þeir gefa til kynna, að orðalagið fastmótuð byggð* er stjörnumerkt. Í skipulaginu segir nefnilega:

"*Í fastmótaðri byggð má gera ráð fyrir breytingum á á núverandi húsnæði, viðbyggingum og öðrum endurbótum, svo og nýbyggingum eftir því sem ákveðið er í hverfis- og/eða deiliskipulagi."

Það er vissulega ekkert klippt og skorið í þessum efnum og línan milli nauðsynlegrar stefnufestu og sveigjanleika er oft þunn. Það er hinsvegar alveg ljóst að þeir sem að kjósa að búa í borg á 21. öld þegar íbúar borga hafa aldrei verið fleiri í sögu mannkyns geta ekki reiknað með að útsýni þeirra haldist óskert um ókomna tíð eða að óbyggð svæði innan borgarinnar verði ekki nýtt til uppbyggingar á einhverjum tímapunkti. Skipulagsáætlanir eru ekki og verða aldrei meitlaðar í stein. Borgir eru breytingum háðar í takt við tímann og þarfir íbúa hverju sinni. Það skilar litlum árangri að lýsa sig alfarið andvíga fyrirhugaðri uppbyggingu líkt og íbúar við Austurbrún hafa gert. Samningsstaða þeirra er sjálfkrafa að engu orðin með slíkum málflutningi og þar af leiðandi eru líkurnar á farsælli lausn eða málamiðlun jafnframt orðnar að engu.  

Í orði en ekki á borði

Að því sögðu er rétt að huga að hlutverki og ábyrgð borgaryfirvalda í sambærilegum málum og í Laugarási. Líkt og fram kemur í athugasemdunum hafa íbúarnir ýmislegt til síns máls og í stað þess að gera því skóna að andstaða ríki við fyrirhugaða uppbyggingu vegna þess að um er að ræða búsetuúræði fyrir hreyfihamlaða væri yfirvöldum nær að taka til skoðunar þær athugasemdir sem ekki eru byggðar á misskilningi eða mistúlkun á skipulagsáætlunum. Íbúarnir nefna til að mynda ýmis dæmi um mál sem hefur verið hafnað á forsendum fyrra deiliskipulags. Hvernig væri að taka upp einhver af þeim málum nú og verða við óskum íbúa um lítillegar lengingar á bílskúrum og breytt litaval á utanhússmálningu svo dæmi séu nefnd? Afhverju er ekki eitt látið yfir alla ganga og reynt að koma til móts við íbúanna sem virðast vera ósáttir við meingallað deiliskipulag hverfisins þegar á annað borð er verið að breyta því? Í greinargerð deiliskipulagsbreytingarinnar er talað um samráð og samráðsaðila. Þar kemur hinsvegar ekkert fram um samráð heldur er lauslega gerð grein fyrir þeim aðilum sem eiga beina aðkomu að verkefninu. Í hverju felst samráðið nákvæmlega? Í raun má spyrja: hver er skilgreining borgaryfirvalda á hugtakinu samráð?

Enginn vinnur og enginn tapar    

Framundan eru krefjandi tímar fyrir þá sem koma að skipulagsmálum í Reykjavík og alla þá íbúa sem uppbygging næstu áratuga mun hafa áhrif á. Varaformaður umhverfis- og skipulagsráðs komst svo að orði í liðinni viku: "Stefnan hefur verið tekin, framundan er breytingaskeið og því fylgja vaxtaverkir." Það er fyrirhuguð uppbygging á fjöldanum öllum af reitum í hverfum sem hingað til hafa verið talin fullbyggð og fastmótuð. Bæði borgaryfirvöld og borgarbúar þurfa að koma að borðinu með breytt hugarfar ef aðalskipulag Reykjavíkur 2010-2030 á fram að ganga án þess að allt logi í óþarfa illdeilum og kostnaðarsömum málaferlum. 

Reykvíkingum fjölgar ört og uppbygging á íbúðahúsnæði hefur aldrei verið jafn aðkallandi. Það verða allir að gera sér ljóst að nú þegar ákvörðun hefur verið tekin um að 90% uppbyggingar mun eiga sér stað innan þéttbýlismarka þá er beinlínis óábyrgt að gera kröfur um að ákveðin hverfi séu fastmótaðri og fullbyggðari en önnur (e. banana´ism). Vissulega þarf að vernda græn svæði og ákveðnir reitir eru heppilegri til uppbyggingar en aðrir en við eigum engu að síður skoða alla möguleika með opnum huga. Þegar byggt er í grónum hverfum samanber dæmið hér að ofan þá þarf borgin einnig að vera opin fyrir því að koma til móts við óskir íbúa á allan mögulegan hátt. Við verðum að skapa kúltúr sem snýr að því að miðla málum, helst áður en þau verða vandamál. Það á enginn að vinna og enginn að þurfa að tapa.