Asbest samtímans

Ekki alls fyrir löngu átti sér stað talsverð umræða um framkvæmdir á horni Frakkastígs og Lindargötu en þar er verið að reisa háhýsi sem mun koma til með að skerða sjónlínu frá Skólavörðuholti norður Frakkastíg. Niðurstaða skipulagsráðs í málinu var að höfða til samvisku verktaka í Skuggahverfinu enda borginni ekki stætt á að aðhafast neitt samkvæmt skipulagslögum án þess að baka sér ríflega skaðabótaskyldu. Þrátt fyrir gjörbreyttar áherslur í skipulagsmálum á undanförnum árum þá skortir enn fyrningarákvæði í löggjöfina til að bregðast við skipulagsmistökum frá fyrri tíð. Korputorg er gott dæmi slík skipulagsmistök. 
Húsnæðið sem staðið hefur hálf autt frá upphafi og valdið miklu fjárhagslegu tjóni fyrir vikið er minnisvarði um góðærisruglið sem átti sér stað hér á árum áður og birtingarmynd þess versta sem vestrænt borgarskipulag hefur upp á að bjóða. Korputorg er einhversskonar blanda af strip mall og power centrehvort um sig fyrirbæri sem hafa haft veruleg áhrif á þróun borga og neysluhegðun almennings á síðustu árum. Bayer´s Lake í Halifax, Nova Scotia er ágætis dæmi um svæði sem í upphafi níunda áratugarins var ekki ósvipað Korputorgi eins og við þekkjum það. Í dag lítur svæðið svona út og veldur gríðarlegum umferðarteppum með tilheyrandi mengun og umhverfisáhrifum:

Frá árinu 1980 hefur önnur ógnvænleg þróun átt sér stað við austurströnd Kanada sem er öllu alvarlegri en umferðaröngþveiti við Bayer´s Lake. Ný rannsókn sýnir tíðni offitu á svæðinu í sögulegu hámarki en það er talið að yfir 37.5% íbúa þjáist af offitu. Á síðustu þremur áratugum hefur tíðni offitu í Kanada þrefaldast og innan fárra ára er talið að á vissum svæðum, t.d. í Nova Scotia, muni yfir helmingur fullorðinna einstaklinga þjást af offitu. Kostnaðurinn sem leggst á samfélagið allt vegna þessarar þróunar verður ekki rakin hér en það er rétt að taka fram að hann er stjarnfræðilegur

Líkt og í mörgum sambærilegum verslunarkjörnum vestanhafs rekur hin margumrædda verslun Costco stórt útibú í Bayer´s Lake og það er fyrir tilstilli verslana líkt og hennar sem lítil korputorg breytast í eitt risavaxið bílastæði og verða áfangastaður neytenda í stórum stíl. Það skyldi í sjálfu sér engan undra enda býður verslunin upp á góð kjör á gæðavöru. Öll umræða um að matvaran sem er seld í verslunum Costco sé ekki í háum gæðaflokki er auðvitað galin og lyktar af forræðishyggju. Eftir því sem ég veit best eru Costco verslanir vel reknar í hvívetna og þeir viðskiptavinir Costco sem ég þekki eru hæstánægðir með verðlagið og þjónustuna sem þar er að finna. 

Komandi kynslóðir borga

Það má hinsvegar öllum vera ljóst að "sparnaðurinn" sem hlýst af því að reka verslanir við jaðar byggðar er ærinn og hann verður greiddur af samfélaginu öllu og komandi kynslóðum. Líka þeim sem hafa aldrei notið góðs af því lága vöruverði sem korputorg heimsins bjóða upp á og munu aldrei gera það. Eðli reksturs á borð við Costco krefst þess að viðskiptavinir komi akandi um langa leið til að versla. Stór hluti ástæðunnar fyrir því að þessar verslanir geta boðið lágt verð er vegna þess að þær standa á verðlitlu landi. Korputorg er þar engin undantekning. Auðvitað er ekki við Costco að sakast og sennilega er ábyrgðin að mestu þeirra yfirvalda sem gera sér ekki grein fyrir þeim afleidda kostnaði sem af þessu byggðarmynstri hlýst í formi umhverfis- og heilsufarsáhrifa. Það gengur enginn lengra en yfir nokkur bílastæði á leið sinni í Costco. Reyndar sýnir nýleg og mjög svo áhugaverð rannsókn Huldu Dagmarar Magnúsdóttur á hegðun fólks á bílaplönum í Reykjavík að við Korputorg aka viðskiptavinir jafnan á milli verslana innan bílastæðisins. Þ.e. þeir ganga ekki á milli verslananna í kjarnanum heldur keyra. Það er rétt að taka fram að byggingin við Korputorg er einungis 480 metra löng. 

Samræmi og ósamræmi

Líkt og á horni Frakkastígs og Lindargötu er deiliskipulag í gildi á milli Blikastaðavegar og Vesturlandsvegar sem er að mörgu leyti á skjön við áherslur núgildandi aðalskipulags í Reykjavík um mannvænt og vistvænt umhverfi þar sem áhersla er lögð á að draga úr notkun einkabílsins. Aðalskipulagið er hinsvegar ekki afturvirkt og vindur því ekki ofan af mistökum fortíðarinnar. Deiliskipulagið við Korputorg er eitt af þeim sem kveður á um mjög háan lágmarksfjölda bílastæða og í því eru að finna litlar sem engar vistvænar áherslur. Það yrði sennilega aldrei samþykkt í dag nema í verulega breyttri mynd. Costco rúmast engu að síður prýðilega innan þessa deiliskipulags og það er rétt að taka það fram að verslunin mun koma til með að fjölga störfum í austurhluta borgarinnar en það er eitt af aðalmarkmiðum núgildandi aðalskipulags. Borgaryfirvöldum í Reykjavík er því illa stætt á því að standa í vegi fyrir innreið Costco á Korputorg. Það er hinsvegar ekki þar með sagt að umræðan, einkum og sér í lagi á meðal borgarfulltrúa, eigi ekki að vera gagnrýnni og sett fram í stærra samhengi og með langtímahagsmuni almennings og umhverfisins að leiðarljósi.  

Sofandi að feigðarósi

Ég sakna þess að umræðan um hugsanlega komu Costco til landsins snúist ekki meira um þær umhverfis- og heilsufarslegu fórnir sem við sem samfélag þurfum að færa til þess að til þess að hér sé grundvöllur fyrir rekstri slíkrar verslunar. Að undanskildum nokkrum þjóðernis-popúlisma-pillum frá valinkunnu Framsóknarfólki verða sömu markaðssjónarmiðin um aukna samkeppni og lægra vöruverð alltaf ofan á í umræðunni án þess að þau séu nokkurn tíman dregin í efa. Skammtímahugsunin er algjör. Við verðum að fara að átta okkur á því að ákvarðanir í skipulagsmálum hafa bein áhrif á efnahag og heilsufar þjóðarinnar og sú staðreynd að það standi til að stórefla rekstargrundvöll Korputorgs án þess að fram fari nokkur umræða um hugsanlegar afleiðingar slíkrar ákvörðunar í stóru umhverfis- og heilsufarslegu samhengi er verulegt áhyggjuefni. Dæmið frá Halifax hér að ofan er ekki nein tilviljun. Það er ekki að ástæðulausu að árið 2020 muni annar hver fullorðinn einstaklingur í Nova Scotia þjást af offitu. Þegar sama staða verður komin upp á Íslandi eftir 30 ár þá er ég ekki viss um að skipulagsyfirvöld síðustu áratuga geti með góðri samvisku litið yfir fundargerðir þar sem litlar sem engar mótbárur voru hreyfðar við komu Costco til Reykjavíkur og eflingu Korputorgs í kjölfarið.   

Ég er þeirrar skoðunar að verslunarkjarnar og byggðarþróun á borð við Korputorg séu asbest samtímans. Þessir kjarnar eru vissulega til margra hluta nytsamlegir, einkum til að halda niðri verðlagi og stuðla að aukinni atvinnu, en líkt og með asbest-einangrunina á árum áður þá er um að ræða dýrkeyptan og skammgóðan vermi.