Hver eru áhrif borgarumhverfis á hamingju er yfirskrift fundar sem haldinn verður á Kjarvalsstöðum kl. 20:00 í kvöld. Fundurinn er hluti af fundaröðinni Heimkynni okkar, borgin, sem umhverfis- og skipulagssvið borgarinnar stendur fyrir. Það er óhætt að segja að þetta sé áhugaverður fundur og ég hvet sem flesta til að mæta, sér í lagi þar sem einvala lið skipar panelinn þessu sinni.
Hamingja er auðvitað gildishlaðið og ákaflega einstaklingsbundið hugtak. Ég held hinsvegar að flest getum við verið sammála um að frelsi sé hornsteinn hamingjunnar. Við viljum hafa frelsi til að velja og borgarskipulag á að stuðla að því að sem flestir geta valið hvernig þeir haga lífi sínu í borginni að því gefnu að fólk átti sig á því að frelsi fylgir ábyrgð. í borgum snýr sú ábyrgð einna helst að því hvaða ferðamáta við veljum okkur.
Persónulega vil ég geta valið á milli mismunandi ferðamáta sem henta aðstæðum hverju sinni. Ég reyni eftir fremsta magni að menga sem minnst, ekki síst vegna þess að ég vil ekki spilla sameiginlegum loftgæðum okkar allra. Best þykir mér að hjóla eða ganga og nýta þannig eigin vélarafl til að komast á milli staða. Ég nýt þess einnig mjög að sitja í strætó og lesa eitthvað áhugvert eða hlusta á músík. Þegar kemur að því að versla í matinn fyrir vikuna hentar okkur fjölskyldunni hinsvegar best að vera á bíl þar sem stærri matvörverslanir eru að jafnaði ekki í göngufjarlægð frá heimili okkar í Reykjavík. Best væri ef allir byggju við sama frelsi og ég en svo er því miður ekki. Fyrir því eru auðvitað fjölmargar ástæður en margar þeirra má finna í borgarumhverfinu og hvernig það er hannað og skipulagt.
Ef borgarumhverfi á að stuðla að aukinni hamingju borgarbúa þá er lykilatriði að allir hafi frelsi til að velja.