Ég trúi því að lífið snúist um framtíðarsýn, háleit markmið og stanslausa sjálfsskoðun. Þetta helst raunar allt í hendur og að einhverju leyti er framtíðarsýn, markmið og sjálfsskoðun einn og sami hluturinn. Ég hef að vissu leyti kjarnað mína framtíðarsýn innan marka borgarskipulagsfræða og þar liggur mín ástríða og einlæga trú á að borgir séu vettvangurinn til að breyta heiminum til betri vegar. Í þeim efnum er Reykjavík smátt og smátt að verða sú borg sem ég hef trú á að geti orðið öðrum borgum fyrirmynd þegar fram líða stundir. Ég hef háleit markmið um hvernig borg Reykjavík getur orðið og afhverju það er mikilvægt. Að stórum hluta mun efni þessarar síðu fjalla um þá framtíðarsýn sem ég hef fyrir Reykjavík og hvernig hægt er að vinna henni brautargengi á einn eða annan hátt.
Til að vita hvert við erum að fara þurfum hinsvegar við að vita hvar við erum og hvernig við komumst hingað. Þar kemur sjálfsskoðunin til skjalanna og hana má leggja rækt við í stóru og smáu samhengi. Að einhverju leyti verður efni þessarar síðu skoðun á eigin sjálfi, sjálfi Reykjavíkur eða sjálfi annarra borga.
Steinninn sem þessari síðu er ætlað að hola á sér margar hliðar og höggstaðirnir eru jafn misjafnir og þeir eru margir. Hver færsla verður vonandi lítill dropi sem að endingu holar steininnn.