Kvaðir í Kvosinni

Áhugaverðar breytingar á deiliskipulagi Kvosarinnar og Grjótaþorps eru nú til kynningar hjá Reykjavíkurborg. Í breytingartillögunum er kveðið á um hámarkshlutfall gistiþjónustu á svæðinu en borgarstjóri hefur áður lýst því yfir að hann vilji beina hóteluppbyggingu til annarra hverfa en miðborgarinnar á næstu árum. Ef breytingarnar ná fram að ganga má hlutfall gistþjónustu, sbr. lög um veitingastaði, gististaði og skemmtanahald nr. 85/2007, ekki fara yfir 23% af samtölu birtrar stærðar eigna á skilgreindu svæði, sem nær yfir deiliskipulagssvæði Kvosarinnar í heild og hluta deiliskipulagssvæðis Grjótaþorps. Hámarkshlutfallið er miðað við núverandi starfsemi, útgefnar byggingaheimildir og heimildir um gistiþjónustu skv. samþykktum deiliskipulagsáætlunum.

Skýr stefna

Með þessum breytingartillögum er ljóst að borgaryfirvöldum er full alvara með stöðva frekari hóteluppbyggingu í miðbænum og er hér að vissu leyti um að ræða nýja nálgun í skipulagsmálum borgarinnar. Sóley Tómasdóttir, forseti borgarstjórnar, hefur áður bent á að borgin geti ekki hafnað fyrirspurnum um frekari hóteluppbyggingu í miðbænum en núverandi meirihluti virðist nú vera búinn að þróa verkfæri sem gerir þeim kleift að slá frekari uppbyggingaráætlanir út af borðinu. Ég hef áður fjallað um starfsemiskvóta í miðborg Reykjavíkur, en hið nýja hámarkshlutfall gistiþjónustu sem nú er kynnt til sögunnar er af allt öðrum toga. Starfsemiskvótarnir ná eingöngu til jarðhæða bygginga  en hámarkshlutfallið nær til allra bygginga í heild sinni innan skilgreinda svæðisins.  

Sumir munu hagnast - aðrir tapa

Í breytingartillögunum kemur ekki fram hvert núverandi hlutfall gistiþjónustu á svæðinu er. Engu að síður er ljóst að ef tillögurnar verða samþykktar verður lítið sem ekkert svigrúm fyrir aukna gistiþjónustu nema núverandi rekstaraðilar hætti starfsemi eða flytji hana annað. Af þessu má ætla að þau gistileyfi sem nú eru í gildi á þessu eftirsótta svæði verða mun verðmætari en áður og er því um verulega hagsmuni að ræða fyrir hótel- og gistihúsa eigendur í miðborg Reykjavíkur. Það er hinsvegar viðbúið að þeir aðilar sem nýverið hafa keypt húsnæði á svæðinu á uppsprengdu verði með það að markmiði að selja gistiþjónustu munu sitja eftir með sárt ennið. 

Umhverfisvæn verðmæti

Torfusamtökin sendu frá sér yfirlýsingu þann 12. febrúar síðastliðin vegna fyrirhugaðs niðurrifs Rammagerðarinnar í Hafnarstræti 19 í Reykjavík. Samtökin segja að ómet­an­leg verðmæti geti farið for­görðum verði húsið rifið en eigendur hússins, Suður­hús ehf., segja að steyp­an í hús­inu sé ónýt og því þurfi að rífa það og byggja eft­ir­mynd þess. Til stendur að reka hótel í húsinu. 

 Fyrirhugaðar framkvæmdir við Hafnarstræti 

Í samræmi við skipulag? 

Það skal ósagt látið hvort að steypan í húsinu sé ónýt eða hvort að hér sé um að ræða fyrirslátt líkt og Torfusamtökin láta í veðri vaka. Óháð úttekt ætti hæglega að geta skorið úr um ástand hússins og með réttu ættu borgaryfirvöld að fara fram á slíka úttekt í ljósi þess að hér um að ræða sögufræga byggingu í hjarta borgarinnar. Í aðalskipulagi Reykjavíkur má finna kafla um borgarvernd þar sem kveðið er á um að "menningarsöguleg gildi verði höfð í heiðri við skipulagningu, hönnun og uppbyggingun borgarinnar á öllum stigum - við skipulagingu hverfa, hönnun bygginga, gatnumhverfis, torga, garða og almenningsrýma, götu gagna og annarra mannvirkja" (bls. 152). Þar segir einnig að "Ákvarðanir um verndun byggðaheilda, húsaraða, stakra húsa, og annarra mannvirkja verði ávallt byggðar á faglegu og heildrænu mati með almannahagsmuni að leiðarljósi" (bls. 152). Þessi ákvæði, auk fjölda annarra eiga sérstaklega við um svæðið innan Hringbrautar sem sjá má hér fyrir neðan sem nýtur sérstakar hverfisverndar í aðalskipulaginu: 

Innbyggð orka

Önnur hlið á máli sem þessu sem einnig er mikilvægt að vekja athygli á snýr að umhverfisvernd. Í allri umræðu um sjálfbærni, notkun orku og annarra auðlinda verður að hafa hugfast að umhverfisvænustu byggingarnar eru í flestum tilfellum þær sem nú þegar hafa verið byggðar. Það fer gríðarleg orka í byggingu húsa, í orðsins fyllstu merkingu. Það þarf að aka efni til og frá byggingarsvæðinu, nota ógrynni af rafmagni, steypu, stáli, gleri, osfrv. Öll þessi orka og byggingarefnin eru innbyggð í húsið (e. embodied energy) og munu fara til spillis að stærstum hluta þegar hús eru rifin. Allt skilar þetta sér í aukinni losun gróðurhúsalofttegunda, en myndin hér að neðan er dæmi um áætlað losunarhlutfall ýmissa verkþátta byggingaframkvæmdar

Besta leiðin

Minja- og menningarsöguleg gildi borgarumhverfis eru afar mikilvægir þættir í borgarskipulagi, sér í lagi í tengslum við ferðaþjónustu og upbbygingu hennar. Minjagildi húsa felast í húsunum sjálfum, ekki eftirbyggingum þeirra, sama hve nákvæmar þær kunna að vera. Niðurrif húsa, jafnvel þó að til standi að byggja umhverfisvænar byggingar í þeirra stað á sömu lóð er einnig afar óumhverfisvæn iðja, einkum með tilliti til losunar gróðurhúsalofttegunda. Ákjósanlegast er að varðveita byggingar en á sama tíma endurnýta þær í takt við tímann hverju sinni (e. adaptive reuse). Frábært dæmi um slíkt skipulag og uppbyggingu eru verbúðirnar við Grandagarð í Reykjavík en þær hafa öðlast nýtt líf með breyttri starfsemi án þess þó að nokkurt niðurrif hafi átt sér stað. 

Samnýtingarbölið

Í Aðalskipulagi Reykjavíkur eru settir fram tvenns konar starfsemiskvótar í miðborg Reykjavíkur. Annars vegar kvótar með það að markmiði að vernda og efla smávöruverslun og hinsvegar kvótar sem miða að því að tryggja fjölbreytilega starfsemi. Kvótarnir tryggja visst lágmarkshlutfall smávöruverslunar við ákveðin götusvæði auk þess sem þau kveða á um hámarkshlutfall starfsemi af svipuðum toga við ákveðin götusvæði eða torg. Markmiðin með þessum kvótum eru eftirfarandi og má lesa nánar um hér á bls. 218-219:

  • Stuðla að heildarmynd göturýmisins með því að samræma útlit og umhverfi.
  • Efla mannlíf í göturýmum.
  • Tryggja samfellu í verslunargötuhliðum.
  • Stuðla að fjölbreyttri starfsemi.
  • Vernda og efla smávöruverslun. 

Freki kallinn

    Í Morgunblaði dagsins er vísað í starfsemiskvótanna og rætt við Gunn­ar Guðjóns­son kaupmann við Laugaveg og formann Sam­taka kaup­manna og fast­eigna­eig­enda við Lauga­veg. Að vanda er Gunnar neikvæður, kvartar yfir túristum og keppist við að tala niður Laugaveginn og finna honum allt til foráttu. Hann syrgir verslunina Dressman og hefur áhyggjur af því að þekkt­ar versl­an­ir með alþjóðleg vörumerki vilji ekki opna í miðborg Reykjavíkur vegna af­stöðu borg­ar­yf­ir­valda. „Al­menn versl­un er orðin und­ir og við taka lunda­búðir og veit­ingastaðir“ seg­ir Gunn­ar sem af einhverjum ástæðum virðist vera tilneyddur til að reka verslun við Laugaveg þrátt fyrir verslunarmiðstöðvar á borð við Kringluna, Smáralind og Korputorg hafi beinlínis verið fundnar upp til að svara kalli hans og annarra sem sækjast eftir hreinræktuðum verslunarvæðum þar sem allt snýst um þægindi. 

    Óneitanlega leitar hugurinn til skrifa Jóns Gnarr um freka kallinn, sem ég hef áður vísað í á þessari síðu, þegar Gunnar og félagar hefja upp raust sína. Blessunarlega var Gunnari svarað snögglega af Magnúsi Berg Magnússyni, kaupmanni við Hverfisgötu sem nýlega opnaði húsgagnaverslunina Norr11 ásamt konu sinni. Magnús bendir réttilega á þá staðreynd að það sé ekkert því til fyrirstöðu að alþjóðlegar verslanakeðjur séu reknar hér á landi við hlið lundabúða. "Það eru fjölmargar túristabúðir á Strikinu en það stoppar ekki H&M að vera við hliðina á þeim“ segir Magnús og nefnir jafnframt að fjöldi túristabúða á Laugarveginum sé hluti af eðlilegri borgarþróun. "Þetta sést líka í öðrum borgum. Stærri götur verða túristamiðaðri og göturnar í kring taka að lifna. Það er nýbúið að taka Hverfisgötuna í gegn og hér opna nýjar verslanir í hverjum mánuði. Þær eru oft sérhæfðari og metnaðarfyllri verslanir sem „lókallinn“ þekkir. Flottustu búðirnar eru ekki endilega á Strikinu heldur í hliðargötum“. Á Twitter tóku aðrir í sama streng. 

    Hróplegt skipulagsleysi

    Guðrún Helga Sigurðardóttir, blaðamaður og ökuleiðsögumaður er einnig ein af þeim sem er ekki sátt við stöðu mála í miðborginni. Í opnu bréfi til Hjálmars Sveinssonar, formanns umhverfis- og skipulagsráðs lýsir hún "hróplegu skipulagsleysi" hvað varðar bílastæðamál hótela og gistihúsa úti um alla borg. Hún vísar einkum til ákvörðunar sem ráðið tók í tengslum við nýtt hótel sem á að opna við Hlemm, en þar eiga 17 bílastæði að nægja undir starfsemina. Bílasalinn og borgarfulltrúinn Júlíus Vífill hafði áður lýst yfir áhyggjum vegna þessara áætlana. Bæði hafa þau sitthvað til síns máls, enda ljóst að íbúar og gestir miðbæjarins hafa ekki farið varhluta af farþegaflutningum á svæðinu, flestum til ama við núverandi aðstæður. Það sem ég geri hinsvegar athugasemd við er eftirfarandi röksemdarfærsla Guðrúnar:

    "Ferðamenn kaupa þá þjónustu að vera sóttir eða þeim skilað í næsta nágrenni gististaðar. Það er greinilega markaður fyrir þessa þjónustu og því sjálfsagt að bjóða upp á hana."

    Það er mikill misskilningur að þó að það sé eftirspurn eftir ákveðinni þjónustu þá sé sjálfsagt að bjóða upp á hana. Til samanburðar hefur um langt skeið verið eftirspurn eftir nektardansklúbbum í miðbænum en starfsemi þeirra er engu að síður óheimil. Raunar var sett inn sérákvæði í deiliskipulag Kvosarinnar árið 1997 þar sem "óheimilt er að setja á stofn eða starfrækja nýja næturklúbba (nektarklúbba) innan svæðisins". 

    Víða erlendis er almenn bílaumferð heilt yfir óheimil í miðborgum en engu að síður þrífst hótelstarfsemi þar með miklum ágætum. 

    Tragedy of the commons

    Margir þekkja hagfræðingukenningu Garret Hardin, Tragedy of the commons, sem Hannes Hólmsteinn kallar "samnýtingarbölið". Kenningin skýrir listilega vel þann vanda sem hlýst af því að margir nýti saman einhver gæði. Þá er hætt við því, að einhver freistist til að ofnýta gæðin og að endingu mun auðlindin eyðileggjast fyrir fárra sakir en kostnaðurinn mun hinsvegar skiptast á alla. Kenningin á vel við um miðborgina og hugsanlegar afleiðingar þess að leyfa einni starfsemi að eignast of mikla hlutdeild í borgarumhverfinu, hvort sem að það er í formi bílastæða, akstri hópferðabíla eða annarrar plássfrekrar starfsemi. Að sjálfsögðu má einnig heimfæra kenninguna yfir á umfang verslunar og þjónustu sem undirstrikar mikilvægi starfsemiskvóta í miðborginni

    Öll dýrin í skóginum eiga að vera vinir

    Fjölbreytt starfsemi er einkenni miðborga og jafnframt þeirra helsti styrkleiki. Í Aðalskipulaginu er komist svo að orði á bls. 189-190:

    "Til að viðhalda fjölbreytileikanum er mikilvægt að stuðla að blandaðri starfsemi sem fellur vel saman og hefur heppileg áhrif á miðborgarbraginn. Verslun, skrifstofustarfsemi og veitingarekstur stuðlar til dæmis að samnýtingu aðstöðu og tryggir miðborgarlíf á ólíkum tíma dagsins. Veitinga­ starfsemi á íbúðarsvæðum getur hins vegar orðið árekstra­ valdur sé tillitssemi ónóg. Sama á við um ferðaþjónustu sem getur orðið fráhrindandi ef hún fléttast ekki eðlilega inn í þjónustu fyrir íbúa. Sum tegund starfsemi er opin öll­ um almenningi, gefur af sér út í göturýmið og getur tengt saman ólíka aðila í miðborginni. Önnur starfsemi höfðar einungis til sérhæfðs hóps og fer best fram fyrir luktum dyrum. Enn önnur starfsemi þarfnast næðis. Við sækjum miðborgina af ólíkum ástæðum. Dveljumst þar mislengi og á ólíkum tíma dags. Því er brýnt að miðborgin geti rækt öll sín ólíku hlutverk og að þar sé fullnægt mismunandi óskum og hagsmunum án þess að neinum sé troðið um tær. Í miðborginni þurfa einnig að vera í boði fjölbreytt rými fyrir ólíkar athafnir, rými sem eru ólíkrar ásýndar og hafa margvíslega eiginleika, þar sem er hægt að gleyma sér í ysi og þysi borgariðunnar en líka að vera einn með sjálfum sér". 

    Auðvitað er ekki einfalt mál að tryggja að miðborgin geti rækt öll sín ólíku hlutverk en neikvæðni, bölmóður og barátta fyrir eigin hagsmunum er ekki líkleg til árangurs. 

    Frelsi til að velja

    Hver eru áhrif borgarumhverfis á hamingju er yfirskrift fundar sem haldinn verður á Kjarvalsstöðum kl. 20:00 í kvöld. Fundurinn er hluti af fundaröðinni Heimkynni okkar, borgin, sem umhverfis- og skipulagssvið borgarinnar stendur fyrir. Það er óhætt að segja að þetta sé áhugaverður fundur og ég hvet sem flesta til að mæta, sér í lagi þar sem einvala lið skipar panelinn þessu sinni. 

    Hamingja er auðvitað gildishlaðið og ákaflega einstaklingsbundið hugtak. Ég held hinsvegar að flest getum við verið sammála um að frelsi sé hornsteinn hamingjunnar. Við viljum hafa frelsi til að velja og borgarskipulag á að stuðla að því að sem flestir geta valið hvernig þeir haga lífi sínu í borginni að því gefnu að fólk átti sig á því að frelsi fylgir ábyrgð. í borgum snýr sú ábyrgð einna helst að því hvaða ferðamáta við veljum okkur.

    Persónulega vil ég geta valið á milli mismunandi ferðamáta sem henta aðstæðum hverju sinni. Ég reyni eftir fremsta magni að menga sem minnst, ekki síst vegna þess að ég vil ekki spilla sameiginlegum loftgæðum okkar allra. Best þykir mér að hjóla eða ganga og nýta þannig eigin vélarafl til að komast á milli staða. Ég nýt þess einnig mjög að sitja í strætó og lesa eitthvað áhugvert eða hlusta á músík. Þegar kemur að því að versla í matinn fyrir vikuna hentar okkur fjölskyldunni hinsvegar best að vera á bíl þar sem stærri matvörverslanir eru að jafnaði ekki í göngufjarlægð frá heimili okkar í Reykjavík. Best væri ef allir byggju við sama frelsi og ég en svo er því miður ekki. Fyrir því eru auðvitað fjölmargar ástæður en margar þeirra má finna í borgarumhverfinu og hvernig það er hannað og skipulagt.

    Ef borgarumhverfi á að stuðla að aukinni hamingju borgarbúa þá er lykilatriði að allir hafi frelsi til að velja.   


    Sneckdown

    Það hefur snjóað mikið hér í suðurhluta Ontario síðustu daga og við slíkar aðstæður er alltaf áhugavert að rýna í borgarlandið. Snjórinn hefur löngum veitt borgarspekúlöntum áhugaverðar vísbendingar um hvað bílaumferð þarf raunverulega mikið pláss og hvar væri hægt að koma fyrir hjólastígum, breiðari gangstéttum og jafnvel litlum torgum til að hlúa að bættu mannlífi og auka öryggi vegfarenda í göturýmum. 

    Á Twitter og öðrum samfélagsmiðlum hafa greiningar af þessum toga verið að ryðja sér til rúms, fyrst og fremst merktar með kassmerkinu #sneckdown, en einnig #plowza og #snovered. Hér má lesa um tilurð orðsins sneckdown sem á skömmum tíma hefur náð góðri fótfestu um allan heim meðal áhugafólks um borgarskipulag. Ég mæli einnig með þessari ágætu færslu til að skerpa enn frekar á hugmyndafræðinni: What Snow Tells Us About Creating Better Public Spaces on E. Passyunk Avenue 

    Að lokum fylgir eitt myndskeið með fyrir áhugasama



    Tilgangslausar framkvæmdir?

    Mér varð hugsað til bloggfærslu sem Egill Helgason birti ekki alls fyrir löngu á meðan ég rýndi í niðurstöður mjög svo áhugverðrar rannsóknar frá árinu 2010 sem ber heitið Infrastructure, programs, and policies to increase bicycling: An international review og birtist í hinu virta tímariti Preventitive Medicine. Niðurstöður rannsóknarinnar, sem í raun er samantekt á niðurstöðum 139 annarra rannsókna á áhrifum framkvæmda og verkefna sem miða að því að auka hjólreiðar í borgum um allan heim, eru afgerandi og sýna fram á bein tengsl milli stefnumótunar og uppbyggingu innviða fyrir hjólreiðar og fjölgun hjólreiðafólks í borgum. Eitt prýðilegt dæmi er frá borginni Portland í Oregon fylki í Bandaríkjunum. Þar átti sér stað 247% aukning í lagningu hjólastíga frá árinu 1991 (79 mílur) til ársins 2008 (274 mílur). Grafið hér að neðan (sjá hér) sýnir aukningu hjólreiða í Portland á tímabilinu:

    If you build them, they will come

    Færsla Egils, sem ber heitið Tilgangslausar framkvæmdir snýr að uppbyggingu hjólastíga við Grensásveg í Reykjavík. Í færslunni kemst Egill, sem alla jafna skrifar um skipulagsmál af mikilli þekkingu, svo að orði: 

    "Keyrði Grensásveginn áðan, þann hluta sem á að fara að breyta. Á þessum hluta vegarins er fjarska rúmgott fyrir alla, bíla, gangandi vegfarendur, hjól. Maður sér varla að neinu þurfi að breyta – hvað þá kosta til miklu fé.

    Egill heldur áfram og skrifar: 

    "Þarna er svolítið eins og farið sé í framkvæmdir bara til að gera eitthvað (jú og þá man maður eftir hinum tilgangslausa reiðhjólastíg sem hefur verið lagður niður Frakkastíginn, en bara frá Skólavörðuholtinu niður að Njálsgötu)."

    Þarna lýsir Egill hættulegu viðhorfi til borgarskipulags sem er lykilatriði að breyta til að Aðalskipulag Reykjavíkur nái fram að ganga og að Reykjavík nútímavæðist og standist samanburð við aðrar borgir. Hjólreiðar eiga að vera valkostur fyrir alla, ekki einungis þá sem treysta sér til að hjóla í bílaumferð eða innan um gangandi vegfarendur. Einmitt þess vegna þarf að fækka akreinum við götur eins og Grensásveg og byggja upp hjólastíga til að ungir sem aldnir treysti sér til að hjóla og upplifi öryggi og ánægju á ferðum sínum um borgina. Myndbandið hér að neðan, sem mætti kalla Hjólastígar 101, segir allt sem segja þarf: 

    Stórt og mikið púsluspil

    Við megum ekki láta skammsýni ráða för og það er lykilatriði að líta á lagningu hjólastíga sem langtíma-púsluspil. Í hvert skipti sem ráðist er í gatnaframkvæmdir, líkt og við Frakkastíg á síngum tíma, þá er nauðsynlegt að nýta tækifærið og koma fyrir hjólastígum í göturýminu, sama hve stuttir þeir kunna að vera. Við verðum að hugsa um heildarmyndina og líta á hvern einasta hjólastígs-stubb sem hluta af henni. Eftir 20-30 ár verða stubbarnir ekki lengur stubbar heldur hluti af umfangsmiklu hjólastíganeti sem mun ná um alla borg samkvæmt Hjólreiðaáætun Reykjavíkurborgar. Lagning hjólastíga er aldrei tilgangslaus og hver einasti metri skiptir máli.


    Vítahringur meintrar velmegunar

    Þrátt fyrir að umræða um mikilvægi holls mataræðis og heilbrigðs lífsstíls sé í hámæli og aðgengi almennings að upplýsingum sé nær óendanlegt er líkt og borgarsamfélög séu föst í banvænum vítahring. Í afar fróðlegri grein eftir Guðmund Löve, framkvæmdastjóra SÍBS í nýjasta tölublaði sambandsins, bendir höfundur á að hækkandi lífaldur og heilbrigð ævi eru ekki einn og sami hluturinn:

    "Í fyrsta sinn á seinni tíð er nú raunveruleg hætta á að næsta kynslóð lifi skemur en þær sem á undan hafa gengið. Þótt lífaldur hafi lengst er heilbrigð ævi ekki að lengjast að sama skapi, og þar er fyrst og fremst um að kenna hinum svo­ kölluðu lífsstílssjúkdómum – hinum óumdeilda faraldri 21. aldarinnar."

    Það sem höfundur greinarinnar á við um heilbrigða ævi er að lengd mannsævinnar segi okkur ekki allt um heilsufar fólks. Sífellt stærri hópur fólks verður af ákveðnum lífsgæðum eða góðum æviárum vegna örorku og sjúkdóma með gríðarlegum kostnaði fyrir samfélagið. Þá er ónefndur kostnaðurinn af hinum ógnvaldinum sem vestrænar þjóðir standa frammi fyrir sem eru loftlagsbreytingar. Lýðheilsa og loftlagsbreytingar eru nefnilega tvær hliðar á sama peningi.

    Er rót vandans kapítalismi?

    Á Íslandi, líkt og víðast hvar annars staðar í heiminum hefur hagvöxtur, knúinn áfram af vergri landsframleiðslu (e. Gross Domestic Product) verið álitinn upphaf og endir alls sem skiptir máli. Af heilsufari þjóðarinnarástandi heilbrigðiskerfisins og þróun loftlagsmála er hinsvegar ljóst að hagvöxtur er meingallaður mælikvarði á lífsgæði. Er mögulegt að rót vandans sé nútíma kapítalismi?

    Líkt og myndin hér að ofan sýnir þá eru afleiðingar markaðskerfisins sem nú er við lýði aukinn hagvöxtur en einnig aukin losun gróðurhúsalofttegunda sem og aukin tíðni lífsstílsjúkdóma. Neysla hefur aukist gríðarlega, með tilheyrandi aukningu í framleiðslu sem eykur losun gróðurhúsalofttegunda. Krafan um aukna framlegð fyrirtækja hefur leitt til örrar þróunar ýmisskonar tækni sem hefur komið í stað vinnuafls sem áður sinnti líkamlegri vinnu. Í mörgum tilvikum hefur þessi þróun leitt til atvinnuleysis og tekjuójöfnuðar. Einmitt undir þeim kringumstæðum virðist vera hvað brýnast að auka hagvöxtinn til að bregðast við atvinnuleysinu og jafna kjör fólks. Þannig eykst landsframleiðslan og ýtir enn frekar undir hagvöxt með tilheyrandi streituvaldandi lífsgæðakapphlaupi. Í slíku umhverfi eiga vinnudagar til að lengjast, sbr. á Íslandi þar sem vinnudagurinn er sá lengsti á Norðurlöndunum. Langur vinnudagur skapar lítinn tíma til eldamennsku og fyrir vikið hefur neysla á óhollri fyrirfram-eldaðri matvöru aukist gríðarlega sem aftur ýtir undir orkufreka framleiðslu sem losar mikið magn gróðurhúsalofttegunda. Allt virðist þetta síðan leiða með einum eða öðrum hætti til aukinnar tíðni lífsstílssjúkdóma. 

    Hið byggða umhverfi

    Það má eflaust finna gloppur í skýringarmyndinni sem ég bjó til hér að ofan enda er ég ekki hagfræðingur. Skipulagsfræði er hinsvegar mitt fag og því ákvað ég að breyta myndinni lítillega.
    Er rót vandans hugsanlega hið byggða umhverfi og hvernig við skipuleggjum borgirnar okkar? Þeirri spurningu og ótal öðrum verður velt upp miðvikudagsvöldið 12. nóvember á Kjarvalsstöðum kl. 20:00Ég hlakka til að sjá ykkur!

    Hlíðarendi

    Enn og aftur hefur sprottið upp umræða um Reykjavíkurflugvöll og nú í tengslum við fyrirhugaða uppbyggingu á Hlíðarenda. Fréttastofa Stöðvar 2 setti málið í hálfgerðan æsifréttabúning og Hilmar Þór Björnsson arkitekt fjallar einnig um málið á heimasíðu sinni. Mér sýnist ekki vanþörf á að skerpa aðeins á eftirfarandi staðreyndum í tengslum við þetta mál sem hefur hlotið mjög einhliða og oft á tíðum ónákvæma umfjöllun á síðustu dögum.

    Deiliskipulagstillagan sem um ræðir var unnin í samvinnu Reykjavíkurborgar og Isavia á grundvelli samkomulags ríkis og borgar frá 25. október 2013 og Aðalskipulags Reykjavíkur 2010-2030, sem nú hefur verið staðfest. Deiliskipulagstillagan er í einu og öllu í samræmi við markmið og ákvæði fyrrnefnds samkomulags og er endurskoðun deiliskipulagsins í raun forsenda þess að samkomulaginu (viðbótarsamkomulaginu) verði fylgt eftir. Viðfangsefni nefndarinnar, sem skipuð var samkvæmt samkomulaginu, er fyrst og fremst að gera frekari könnun á staðarvalskostum fyrir innanlandsflug. Í öllum fyrri athugunum sem gerðar hafa verið á mögulegum valkostum innanlandsflugvallar hefur ávallt verið miðað við 2ja brauta flugvöll í samanburði við 2ja brauta grunnkost í Vatnsmýri.

    Upphaflega voru settar fram tillögur um lokun NA-SV flugbrautar í skýrslu samgönguráðherra, „Sambýli flugs og byggðar“ frá árinu  1990. Tillögurnar voru unnar af nefnd sem sett var á stofn í kjölfar alvarlegs flugslyss sem átti sér stað á Reykjavíkurflugvelli í ágúst 1988. Eins og nafn skýrslunnar ber með sér var áherslan í vinnunni að meta umhverfisáhrif og áhættuþætti flugrekstrar í nálægð við byggð. Á undirskriftarsíðu skýrslunnar segir: „Í álitinu setur nefndin fram tillögur sem miða að því að draga úr augljósum áhættuþáttum, ónæði og mengun án þess að skerða mikilvægi Reykjavíkurflugvallar sem miðstöð samgangna í innanlandsflugi. Tillögurnar eru byggðar á hættumati nefndarinnar og mati á slysalíkum umhverfis flugvölinn. Full samstaða tókst um þessar tillögur í nefndinni.“  Í nefndinni sátu m.a. flugmálastjóri og framkvæmdastjóri flugvalladeildar Flugmálastjórnar. Í niðurstöðum skýrslunnar segir m.a. (bls. 70): „Að öllu samanlögðu verður að telja að mest áhætta sé tekin við notkun NA/SV-brautar og að tvímælalaust beri að loka henni. Auk þess sem brautin hefur hverfandi vægi í notagildi flugvallarins…“

    Í framhaldi af starfi áhættumatsnefndar samgönguráðherra árið 1990, hefur lokun NA-SV ávallt verið markmið í allri stefnumörkun um flugvöllinn, hvort sem litið er til aðalskipulags Reykjavíkur (AR1990-2010, 1996-2016 og AR2001-2024), deiliskipulags flugvallarins frá 1999 og þeirra fjölmörgu sameiginlegu yfirlýsinga borgar og ríkis um framtíð flugvallarins á síðustu árum. Staðfesting Aðalskipulags Reykjavíkur 2010-2030 og samkomulag ríkis og borgar (viðbótarsamkomulag undirritað af innanríkisráðherra og borgarstjóra) frá 25. október 2013, er því lokaskrefið í að tryggja framfylgd þessa markmiðs. Raunar var NA-SV flugbrautin þegar felld út af aðalskipulagi árið 2007, með sérstakri breytingu á AR2001-2024, m.a. vegna  staðsetningar samgöngumiðstöðvar norðan Loftleiðahótels, þar sem NA-SV brautin liggur. Það staðarval samgöngumiðstöðvar var niðurstaða sameiginlegrar nefndar samgönguráðuneytis og Reykjavíkurborgar. Það er áhugavert og rétt að taka fram að Leifur Magnússon, einn frummælenda á fundi sem samtökin Hjartað í Vatnsmýri hélt nýlega, sat í nefndinni sem komst að þessari niðurstöðu. Breyting þessi frá 2007 var staðfest af umhverfisráðherra án fyrirvara.

    Það er því í algjörlega nýtt af nálinni að gera ágreining um lokun NA-SV brautar, sem sátt hefur verið um að stefna að um áratugaskeið. Sáttin byggist ekki síst á því að með lokun brautarinnar er dregið úr áhættu sem fylgir flugrekstri svo nærri þéttri byggð. Hér vegast á rekstrarlegt nýtingarhlutfall flugvallarins og aukið öryggi fyrir byggð í nágrenninu. Reynslutölur benda eindregið til þess að rekstrarlegt nothæfi vallarins verði ásættanlegt eftir lokun umræddrar brautar, auk þess sem rekstraröryggi mætti tryggja enn frekar með opnun sambærilegrar brautar á Keflavíkurflugvelli.

    Fullbyggt og fastmótað

    Það sló í brýnu milli borgaryfirvalda og íbúa við Austurbrún á dögunum þegar breyting á deiliskipulagi Laugaráss var samþykkt. Deiliskipulagsbreytingin er vegna lóðarinnar Austurbrún 6 og gerir ráð fyrir búsetuúrræði fyrir sex hreyfihamlaða einstaklinga. Um er að ræða 600 fermetra byggingu en fyrir er á lóðinni 13 hæða bygging með 71 íbúð. Þetta mál er áhugavert fyrir margra hluta sakir og gefur ágætis vísbendingu um það sem koma skal á næstu árum ef viss viðhorf til borgarskipulags og byggðarþróunar breytast ekki. Í athugasemdum íbúa Austurbrúnar 8,10,12 og 14 er að finna ýmis kunnuleg stef sem mörg hver eru réttmæt en önnur virðast byggð á misskilningi. Viðbrögð borgaryfirvalda eru einnig nokkuð fyrirsjáanleg og ekki til þess fallin að miðla málum. Niðurstaða málsins er óheppileg fyrir alla sem að málinu koma. Íbúunum þykir á sér brotið og hóta málsókn og borgayfirvöld sem í samstarfssáttmála hafa heitið að kynning og upplýsingagjöf til íbúa verði bætt í tengslum við skipulagsmál, bæði stór og smá eru komin í vörn. Allt kostar þetta tíma, peninga og orku sem annars væri hægt að nýta til ýmissa uppbyggilegra hluta. 

    Sagan endurtekur sig    

    Því miður virðist það vera orðinn viðtekin venja að breytingar á skipulagsáætlunum, hvort sem um er að ræða smávægilegar breytingar líkt og við Austurbrún 6 eða breytingar á aðalskipulagi vekja hörð viðbrögð þar sem kvartað er yfir skorti á gagnsæi og íbúalýðræði. Orð á borð við sýndarsamráð og gervigagnsæi eru orðin algeng í umræðu um skipulagsmál sem er dapurlegt. Það má öllum vera ljóst að þetta þarf að breytast ef að aðalskipulag Reykavíkur, sem er leiðarljós núverandi meirihluta í skipulags- og umhverfismálum á fram að ganga. Samkvæmt aðalskipulaginu munu 90% allra nýrra íbúða í Reykjavík rísa innan þéttbýlismarka fram til ársins 2030. Til að forðast að sagan endurtaki sig og uppbyggingaráætlanir endi fyrir dómstólum þurfa einkum tveir þættir að breytast: viðhorf borgarbúa til borgarlífs (e. urbansim) og undirbúningur og viðbrögð borgaryfirvalda við breytingum á fastmótaðri byggð. Hvort tveggja krefst vinnu, þolinmæði og umburðarlyndis. 

    Borgarrými er breytingum háð

    Í opnu bréfi vegna deiliskipulagsins við Laugarás koma íbúar við Austurbrún meðal annars eftirfarandi athugasemd á framfæri: 

    "Þegar íbúar ofanskráðra húsa byggðu eða keyptu hús sín, var talið útilokað að frekari byggingar yrðu reistar á þessu svæði enda sættu þessar úthlutanir á svo viðkvæmu svæði mótmælum. Í Aðalskipulagi Reykjavíkur 2010 - 2030, á bls 260 (sic) í Skipulag Borgarhluta segir : ÍB24 Laugarás. Svæðið er fullbyggt og fastmótað."

    Athugasemdin lýsir vel viðhorfi fólks til borgarinnar sem rík þörf er á að breyta. Reyndar er það svo, og þetta eiga íbúarnir að vita ef þeir kynntu sér ákvæðin í aðalskipulaginu líkt þeir gefa til kynna, að orðalagið fastmótuð byggð* er stjörnumerkt. Í skipulaginu segir nefnilega:

    "*Í fastmótaðri byggð má gera ráð fyrir breytingum á á núverandi húsnæði, viðbyggingum og öðrum endurbótum, svo og nýbyggingum eftir því sem ákveðið er í hverfis- og/eða deiliskipulagi."

    Það er vissulega ekkert klippt og skorið í þessum efnum og línan milli nauðsynlegrar stefnufestu og sveigjanleika er oft þunn. Það er hinsvegar alveg ljóst að þeir sem að kjósa að búa í borg á 21. öld þegar íbúar borga hafa aldrei verið fleiri í sögu mannkyns geta ekki reiknað með að útsýni þeirra haldist óskert um ókomna tíð eða að óbyggð svæði innan borgarinnar verði ekki nýtt til uppbyggingar á einhverjum tímapunkti. Skipulagsáætlanir eru ekki og verða aldrei meitlaðar í stein. Borgir eru breytingum háðar í takt við tímann og þarfir íbúa hverju sinni. Það skilar litlum árangri að lýsa sig alfarið andvíga fyrirhugaðri uppbyggingu líkt og íbúar við Austurbrún hafa gert. Samningsstaða þeirra er sjálfkrafa að engu orðin með slíkum málflutningi og þar af leiðandi eru líkurnar á farsælli lausn eða málamiðlun jafnframt orðnar að engu.  

    Í orði en ekki á borði

    Að því sögðu er rétt að huga að hlutverki og ábyrgð borgaryfirvalda í sambærilegum málum og í Laugarási. Líkt og fram kemur í athugasemdunum hafa íbúarnir ýmislegt til síns máls og í stað þess að gera því skóna að andstaða ríki við fyrirhugaða uppbyggingu vegna þess að um er að ræða búsetuúræði fyrir hreyfihamlaða væri yfirvöldum nær að taka til skoðunar þær athugasemdir sem ekki eru byggðar á misskilningi eða mistúlkun á skipulagsáætlunum. Íbúarnir nefna til að mynda ýmis dæmi um mál sem hefur verið hafnað á forsendum fyrra deiliskipulags. Hvernig væri að taka upp einhver af þeim málum nú og verða við óskum íbúa um lítillegar lengingar á bílskúrum og breytt litaval á utanhússmálningu svo dæmi séu nefnd? Afhverju er ekki eitt látið yfir alla ganga og reynt að koma til móts við íbúanna sem virðast vera ósáttir við meingallað deiliskipulag hverfisins þegar á annað borð er verið að breyta því? Í greinargerð deiliskipulagsbreytingarinnar er talað um samráð og samráðsaðila. Þar kemur hinsvegar ekkert fram um samráð heldur er lauslega gerð grein fyrir þeim aðilum sem eiga beina aðkomu að verkefninu. Í hverju felst samráðið nákvæmlega? Í raun má spyrja: hver er skilgreining borgaryfirvalda á hugtakinu samráð?

    Enginn vinnur og enginn tapar    

    Framundan eru krefjandi tímar fyrir þá sem koma að skipulagsmálum í Reykjavík og alla þá íbúa sem uppbygging næstu áratuga mun hafa áhrif á. Varaformaður umhverfis- og skipulagsráðs komst svo að orði í liðinni viku: "Stefnan hefur verið tekin, framundan er breytingaskeið og því fylgja vaxtaverkir." Það er fyrirhuguð uppbygging á fjöldanum öllum af reitum í hverfum sem hingað til hafa verið talin fullbyggð og fastmótuð. Bæði borgaryfirvöld og borgarbúar þurfa að koma að borðinu með breytt hugarfar ef aðalskipulag Reykjavíkur 2010-2030 á fram að ganga án þess að allt logi í óþarfa illdeilum og kostnaðarsömum málaferlum. 

    Reykvíkingum fjölgar ört og uppbygging á íbúðahúsnæði hefur aldrei verið jafn aðkallandi. Það verða allir að gera sér ljóst að nú þegar ákvörðun hefur verið tekin um að 90% uppbyggingar mun eiga sér stað innan þéttbýlismarka þá er beinlínis óábyrgt að gera kröfur um að ákveðin hverfi séu fastmótaðri og fullbyggðari en önnur (e. banana´ism). Vissulega þarf að vernda græn svæði og ákveðnir reitir eru heppilegri til uppbyggingar en aðrir en við eigum engu að síður skoða alla möguleika með opnum huga. Þegar byggt er í grónum hverfum samanber dæmið hér að ofan þá þarf borgin einnig að vera opin fyrir því að koma til móts við óskir íbúa á allan mögulegan hátt. Við verðum að skapa kúltúr sem snýr að því að miðla málum, helst áður en þau verða vandamál. Það á enginn að vinna og enginn að þurfa að tapa.  

    Asbest samtímans

    Ekki alls fyrir löngu átti sér stað talsverð umræða um framkvæmdir á horni Frakkastígs og Lindargötu en þar er verið að reisa háhýsi sem mun koma til með að skerða sjónlínu frá Skólavörðuholti norður Frakkastíg. Niðurstaða skipulagsráðs í málinu var að höfða til samvisku verktaka í Skuggahverfinu enda borginni ekki stætt á að aðhafast neitt samkvæmt skipulagslögum án þess að baka sér ríflega skaðabótaskyldu. Þrátt fyrir gjörbreyttar áherslur í skipulagsmálum á undanförnum árum þá skortir enn fyrningarákvæði í löggjöfina til að bregðast við skipulagsmistökum frá fyrri tíð. Korputorg er gott dæmi slík skipulagsmistök. 
    Húsnæðið sem staðið hefur hálf autt frá upphafi og valdið miklu fjárhagslegu tjóni fyrir vikið er minnisvarði um góðærisruglið sem átti sér stað hér á árum áður og birtingarmynd þess versta sem vestrænt borgarskipulag hefur upp á að bjóða. Korputorg er einhversskonar blanda af strip mall og power centrehvort um sig fyrirbæri sem hafa haft veruleg áhrif á þróun borga og neysluhegðun almennings á síðustu árum. Bayer´s Lake í Halifax, Nova Scotia er ágætis dæmi um svæði sem í upphafi níunda áratugarins var ekki ósvipað Korputorgi eins og við þekkjum það. Í dag lítur svæðið svona út og veldur gríðarlegum umferðarteppum með tilheyrandi mengun og umhverfisáhrifum:

    Frá árinu 1980 hefur önnur ógnvænleg þróun átt sér stað við austurströnd Kanada sem er öllu alvarlegri en umferðaröngþveiti við Bayer´s Lake. Ný rannsókn sýnir tíðni offitu á svæðinu í sögulegu hámarki en það er talið að yfir 37.5% íbúa þjáist af offitu. Á síðustu þremur áratugum hefur tíðni offitu í Kanada þrefaldast og innan fárra ára er talið að á vissum svæðum, t.d. í Nova Scotia, muni yfir helmingur fullorðinna einstaklinga þjást af offitu. Kostnaðurinn sem leggst á samfélagið allt vegna þessarar þróunar verður ekki rakin hér en það er rétt að taka fram að hann er stjarnfræðilegur

    Líkt og í mörgum sambærilegum verslunarkjörnum vestanhafs rekur hin margumrædda verslun Costco stórt útibú í Bayer´s Lake og það er fyrir tilstilli verslana líkt og hennar sem lítil korputorg breytast í eitt risavaxið bílastæði og verða áfangastaður neytenda í stórum stíl. Það skyldi í sjálfu sér engan undra enda býður verslunin upp á góð kjör á gæðavöru. Öll umræða um að matvaran sem er seld í verslunum Costco sé ekki í háum gæðaflokki er auðvitað galin og lyktar af forræðishyggju. Eftir því sem ég veit best eru Costco verslanir vel reknar í hvívetna og þeir viðskiptavinir Costco sem ég þekki eru hæstánægðir með verðlagið og þjónustuna sem þar er að finna. 

    Komandi kynslóðir borga

    Það má hinsvegar öllum vera ljóst að "sparnaðurinn" sem hlýst af því að reka verslanir við jaðar byggðar er ærinn og hann verður greiddur af samfélaginu öllu og komandi kynslóðum. Líka þeim sem hafa aldrei notið góðs af því lága vöruverði sem korputorg heimsins bjóða upp á og munu aldrei gera það. Eðli reksturs á borð við Costco krefst þess að viðskiptavinir komi akandi um langa leið til að versla. Stór hluti ástæðunnar fyrir því að þessar verslanir geta boðið lágt verð er vegna þess að þær standa á verðlitlu landi. Korputorg er þar engin undantekning. Auðvitað er ekki við Costco að sakast og sennilega er ábyrgðin að mestu þeirra yfirvalda sem gera sér ekki grein fyrir þeim afleidda kostnaði sem af þessu byggðarmynstri hlýst í formi umhverfis- og heilsufarsáhrifa. Það gengur enginn lengra en yfir nokkur bílastæði á leið sinni í Costco. Reyndar sýnir nýleg og mjög svo áhugaverð rannsókn Huldu Dagmarar Magnúsdóttur á hegðun fólks á bílaplönum í Reykjavík að við Korputorg aka viðskiptavinir jafnan á milli verslana innan bílastæðisins. Þ.e. þeir ganga ekki á milli verslananna í kjarnanum heldur keyra. Það er rétt að taka fram að byggingin við Korputorg er einungis 480 metra löng. 

    Samræmi og ósamræmi

    Líkt og á horni Frakkastígs og Lindargötu er deiliskipulag í gildi á milli Blikastaðavegar og Vesturlandsvegar sem er að mörgu leyti á skjön við áherslur núgildandi aðalskipulags í Reykjavík um mannvænt og vistvænt umhverfi þar sem áhersla er lögð á að draga úr notkun einkabílsins. Aðalskipulagið er hinsvegar ekki afturvirkt og vindur því ekki ofan af mistökum fortíðarinnar. Deiliskipulagið við Korputorg er eitt af þeim sem kveður á um mjög háan lágmarksfjölda bílastæða og í því eru að finna litlar sem engar vistvænar áherslur. Það yrði sennilega aldrei samþykkt í dag nema í verulega breyttri mynd. Costco rúmast engu að síður prýðilega innan þessa deiliskipulags og það er rétt að taka það fram að verslunin mun koma til með að fjölga störfum í austurhluta borgarinnar en það er eitt af aðalmarkmiðum núgildandi aðalskipulags. Borgaryfirvöldum í Reykjavík er því illa stætt á því að standa í vegi fyrir innreið Costco á Korputorg. Það er hinsvegar ekki þar með sagt að umræðan, einkum og sér í lagi á meðal borgarfulltrúa, eigi ekki að vera gagnrýnni og sett fram í stærra samhengi og með langtímahagsmuni almennings og umhverfisins að leiðarljósi.  

    Sofandi að feigðarósi

    Ég sakna þess að umræðan um hugsanlega komu Costco til landsins snúist ekki meira um þær umhverfis- og heilsufarslegu fórnir sem við sem samfélag þurfum að færa til þess að til þess að hér sé grundvöllur fyrir rekstri slíkrar verslunar. Að undanskildum nokkrum þjóðernis-popúlisma-pillum frá valinkunnu Framsóknarfólki verða sömu markaðssjónarmiðin um aukna samkeppni og lægra vöruverð alltaf ofan á í umræðunni án þess að þau séu nokkurn tíman dregin í efa. Skammtímahugsunin er algjör. Við verðum að fara að átta okkur á því að ákvarðanir í skipulagsmálum hafa bein áhrif á efnahag og heilsufar þjóðarinnar og sú staðreynd að það standi til að stórefla rekstargrundvöll Korputorgs án þess að fram fari nokkur umræða um hugsanlegar afleiðingar slíkrar ákvörðunar í stóru umhverfis- og heilsufarslegu samhengi er verulegt áhyggjuefni. Dæmið frá Halifax hér að ofan er ekki nein tilviljun. Það er ekki að ástæðulausu að árið 2020 muni annar hver fullorðinn einstaklingur í Nova Scotia þjást af offitu. Þegar sama staða verður komin upp á Íslandi eftir 30 ár þá er ég ekki viss um að skipulagsyfirvöld síðustu áratuga geti með góðri samvisku litið yfir fundargerðir þar sem litlar sem engar mótbárur voru hreyfðar við komu Costco til Reykjavíkur og eflingu Korputorgs í kjölfarið.   

    Ég er þeirrar skoðunar að verslunarkjarnar og byggðarþróun á borð við Korputorg séu asbest samtímans. Þessir kjarnar eru vissulega til margra hluta nytsamlegir, einkum til að halda niðri verðlagi og stuðla að aukinni atvinnu, en líkt og með asbest-einangrunina á árum áður þá er um að ræða dýrkeyptan og skammgóðan vermi.